Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 17:49:00 (2851)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að fyrir löngu síðan var ákveðið að forstöðumenn sjúkrastofnana, formenn stjórna sjúkrastofnana, yfirlæknar og fleiri aðilar, sem þeir teldu ástæðu til, kæmu hingað til Reykjavíkur til fundarhalda á þessum degi og var sérstaklega óskað eftir því að ég mætti þar. Þá var ekki ráðgert að þingfundur yrði í dag. Hins vegar var það svo og mér fannst ekki rétt að senda þessa menn heim eftir að þeir voru komnir um langan veg og var því á fundi með þeim. Það vissu þeir tveir hv. þm. sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vitnaði til áðan. Ég vil þakka þeim fyrir þá tillitssemi að hafa fallist á að fresta ræðum sínum þangað til að ég gæti komið og verið við. Það er auðvitað með slíkri tillitssemi sem mönnum ber að umgangast hver annan í þessu þingi en ekki með því að vera sífellt að stíga í stólinn til að passa upp á þingsköpin. Þeirra hefur verið nokkuð vel gætt bæði á þessu þingi og öðrum og þarf ekki mjög marga til þess að passa upp á þau í senn.
    En svo undarlegt er það nú að það er varla að manni sé gefið orðið um gæslu þingskapa að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þurfi ekki að taka til máls. Auðséð er að hann treystir ekki öðrum betur til að passa upp á þingsköp en sjálfum sér.