Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 12:58:00 (2873)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það voru reyndar nýjar spurningar sem komu fram, en það er ekkert við það að athuga, ræðan gaf tilefni til þess.
    Í fyrsta lagi varðandi vextina. Ég er ekki að tala um vaxtaákvarðanir ríkisins heldur fremur um vexti á eftirmarkaði. Vextir hafa verið að lækka þótt í litlu sé og það sem ég hef sagt hér stendur af því að ég tel að á næstunni, á næstu vikum og mánuðum muni vextir á eftirmarkaði lækka. Gerist það mun ríkisvaldið að sjálfsögðu lækka vexti á sínum skuldabréfum, enda verða þeir að fylgjast að til þess að ekki komi fram mikill munur sem muni gera það að verkum að ávöxtunarkrafan fer úr skorðum eins og við sáum reyndar á sínum tíma á húsbréfunum.
    Varðandi sjómenn vil ég eingöngu segja að mér finnst ekki vera ósanngjarnt að sjómenn á aldrinum 60--67 ára þurfi að þola sams konar skerðingu og fólk á milli 67 og 70 ára þegar um það er að ræða að atvinnutekjur skerði lífeyristryggingarnar. Hitt er svo annað mál að það hefði vel mátt hugsa sér að taka tillit til annarra tekna eins og lífeyrissjóðsstekna, en að málinu vel skoðuðu komst ríkisstjórnin að því að hyggilegra væri að láta atvinnutekjurnar einar skerða lífeyristryggingarnar.