Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:07:00 (2878)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er örstutt. Ég hef ekkert á móti því að Ríkisendurskoðun sé skrifað bréf og beðið um álit á þeirri breytingu sem gerð hefur verið nú á frumvarpsgreininni eftir að hún sendi sína umsögn.
    Í öðru lagi vil ég, eins og hv. þm., lesa það sem kemur fram --- og er það þá í þriðja sinn lesið --- hjá Ríkisendurskoðun, en að hennar mati er hæpið að fela nýjum aðila að fara með útgjaldaákvarðanir án þess að sá hinn sami taki ábyrgð á þeim, en samkvæmt frv. er ekki nægilega skýrt hver ábyrgð tilsjónarmanna verður í þessu tilliti.
    Við höfum komið til móts við þetta. Ég vísa til þess sem Ríkisendurskoðun segir síðar, að hún telji að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að ábyrgð á framkvæmd fjárlaga sé fyrst og fremst í höndum viðkomandi fagráðuneytis og forstöðumanna ríkisstofnana. Hér er verið að fjalla um tilsjónarmenn sem starfa algjörlega á ábyrgð viðkomandi fagráðherra.
    Ég tel því að það hafi verið komið til móts við þessar hugmyndir Ríkisendurskoðunar og hef ekkert á móti því að leitað sé eftir umsögn hennar á þeirri breytingu sem gerð hefur verið.