Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 14:27:00 (2892)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er í húsinu, en ef hann er staddur hér væri ágætt að hann kæmi í salinn og hlýddi á mál mitt vegna þess að í upphafi finnst mér full ástæða til að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hans áðan, sem flutt var af miklum tilfinningahita, um það alvarlega ástand sem væri í þessu þjóðfélagi.
    Ríkisstjórnin hefur að undanförnu alið á svartsýni hjá þjóðinni, eilíft krepputal, samdráttartal og erfiðleikar á ýmsum sviðum. Það er svo komið að ræður eins og hæstv. fjmrh. flutti áðan hafa lamað svo baráttuþrek heilla launþegasamtaka að launþegasamtökin velta því fyrir sér hvort óhætt sé að fara út í harðar aðgerðir til að knýja fram kjarabætur vegna þess að ríkisstjórnin hótar, hún er með sífelldar hótanir um uppsagnir, að svipta menn launum. Og sú stærsta er þessi: Ef þið ekki hlýðið tökum við til okkar ráða. Það er svo langt gengið í þessu erfiðleikatali öllu saman að hér stígur varla nokkur þingmaður, hvort sem það er stjórnarþingmaður, ráðherra eða stjórnarandstöðuþingmaður, í þennan stól án þess að byrja alltaf á því að afsaka orð sín með þeim hætti að menn vilji ekki gera lítið úr þeim miklu erfiðleikum sem við er að fást. Þessi síbylja er orðin svo hrikaleg meðal þjóðarinnar og þær hörmulegu aðgerðir sem ríkisstjórnin yrði að grípa til á ýmsum sviðum eru allar réttlættar með því að erfiðleikarnir séu svo hrikalegir. Þúsund milljóna króna lyfjaskattur á sjúklinga er réttlættur með þessum erfiðleikum, 700 millj. kr. skattur á þá sem þurfa að sækja læknisþjónustu sérfræðinga er einnig réttlættur með þeim erfiðleikum sem menn sjá alls staðar, 370 millj. kr. skattur á þá sem þurfa að sækja þjónustu heilsugæslunnar er einnig réttlættur með þessu, 500 millj. kr. skattahækkun á sveitarfélögin er einnig réttlætt með þessum erfiðleikum, 260 millj. kr. beinn skattur á elli- og örorkulífeyrisþega er réttlættur með þessum erfiðleikum. Bein hækkun tekjuskatts vegna þess að skattleysismörkin hækkuðu ekki í samræmi við verðlagsþróun, allt er þetta réttlætt með þeim óskaplegu erfiðleikum sem fram undan eru.
    En hverjir eru þeir stórkostlegu erfiðleikar sem við er að fást? Hverjir skyldu þeir vera? Ætli þjóðin hafi aldrei nokkurn tímann horfst í augu við aðra eins erfiðleika og nú eru? Og ætli engin ríkisstjórn hafi þurft að takast á við svona hrikalega erfiðleika eins og ráðherrarnir eru hér að barma sér undan öllum stundum? Staðreyndin er nefnilega sú að þessir erfiðleikar eru að öllu leyti heimatilbúnir.
    Í fyrsta lagi með því að það er áróður og svartsýnisraus í ríkisstjórninni sí og æ. Vitaskuld er það rétt að atvinnulífið á um þessar mundir við nokkra erfiðleika að etja. Hvernig skyldu þeir hafa komið til? Jú, fjmrh. hækkaði vaxtaþrepið í landinu um á milli 2 og 3% á fyrstu dögunum sem þessi ríkisstjórn starfaði. Það eru þeir stærstu erfiðleikar sem við er að etja.
    Árið 1983 kom hér til valda ríkisstjórn um mitt ár sem hafði ærin vandamál að takast á við. Þá var verðbólga 140%. Hver er hún nú? Hún er 5%. Er það núv. ríkisstjórn sem hefur skapað þessi skilyrði í þjóðfélaginu? Nei, það var samstarf fyrri ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins sem skapaði þessi skilyrði.
    Atvinnuástand. Það blasti við fjöldaatvinnuleysi og stöðvun margra fyrirtækja um mitt ár 1983 ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða í efnahagsmálum. Auðvitað blasir slíkt við núna ef ríkisstjórnin heldur áfram á þeirri braut sem hún er á með vaxtaokrið. Það kom fram í máli fjmrh. áðan að það væru litlir tilburðir af hans hálfu til að lækka vextina --- í andsvari því sem hann veitti hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni.

    Það var reiknað með að þorskaflinn árið 1983 yrði 360 þús. tonn. Um mitt ár koma fiskifræðingar til sjútvrh. sem þá var og tilkynntu honum að það væri alveg sama hvað menn reyndu að veiða mikið það árið, aflinn yrði ekki nema 290 þús. tonn. En þá lögðu þeir til út af ástandi fiskstofnanna að þorskafli yrði ekki nema 200 þús. tonn. En það var ekki gripið til aðgerða á því ári til að takmarka veiðina. Hver var niðurstaðan? Það veiddust það árið 292 þús. tonn. Hvað má reikna með að verði veitt á þessu ári? Á bilinu 280--300 þús. tonn. Þetta eru nú allir erfiðleikarnir sem við er etja í sjávarútveginum. Þrátt fyrir að það sé gert ráð fyrir að þorskafli verði að hámarki 265 þús. tonn er staðreyndin sú að það eru verulegar innstæður hjá mörgum í tilflutningi milli ára þannig að ef tekið er tillit til þess að yfirleitt veiðist heldur meira en aflahámarkið gerir ráð fyrir má búast við að þessi afli verði 280--300 þús. tonn.
    Loðnuveiðarnar. Það má reikna með að það verði hægt að veiða 700 þús. tonn af loðnu á þessu ári. Hvað mátti veiða 1983? Ekki eitt einasta tonn. Þetta eru þessir óskaplegu erfiðleikar sem ríkisstjórnin er að takast við á öllum sviðum. 700 þús. tonna loðnuveiði er meiri veiði en í meðalári ef menn miða við síðasta áratug.
    Það er því hart, þar sem menn ráðast á velferðarkerfið af slíkri hörku og grimmd eins og ég lýsti áðan, að menn skuli ætla að réttlæta allar þær gerðir með þessum óskaplegu erfiðleikum sem við er að fást. Afurðaverð er núna heldur hærra á föstu verðlagi miðað við dollara en það var árið 1983.
    Og hvar sér nú fjmrh. alla þessa erfiðleika blasa við? Forsrh. lýsti því yfir á ráðstefnu fyrir helgina þar sem hann var að spá um framtíð þjóðarinnar, ráðstefnu sem verkfræðingar héldu, að viðskiptahallinn yrði minni árið 1991 en menn hefðu áætlað að hann yrði og það stefndi líka í það samkvæmt spá að viðskiptahallinn yrði minni árið 1992 en menn hefðu áætlað. Hvar eru erfiðleikarnir, hæstv. fjmrh., sem þú varst hálfgrátandi yfir í ræðustólnum áðan í þinni ræðu?
    Árið 1983 var ekki verið að leggja á lyfjaskatt eins og Alþfl. er að gera núna, Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Þá var ekki lagður sérstakur skattur á sjúklinga sem heimsækja þurftu heilsugæslustöðvarnar eða sérfræðinga eins og Alþfl. er að gera núna. Þá var ekki sérstakur skattur lagður á elli- og örorkulífeyrisþega eins og Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands er að gera núna. Þannig mætti lengi, lengi telja.
    En hvað var gert? Það var gripið til almennra aðgerða í efnahagsmálum, aðgerða sem komu sem réttlátast niður á öllum. Það er annað núna. Svo segir hæstv. fjmrh. áðan í sinni ræðu: Við erum auðvitað að reyna að dreifa þessu eins og nokkur kostur er þannig að allir taki eitthvað á sig. --- Í gögnum sem við fulltrúar í heilbr.- og trn. Alþingis fengum þegar umræðan fór fram um tekjutengingu lífeyris kom fram að átta ellilífeyrisþegar eiga eignir hver og einn yfir 29 milljónir kr. Er hæstv. fjmrh. að taka á þessum hópi og láta hann greiða sérstaklega? Nei, þessi hópur getur eftir þessa breytingu eftir sem áður fengið heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót út úr tryggingunum eins og ekkert hafi í skorist. Er þarna verið að taka á, hæstv. fjmrh.? Nei. Og af hverju ekki? Vegna þess að það kæmi sér mjög illa fyrir kjósendur Sjálfstfl. ef lagður yrði á hátekjuskattur eða eignatekjur yrðu skattlagðar. En auðvitað er það --- eða er ekki svo --- að þessi stefna er líka í samræmi við stefnu Alþýðuflokksins --- Jafnaðarmannaflokks Íslands.
    Vandinn er eins og ég segi heimatilbúinn og það er ríkisstjórnin sem hefur fyrst og fremst mótað vandann.
    En áður en ég fjalla efnislega um það frv. sem hér liggur fyrir um ráðstafanir í ríkisfjármálum langar mig til að gera örlitla grein fyrir því hvernig að tekjutengingu elli- og örorkulífeyris var staðið.
    Ég byrja á að þakka formanni heilbr.- og trn. fyrir ágætis samstarf. Hann lagði sig fram í þeirri vinnu sem fram fór í nefndinni um að ná samstöðu. Fyrir hans tilstuðlan fyrir áramótin náðist mjög víðtæk samstaða í þessari nefnd um mjög mikilvægar breytingar á frv. sem ríkisstjórnin hafði lagt fyrir þingið. Eins og t.d. að horfið var frá þeirri miðstýringarhugmynd sem ríkisstjórnin var með um að skylda öll skólabörn að sækja þjónustu skólatannlækna. Það náðist samstaða um það í nefndinni að opna fyrir að það væri

hægt að sækja til hins almenna tannlæknis. Í öðru lagi náðu menn verulegum árangri í því að forvarnastörf í tannverndinni eru sérstaklega undanþegin greiðslum. Svona var það á ýmsum sviðum og þakka ég sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir að hafa beitt sér fyrir slíku samstarfi.
    En því miður var annað upp á teningnum í samstarfi í nefndinni eftir áramótin. Þar vil ég ekki kenna formanni nefndarinnar um heldur fyrst og fremst þeirri fljótaskrift sem var á vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Við fundum það sem í nefndinni vorum að í raun var þess krafist af formanni nefndarinnar að hann rifi málið út úr nefndinni án þess að það væri fullrætt og voru þó alltaf að koma upp athugasemdir og ábendingar á ýmsum sviðum um þá hluti sem betur mættu fara. Tveimur mjög veigamiklum spurningum var t.d. ósvarað þegar málið var tekið út úr nefnd. Það var hins vegar bætt úr því að nokkru leyti í starfi efh.- og viðskn.
    Afstaða Framsfl. til tekjutengingar ellilífeyris og örorkulífeyris hefur verið skýr, enda birtist hún mjög skýrt í frv. því sem fyrrum heilbrrh. Guðmundur Bjarnason lagði fyrir Alþingi á sl. ári. Þar var gert ráð fyrir því, og við höfum alltaf gengið út frá því grundvallaratriði, að tekjutenging elli- og örorkulífeyris sé hluti af heildarendurskoðun almannatryggingalaganna, en um leið að hugsanlegum sparnaði sem af slíkri tekjutengingu gæti orðið yrði ráðstafað innan almannatryggingalöggjafarinnar til að bæta úr á ýmsum stöðum þar sem verulega er þörf á að bæta úr.
    Hæstv. félmrh. er held ég að fullyrða megi ímynd sanngirninnar og félagslegs réttlætis og má kannski segja að þar skilji hana að sem raunverulegan jafnaðarmann og hinna sem bara kalla sig jafnaðarmenn.
    Á síðasta ári, eins og ég vitnaði í, lagði fyrrv. heilbrrh. fram frv. um heildarendurskoðun almannatryggingalaganna. Þar var gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á almannatryggingalöggjöfinni með það að meginmarkmiði að færa til innan löggjafarinnar frá þeim sem betur mega sín til hinna sem búa við erfiðari aðstæður. Það tók langan tíma að koma frv. saman eða hátt í þrjú ár, enda er um gríðarlega flókna, erfiða og mjög vandasama og viðkvæma löggjöf að ræða. Ég var formaður þeirrar nefndar.
    Nefndin byrjaði á að kalla til 40 aðila sem með einum eða öðrum hætti tengdust almannatryggingunum. Þegar endurskoðuninni var lokið kölluðum við aftur til sömu aðila til að kynna fyrir þeim hvað hefði verið sett inn í þessa heildarlöggjöf. Ég held ég megi fullyrða að ábendingar og athugasemdir komu frá öllum þessum hópum um ýmislegt sem menn væru að gleyma, þyrftu að athuga betur og vanda betur endurskoðunina. Það er þetta sem við minni hlutinn í heilbr.- og trn. vorum að benda á, að það á ekki að vera að krukka hvað eftir annað í þessa löggjöf og vita afskaplega lítið hvað menn eru að gera og til hvers slíkt gæti leitt og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði í ræðu sinni fyrir helgina, í andsvari, grein fyrir því að áætlað hefði verið að frv. fyrrv. heilbrrh. sparaði 1 milljarð 678 millj. kr. á lífeyristryggingunum. Ef túlkun ráðherrans á öllum þeim tölum sem hann er að fara með í sínu ráðuneyti er með þessum hætti er ekki skrýtið þó ekki vel sé komið.
    Þarna er um beina rangtúlkun að ræða því að í þessari endurskoðun var gert ráð fyrir að nettóbreytingin á lífeyristryggingunum í heild yrði 24 millj. Með sérstökum lögum átti að færa mæðra- og feðralaunin, sem voru 679 millj. á þessum tíma, yfir í skattakerfið. Sérstök lög áttu að vera um fæðingarstyrk og fæðingarorlof. Fæðingarstyrkurinn upp á 540 millj. var færður yfir í sérstök lög. Sama gilti um fæðingardagpeninga. En á móti þessu var síðan tekið yfir frá félmrn. 170 millj. kr. vegna þess að það var gert ráð fyrir að fötluð börn nytu þjónustu almannatrygginganna.
    En hæstv. félmrh., sem er ímynd sanngirninnar og þessa félagslega réttlætis og hinn raunverulegi jafnaðarmaður, gerði sig þó sekan, ég vil segja sekan, um það þegar fyrrv. heilbrrh. lagði fram sitt frv. á Alþingi að hún snerist gegn frv. ásamt öðrum alþýðuflokksmönnum. Þetta er manni sárara vegna þess að maður trúði því í raun að hæstv. félmrh. væri raunverulegur jafnaðarmaður.
    Áður en ég geri efnislega grein fyrir þeim breytingum sem ríkisstjórnin leggur nú

til ætla ég að fá að fara yfir það sem í þessu frv. var þannig að hvorki hæstv. heilbr.- og trmrh. né aðrir stjórnarsinnar séu að vitna í þetta frv. með órökstuddum forsendum og oft og tíðum fara þeir með kolrangt mál.
    Örorkulífeyririnn átti að hækka um 14%. Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var á móti þessu. Tekjutrygging örorkulífeyrisþega átti að hækka um 14%. Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var líka á móti þessu. Frítekjumark hjóna átti að hækka úr 70 í 75%. Alþfl. var á móti þessu. Það átti að afnema 90%-regluna úr almannatryggingalögunum sem gerði ráð fyrir að 10% skerðing væri á lífeyri þeirra sem væru í sambúð eða nytu hagræðis af sambýli. Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var á móti þessu. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar vegna tekna var lækkað úr 45% í 40%. Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var á móti þessu. Örorkustyrkur var hækkaður verulega og var gert ráð fyrir að það væri hægt að greiða 50% uppbót á örorkustyrk sem ekki er hægt samkvæmt núgildandi lögum. Alþfl. var á móti þessu. Eða með öðrum orðum: Alþfl. var á þessum tíma á móti því að hægt væri að færa 180 millj. kr. frá þeim sem betur mega sín og fá greiðslur samkvæmt almannatryggingalögunum í dag til þeirra sem raunverulega þurfa á aðstoðinni að halda, eins og öryrkjar.
    Andstaða Alþfl. við frv. sem fyrrv. heilbrrh. lagði fram verður ekki öðruvísi skilin í dag en að Alþfl. hafi verið á móti þeim réttlætismálum sem ég var þarna að rekja vegna þess að það var bara eitt sem Alþfl. bar við. Og hvað var það? Það var að ekki mætti tekjutengja lífeyrinn. En núna flytur hæstv. heilbr.- og trmrh. sjálfur frv. um að elli- og örorkulífeyrinn eigi að tekjutengja og segir síðan í sjónvarpsviðtali: Það er grundvallarmunur á frv. sem ég legg hér fram og hefur áform um að tekjutengja lífeyri og því frv. sem fyrrv. heilbrrh. lagði fram. --- Í hverju var þessi grundvallarmunur fólginn?
    Grundvallarmunurinn var fólginn í því að það átti að skerða greiðslurnar í frv. fyrrv. ráðherra um 30%, en samkvæmt frv. núv. ráðherra um 25%. Þetta var grundvallarmunurinn. En áður hafði fyrrv. heilbrrh. lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingar yrði lækkað úr 45% í 40%, sem auðvitað hefði vegið miklu, miklu þyngra en þessi 5% breyting ein og sér.
    Þetta sýnir manni best að það er ekki alveg ljóst, hvorki af hæstv. heilbr.- og trmrh. né öðrum þingmönnum Alþfl. né ríkisstjórn í heild, hvað menn eru hér að fjalla um. Og fyrir utan það var gert ráð fyrir að þessi skerðingarhlutföll, 90%-reglan, frítekjumarksreglan og skerðingarhlutfall tekjutryggingarinnar giltu um ellilífeyrisþegana þannig að oft og tíðum var verið að færa til þeirra ellilífeyrisþega sem bjuggu og búa við verstu aðstæðurnar frá því sem nú er.
    Vasapeninga þeirra sem inni á stofnunum eru átti að hækka úr 630 kr. í 10.000 kr. og það átti að tekjutengja þessar greiðslur. Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var á móti þessu.
    Alþfl. var líka á móti því nýmæli sem þetta frv. gerði ráð fyrir um að greiða uppihaldsstyrk til sjúklinga eða fylgdarmanns sem dvelja 14 daga samfellt eða lengur á 12 mánaða tímabili utan heimabyggðar til að sækja sér læknishjálp. Það var ekki hægt að koma þessu í framkvæmd vegna þess að Alþfl. var á móti því.
    Gert er ráð fyrir að ekkju- og ekkilsbætur einstaklinga mundu hækka og bótatími yrði lengdur, en Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands var á móti því að þetta kæmist í framkvæmd og einu tillögurnar sem menn nú sjá frá Jafnaðarmannaflokki Íslands eru skerðingartillögur, það eru bara skerðingartillögur á ellilífeyrisþegana og öryrkjanna.
    Barnalífeyrir átti að hækka. Alþfl. var á móti því.
    Sjúkra- og slysadagpeningar. Sjúkradagpeningar áttu að hækka um 55%. Alþfl. var líka á móti þessu.
    Þannig mætti auðvitað lengi telja. Breytingar á skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins. Það var gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á skipulagi Tryggingastofnunar í frv. fyrrv. ráðherra. Það eru nákvæmlega þær breytingar sem Ríkisendurskoðun leggur nú til að gerðar séu á skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins og ég held að ég hafi einhvers staðar heyrt eftir hæstv. heilbr.- og trmrh. að nauðsynlegt væri að hrinda í framkvæmd. En Alþfl. var

á móti því þegar þetta frv. kom fyrir þingið.
    En ef ég sný mér nú að efnislegri umfjöllun um hvaða breytingar er í raun og veru verið að gera á almannatryggingalögunum ætla ég að vitna í álit minni hluta heilbr.- og trn. Alþingis sem hún sendi til efh.- og viðskn. Þar segir minni hlutinn: ,,Tillögurnar eru handahófskenndar, vanhugsaðar, illa undirbúnar og illframkvæmanlegar.``
    Þeir sem lásu þetta yfir hugsuðu auðvitað sem svo: Er nú hægt að standa við öll þau stóru orð sem þarna eru? Við veltum því fyrir okkur þegar við settum þetta á blað, en eftir að hafa setið fundi nefndarinnar og kallað til fundar við nefndina starfsmenn Tryggingastofnunar, starfsmenn heilbr.- og trmrn. og ýmsa þá aðila sem með einum eða öðrum hætti tengjast almannatryggingalöggjöfinni er ekkert af því sem þarna er sett á blað ofsagt, því miður.
    Ýmsir hlutir sem upp komu í starfi nefndarinnar voru lagfærðir þegar augljóst var að réttur ýmissa hópa var beinlínis skertur og þeir sem frv. sömdu og að því stóðu og lögðu fyrir þingið höfðu ekki hugmynd um. Gleggsta dæmið um þetta er barnalífeyririnn, sem var þó leiðréttur á síðustu dögum nefndarstarfsins.
    En það eru ýmsir aðrir hlutir, eins og bensínstyrkur til öryrkja, kaup á ýmsum hjálpartækjum í bíla fyrir öryrkja, sem nú svífa, ef þessi breyting fer í gegn, algerlega í lausu lofti og útilokað er að segja til um hvernig muni fara. Það eru að vísu fyrirheit um það af hálfu hæstv. ráðherra að þetta verði lagfært í meðförum og vinnu í Tryggingastofnun ríkisins. En það gæti einfaldlega farið svo að Tryggingastofnun ríkisins skorti lagaheimildir til að gera slíka hluti.
    Það kom fram hjá Hilmari Björgvinssyni, deildarstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, að greiðslur þeirra 600 sjómanna sem fá lífeyri í dag frá Tryggingastofnun mundu að langstærstum hluta þurrkast út. Ég hygg að það sé rétt að a.m.k. munu 500 þeirra algjörlega missa sinn grunn. Það er sorglegt til þess að vita að þegar slíka breytingu á að fara að gera og ekki vitað annað en hún hafi þingmeirihluta skuli maður finna í þingtíðindum frá árinu 1981, þegar var rætt um breytingar á frv. til laga um almannatryggingar þar sem var verið að lögfesta það ákvæði að sjómenn skyldu fá lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins þegar þeir yrðu 60 ára, að þá sagði á þingi hv. alþm. Karl Steinar Guðnason, með leyfi forseta, og ætla ég að fá að vitna í örfá orð úr hans ræðu:
    ,,Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, þá ánægju sem menn hafa sýnt yfir því að þetta frv. skuli nú vera komið úr nefnd. Rétt er að geta þess að það ákvæði sem hér hefur verið tekið upp er þáttur í kjarasamningum, er þáttur í kjarasamningum sem Sjómannasamband Íslands þurfti að knýja á um, en eftir stendur það að Lífeyrissjóður sjómanna er afskaplega illa staddur og lífeyrir sem sjómenn fá er afar nöturlegur. Og ég tala nú ekki um aðstandendur þeirra. Nokkur bót varð á við þessa síðustu samninga, en betur þarf að gera til þess að réttlætinu verði náð.``
    ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því nú stendur til að hæstv. samgrh. flytji skýrslu sína eins og um hafði verið samið kl. 3. Ef hv. þm. á mikið eftir af ræðunni væri betra að hann frestaði henni þar til skýrsluflutningi lýkur eða umræðu um hana.) Forseti. Ég gæti haldið að ég ætti eftir í mesta lagi um 10 mínútur af minni ræðu og ef mögulegt væri að ég fengi að ljúka henni þætti mér vænt um það. ( Forseti: Ef um er að ræða aðeins 10 mínútur er sjálfsagt að hv. þm. fái að ljúka sinni ræðu áður en skýrsla ráðherrans verður flutt.) Ég þakka forseta fyrir það, en ætla að fá að halda áfram að vitna í hv. þm. Karl Steinar Guðnason þar sem hann segir:
    ,,Það er mikils virði að sérstaða sjómanna var viðurkennd. Hjá öðrum þjóðum tíðkast það með þá sem í herþjónustu eru að þeir komast á eftirlaun fyrr en aðrir. Ýmsar aðrar starfsstéttir gera það einnig --- starfsstéttir sem eru metnar á þann hátt að þær skipti feykilega miklu máli fyrir viðkomandi þjóð. Ég tel að það sé ástæða fyrir okkur að líta á sjómannastéttina sem okkar hermenn, okkar starfsmenn við að halda uppi lífskjörum þjóðarinnar. Við þurfum að meta það svo sem unnt er.``
    Nú þætti mér gaman að heyra frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, hvort hann ætlar nú, tíu árum síðar, að standa að því að þurrka þetta mikilvæga ákvæði út úr almannatryggingalögunum og svipta sjómennina, hermenn þjóðarinnar, þeim rétti sem hann talaði svo fagurlega um hér fyrir tíu árum? Staðreyndin er sú að sennilega er Lífeyrissjóður sjómanna ver staddur nú en hann var á þessum tíma.
    Í áliti minni hluta efh.- og viðskn. er á það bent að í þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni sé í raun sett á elli- og örorkulífeyrisþegana nýtt skattþrep sem er 55%. Á sama tíma eru eignatekjur algerlega látnar eiga sig. Eins og ég vitnaði í áðan er í þeim gögnum sem við fengum í heilbr.- og trn. gert ráð fyrir því og það er sagt beinlínis að átta einstaklingar eigi eignir hver um sig upp á 29 millj. kr. Sumir af þessum einstaklingum eru að sækja um bætur frá almannatryggingum, jafnvel lægstu bætur, sérstaka heimilisuppbót sem er undir 5.216 kr. á mánuði. ( SigG: Þetta er rétt.) Formaður heilbr.- og trn. staðfesti núna að þetta sé rétt. En auðvitað er alger svívirða að menn skuli nú byrja á að ráðast þannig á elli- og örorkulífeyrisþega en láta hóp sem auðvitað hefur stórkostlegar eignatekjur sitja með allt sitt án þess að við nokkru sé við hreyft. ( Gripið fram í: Þið höfðuð 20 ár til að laga þetta.) Það er rétt. Menn hafa haft langan tíma til þess, virðulegur þingmaður, að laga þessa hluti, en það sem hefur á skort og bersýnilega kom fram á síðasta þingi er að Alþfl. hefur staðið í vegi fyrir þessum hlutum. Það eru staðreyndir málsins.
    En vegna þess að ráðherrar hafa fyrr kvartað yfir því að þeir fái ekki beinar spurningar langar mig til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. átta spurninga í lok minnar ræðu og tek þá saman það sem ég hef verið að segja.
    Í fyrsta lagi þetta: Hvernig hyggst Tryggingastofnun ríkisins meðhöndla þá elli- og örorkulífeyrisþega sem búa erlendis? Hvernig á að taka á tekjum þessa hóps?
    Í öðru lagi: Hvernig ætlar Tryggingastofnun ríkisins, og þá auðvitað heilbr.- og trmrh., að meðhöndla þann hóp sem er með hluta lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins í dag vegna þess að þeir hafa búið það skamman tíma hér á landi?
    Hvernig ætlar hæstv. heilbr.- og trmrh. að koma til móts við þá öryrkja sem nú missa bensínstyrkinn?
    Hvernig ætlar heilbrrh. að koma til móts við þann hóp öryrkja sem getur ekki eftir þessa breytingu fengið styrk til kaupa á hjálpartækjum í bíla sína þannig að þeir geti notað þá?
    Hvernig hyggst heilbr.- og trmrh. ná þeim 260 millj. kr. sparnaði sem er raunverulega fullyrt að eigi að ná með þessari tekjutengingu þegar að minnsta kosti 1 / 12 hluti þess er nú þegar fallinn út? Það er alveg ljóst að janúarmánuður er dottinn út þar sem bætur hafa verið greiddar fyrir þann mánuð og stefnir í að febrúarmánuður detti út líka.
    Hvernig á að standa að framkvæmd skerðingarinnar í Tryggingastofnun? Starfsmenn Tryggingastofnunarinnar hafa lýst því yfir að hún sé óframkvæmanleg. Það gerðu þeir í hv. heilbr.- og trn. Ég held að það sé rétt og því spyr ég ráðherra: Er meiningin að miða áfram við þessi þrjú viðmiðunarteknamörk sem frv. gerir ráð fyrir að miðað sé við, í fyrsta lagi atvinnuteknamörkin, í öðru lagi viðmiðunarmörk fyrir tekjur úr lífeyrissjóðunum og í þriðja lagi viðmiðunarteknamörk fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem eru komnar yfir 62.000 kr. á mánuði eða á, hæstv. heilbr.- og trmrh., bara að taka þann eina hóp 5.500 og skerða sérstaklega? Og þá spyr ég: Hvernig gengur að safna skattskýrslum þessa hóps sem ekki er til í Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að þeir þurfa ekki í dag að sanna sínar tekjur? Trúir ráðherrann því að það sé hægt að koma öllu þessu í kring fyrir 15. jan., sem er liðinn, vegna þess að menn þurfa að hafa sent allar forsendur til Skýrsluvéla ríkisins fyrir miðjan mánuðinn á undan áður en bætur eru greiddar út? Auðvitað tekst þetta ekki, það er alveg ljóst.
    Hvað með tvísköttunarsamninga milli þeirra landa sem við erum að taka bætur af hjá fólki í dag sem er til dæmis statt í Bandaríkjunum? Hvernig kemur þetta inn í tvísköttunina?
    Og í áttunda lagi: Hver verður útgjaldaaukinn sem af því hlýst að taka elli- og örorkulífeyrisþega, eins og frv. gerir beinlínis ráð fyrir, út af vinnumarkaðnum þar sem þeir hafa verið að afla sér verulegra tekna í dag og koma þeim inn í tryggingarnar og greiða

þeim tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót? Var reiknað með þessum útgjaldaauka í þessum 260 millj. kr.? Það var ekki gert. Og hvernig hyggst þá ráðherrann ná þeim 260 millj. kr. sparnaði sem þarna er áætlaður?