Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 17:55:00 (2914)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það var auðheyrt á ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., fyrrv. samgrh., að hann er viðkvæmur fyrir þeirri gagnrýni og þeim ábendingum sem ég var með í minni ræðu. Ég tel að eðlilegt sé að hann sé viðkvæmur fyrir því að bent sé rækilega á þau auknu framlög sem eru til hafnagerðar í landinu samkvæmt fjárlögum þessa árs.
    Hins vegar ber að viðurkenna að hv. þm. hafði uppi ágæta tilburði sem samgrh. til að tryggja höfnunum framlög, koma á föstum tekjustofni fyrir hafnirnar vegna framkvæmda. Auðvitað ber að viðurkenna það. Að vísu náði hann því ekki fram, en ég held að hann hljóti að vera sammála þeirri leið, og á það benti ég, og hljóti að geta fallist á þá leið sem farin er þó að ýmsu leyti sé hún óþægileg fyrir sumar stærri hafnirnar, það viðurkenndi ég.
    Varðandi kattarþvott og afstöðu til sveitarfélaganna vil ég bara segja að ég gagnrýndi málsmeðferð og dró ekkert undan í því, en ég stend að þessu vegna þess að ég tel að með öðrum hætti sé komið til móts við sveitarfélögin og álag á vörugjald sem rennur til Hafnabótasjóðs sé til hagsbóta fyrir flestar hafnir og þar með sveitarfélögin.