Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:00:00 (2917)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. tók af mér ómakið að sumu leyti, en ég vil þó segja að mér fannst þetta var að ýmsu leyti undarleg réttlæting fyrir þeim stuðningi sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur lýst yfir við þær fyrirætlanir sem eru í þessu frv. Hann var rétt áðan að segja að hann hefði gert athugasemdir við þessar hugmyndir á sínum tíma og gagnrýnt þær. Hann ber þær nú fram sem niðurstöðu. Að vísu eru þær breyttar, en það hljóta þó að vera sömu gallar að mörgu leyti á þeim og voru áður.
    Auðvitað eru á þessu gallar, við höfum bent á það, það eru margföldunaráhrif og annað sem kom til. Menn eru að hæla sér af að hafa hækkað framlög til hafna. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en það er þó tekið allt af með þessari nýju skattheimtu og er rétt að hafa það í huga.
    Hins vegar fannst mér annað sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. vera afar merkilegt og það var að hann lét sig hafa það að segja að það þyrfti að koma í veg fyrir að sveitarfélög sem ekki hafa nýtt sér rétt sem þau hafa haft samkvæmt reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fengju framlög úr Jöfnunarsjóði. Það finnast mér afar merkilegar yfirlýsingar vegna þess að ég geri ráð fyrir að þessar reglur hafi átt að ganga jafnt yfir alla. En núna, þegar einhverjir ætla að nýta sér réttinn sem allir hafa viðurkennt fram að þessu

að ætti að vera fyrir hendi, vilja menn semja nýjar reglur til að koma í veg fyrir að þessir aðilar fái að nýta sér þann rétt sem þeir hafa. Það finnst mér ekki ganga upp. Ég verð að mótmæla slíkum hugmyndum þó að mér þykir miður að þessi sveitarfélög skuli vera komin inn í myndina og veikja þannig Jöfnunarsjóðinn. En menn verða auðvitað að taka því sem gerist í þessu.