Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 19:23:00 (2929)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hef heldur ekki við höndina þessi orð ráðherrasveinsins --- gott orð --- en ég held að ég viti hvað þarna var um að ræða. Þetta var spurning um það hvort væri hægt að takmarka aðgang að framhaldsskólunum. Ég tek fram að það er ekki neitt á döfinni í ráðuneytinu að gera einhverjar slíkar ráðstafanir en vegna þess að þessi spurning kom upp, þá fengum við lögfræðilegt álit fyrir þeirri spurningu hvort það væri hægt, hvort skólayfirvöld gætu takmarkað aðgang að sínum skólum, og það álit sem við fengum var

einmitt í þá veru að það færi eftir fjárveitingum til skólanna hvort hægt væri að fullnægja þessu ákvæði sem ef ég man rétt er í 16. gr. framhaldsskólalaganna.
    Ég ætla ekki að leggja neinn sérstakan dóm á þetta álit en það er til, en ég ítreka enn og aftur að það eru engar slíkar ráðagerðir uppi í ráðuneytinu og ég ítreka að ég tel mig ekki þurfa breytingu á framhaldsskólalögunum til að ná þeim sparnaði sem að er stefnt.