Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 19:26:00 (2931)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Herra forseti. Það sem liggur fyrir er að hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að hann muni standa þannig að sparnaði í grunnskólanum að hann komi til framkvæmda haustið 1992 og að hann muni leita fanga annars staðar í menntmrn. eftir því sem þá vantar á. Út af fyrir sig er það rétt hjá ráðherranum að menntmrn. er stórt ráðuneyti og það er hægt að koma ýmsum hlutum við þar. En hitt er ljóst að til þess að ráðherrann geti sparað meira annars staðar en gert er ráð fyrir í fjárlögum verður hann að fá til þess sérstakar nýjar heimildir. Hann getur ekki aukið við sparnað eða niðurskurð á einstökum liðum og stofnunum öðruvísi en að leita nýrra heimilda í því sambandi og það er ekki ráðrúm við 2. umr. til að ræða það mál ítarlega, en við gerum það þá við 3. umr. og fáum þá væntanlega upplýsingar um hvað ráðherrann er þar með í huga.
    Varðandi framhaldsskólann er það algerlega ljóst að fjárlögin víkja ekki til hliðar neinum lögum, hvorki um framhaldsskóla né annað. Og í framhaldsskólalögunum er ákvæði um að framhaldsskólinn sé fyrir alla og það ákvæði hefur verið túlkað þannig að þeir sem hafa verið 10 ár í grunnskóla geti gengið beint inn í framhaldsskólann. Til þess að breyta því verður að mínu mati að breyta framhaldsskólalögum. Út af fyrir sig hefur ríkisstjórnin meiri hluta á Alþingi til að gera það, en ég fullyrði að innan framhaldsskólalaganna eins og þau eru núna er það ekki hægt þó auðvitað sé hægt að gera þar ráðstafanir t.d. til að breyta reglum um hámark í námshópum svo að ég nefni dæmi sem hafa sparnaðaráhrif í einstökum framhaldsskólum.
    Það sem stendur svo eftir af þessum umræðum, herra forseti, er að það stendur til að leggja niður í skólum landsins, grunnskólum og framhaldsskólum, sem samsvarar, hvernig sem menn vilja orða það, um 150--250 stöðum í haust í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Þó að það komi kannski ekki nákvæmlega þannig út liggur fyrir að þetta samsvarar 150--250 stöðum kennara sem ætlunin er að leggja niður frá og með haustinu 1992.