Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 14:04:00 (2977)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég fagna sérstaklega því sem fram kom hér hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. Eins og kunnugt er hefur hann verið þeirrar skoðunar og látið þau boð út ganga til þjóðarinnar allrar að hann væri hinn fullkomni ráðherra, honum yrði aldrei á nokkur skekkja af neinu tagi. Nú hefur það hins vegar gerst, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefur viðurkennt að honum hafi orðið á mistök og það sem meira er, hann hefur viðurkennt að minni hlutinn hafi bent honum á mistökin og hann hafi síðan hætt við að láta skerða barnalífeyrinn.
    Út af orðum hans hér áðan og ummælum og tilvitnunum í frumvörp fyrrv. ríkisstjórnar og ummælum síðasta ræðumanns, þá er greinilegt að hæstv. heilbr.- og trmrh. ætlar að reyna að standa með verkum fyrrv. ríkisstjórnar en falla með verkum núv. ríkisstjórnar.