Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 16:17:00 (2995)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Virðulegur forseti. Það mál sem er til umræðu er frv. til lánsfjárlaga. Eitt af þeim málum sem hefur verið tekið upp í sambandi við þetta frv. eru síldarsölumálin til Rússlands sem hér hafa verið til umræðu og vakin upp sú spurning hvort ekki væri rétt að ríkið veitti ábyrgð til þess að greiða fyrir þeim viðskiptum ef Landsbanki Íslands treysti sér ekki til að gera það. Það er alveg ljóst hvað gerst hefur í málinu og ekki síst eftir að hafa lesið grein bankastjóra Landsbankans. Hann telur að það hafi verið mjög eðlilegt að leita álits ríkisstjórnar Íslands í málinu og færir fyrir því ákveðin rök. Ríkisstjórn Íslands kaus ekki að svara því strax heldur setja það í nánari athugun en svo loksins þegar svarið barst um áramótin var svarið á þá leið að Landsbankinn yrði að taka þessa ákvörðun sjálfur og ríkisstjórnin legði ekki mat á málið. Landsbankinn skildi það hins vegar svo að ríkisstjórnin væri að lýsa yfir andstöðu í málinu vegna þess að hún kaus að senda álit Seðlabanka Íslands með sínu svari sem var neikvætt. Þannig var löngum tíma eytt í málið án þess að nokkur niðurstaða fengist og verður það að teljast með ólíkindum að ekki skuli vera hægt að ræða mál sem þetta með öðrum hætti, að það skuli ekki vera það samband milli bankastjóra mikilvægasta banka landsins, sem hefur nánast allan sjávarútveginn í viðskiptum, og ríkisstjórnarinnar að ekki geti verið skilningur um það hvað hér er á ferðinni. Þetta minnir nokkuð á sandkassaleik sem menn eiga að sjálfsögðu ekki að viðhafa þegar mikilvægustu hagsmunir landsins eru í húfi og ætla ég ekki að leggja neitt mat á um það hverjum þar er um að kenna. Landsbanki Íslands hefur sagt að hann komi ekki nálægt þessu máli meir. En það er að sjálfsögðu skylda Landsbankans að halda áfram að vinna að lausn málsins hvað sem líður svörum ráðherra í ríkisstjórn Íslands og væri mikilvægt að menn

létu af því að kasta málinu á milli sín með miklum loftfimleikum í fjölmiðlum og settust niður og ræddu það og fyndu á því lausn. Hins vegar er alveg ljóst að þessi vertíð er senn á enda og dýrmætum tíma hefur verið eytt í lítilsverða hluti. Við hljótum hins vegar að fara fram á það í efh.- og viðskn. að fulltrúi Seðlabanka Íslands komi og geri grein fyrir málinu í nefndinni milli 2. og 3. umr. í framhaldi af því bréfi sem var skrifað. Ljóst er að Seðlabanki Íslands tók að sér ákveðið forustuhlutverk í málinu og eðlilegt að hann geri grein fyrir því hver staða þess er. Hér er að sjálfsögðu ekki um einfalt mál að ræða en ég harma það hvaða svip það hefur fengið á undanförnum vikum og hvaða tíma hefur verið eytt án þess að vinna í málinu.
    Ég hafði vænst þess að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu því að ég ætlaði fyrst og fremst að leggja fyrir hann nokkrar spurningar án þess að hafa um það mjög langt mál. En ég vildi aðeins biðja um upplýsingar um það, hæstv. forseti, þó að ég hafi fullan skilning á því að hæstv. fjmrh. þurfi að fara frá, hvort vitað sé hvenær hans sé að vænta. ( Forseti: Það er verið að ná í ráðherrann.) Það hefur komið fram að hæstv. fjmrh. er hér í húsinu og gengur nú hér í salinn.
    Ég vildi fá að leggja fyrir hæstv. fjmrh. nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á frv. til lánsfjárlaga vegna þess erindis sem kom frá Fiskveiðasjóði Íslands í desembermánuði og var ekki tekið fyrir í efh.- og viðskn. Það erindi misfórst af einhverjum ástæðum en ég hafði haft orð á því að mér þætti undarlegt að nægilegt væri að gera breytingar á frv. að því er varðaði Iðnlánasjóð en ekki að því er varðaði Fiskveiðasjóð. Ég kom þessum áhyggjum mínum á framfæri við formann nefndarinnar sem ræddi það þegar í stað við viðkomandi ráðherra sem taldi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af málinu. Hins vegar kom í ljós að ástæða var til þess að spyrja þessara spurninga því að nokkru síðar mun þetta erindi hafa borist frá Fiskveiðasjóði.
    Þetta mál er tilkomið, hæstv. fjmrh., vegna þess að meiri hluti nefndarinnar ákvað að gera breytingar á frv. og vitnaði þá m.a. til þess að þetta væri gert vegna þess að nú væri ákveðið að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög. Það er nokkuð dæmigert um margt sem hefur komið upp á að tilkynningar þessa efnis berast með ýmsum hætti. Hæstv. fjmrh. tilkynnir það gjarnan á morgunverðarfundi að hann vilji selja Búnaðarbankann á hálfvirði og hefur útskýrt það nokkrum sinnum á Alþingi hvað hann átti við með því og væntanlega mun hann gera það oftar því að það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra geri glögga grein fyrir því máli. Síðan tilkynnir meiri hluti efh.- og viðskn. í nál. að það standi til að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög og sú brtt. sem hafi verið flutt að því er varðar fjárfestingarlánasjóðina sé fyrsta skrefið í þeim efnum. Eftir að þetta hafði verið tilkynnt kemur í ljós að alvarlegir hlutir eru á ferðinni því að Iðnlánasjóður getur alls ekki unað því að breytingin eigi sér stað með þeim hætti eins og þar var lagt til. Síðan áttar Fiskveiðasjóður sig á þessu líka og kemur á framfæri við nefndina erindi þar sem kveður við sama tón og ég hygg að það sama kunni að eiga við fleiri sjóði sem þannig er ástatt um. Það er nauðsynlegt að nefndin taki málið fyrir og stjórn Fiskveiðasjóðs verði kölluð fyrir til þess að hún fái tækifæri til að gera grein fyrir málinu og mikilvægt að fá afstöðu hæstv. fjmrh. til þess hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingu á með sama hætti og var gert að því er varðaði Iðnlánasjóð.
    Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um það hvernig hann hyggst standa að útgáfu húsbréfa á árinu 1992. Tilkynnt hefur verið að gefnir verði út þrír flokkar upp á 4 milljarða hver flokkur og ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort staðið verði að sölu þessara bréfa án tillits til þess hvaða vextir verða ríkjandi í landinu og hvort virkilega sé rétt að það standi til að selja þessi bréf í stórum stíl í erlendum fjármagnsmörkuðum. Í þessu sambandi vil ég minna á orð framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands í þeirri von að hæstv. fjmrh. taki meira tillit til orða hans en orða þess sem hér stendur þar sem hann varaði mjög við því að farið yrði út á slíka braut. Hvaða tilgangi á það nú að þjóna að selja ríkistryggða pappíra með þeim hætti á erlendum mörkuðum? Er það ekki hættulegt, hæstv. fjmrh. og er ekki ástæða til að staldra við í þessum efnum? Mér fannst að það

kæmi fram í svari hæstv. fjmrh. hér áðan að í reynd hefði ekkert verið ákveðið í málinu. Allt væri fljótandi í því eins og í öðru og ég gat ekki fengið neitt út úr svari hans og má vera að hæstv. fjmrh. skilji hvernig á því standi að menn reyna að fara yfir sömu atriðin nokkrum sinnum á Alþingi ef það gæti orðið til þess að fá frekari svör. Það er nokkuð hvimleitt þegar hæstv. fjmrh. kvartar undan því að hér flytji allir sömu ræðuna og má vel vera að hann heyri bara eina ræðu og hún klingi í eyrum hans. Hæstv. fjmrh. er trúlega orðinn heldur leiður á þessu, uppgefinn maður og heyrir bara eina ræðu sem virðist fara nokkuð í taugarnar á honum. En ég vil fullvissa hæstv. fjmrh. um það að hér hafa verið fluttar margar og mjög breytilegar ræður þótt það kunni að vera að nokkur af aðalefnisatriðunum sem skipta mestu máli séu endurtekin nokkrum sinnum. Það hefur nú komið í ljós að ekki veitir af að gera það, a.m.k. ekki við hæstv. heilbrrh. sem fór að svara efnisatriðum fyrst undir atkvæðagreiðslu í því máli sem hann varðar fyrst og fremst. Þá var kominn tími til að hæstv. heilbrrh. tæki til máls í málinu og gefur það allmiklar vonir um það að hann muni taka með líflegum hætti þátt í 3. umr. málsins og e.t.v. þá lesa allt frv. sem hann var með í höndunum í atkvæðagreiðslunni, en hæstv. heilbrrh. var ekki með sitt eigið frv. í höndunum að því er varðaði þetta mál heldur frv. sem hæstv. fyrrv. heilbrrh. hafði látið semja og lagði fram til kynningar á þeim tíma því að þá var ekki samstaða um að ljúka því máli og væri út af fyrir sig fróðlegt ef hæstv. heilbrrh. læsi það allt en ekki aðeins stutta kafla úr því. En það má vel vera að það sé þá rétt að fresta þessu máli öllu og bíða þess að það frv. verði hreinlega endurflutt þannig að það fái þá umfjöllun sem hæstv. heilbrrh. hefur í reynd óskað eftir á Alþingi. --- En þetta varðaði húsbréfin, hæstv. fjmrh., og bið ég afsökunar á þessum stutta útúrdúr sem ég vona að komi ekki mjög að sök og þér þyki ekki mjög slæmt að eitthvað hafi verið endurtekið af því sem áður hafði verið sagt hér í dag.
    Í þriðja lagi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um það hvað líði aðild ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum. Ljóst er að ríkisstjórnin þarf að gera kjarasamninga við umbjóðendur sína. Jafnframt liggur fyrir að þeir sem þurfa að semja við ríkisstjórnina hafa lagt á það mikla áherslu að ýmislegt af því sem ríkisstjórnin þarf að koma nú í framkvæmd verði leiðrétt til þess að skapa grundvöll fyrir kjarasamninga. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé tilbúinn til að koma til móts við þessi sjónarmið og hvað hann telji um skoðanir aðila vinnumarkaðarins að það sé forsenda þess að kjarasamningar takist að vextir lækki verulega. Hæstv. fjmrh. hefur tíundað að vextir hafi lækkað um 0,2%. Það er alveg ljóst, hæstv. fjmrh., að það er ekki framlag til komandi kjarasamninga jafnvel þótt ríkisstjórnin líti á það sem fyrsta skref á langri leið ef ég skildi hæstv. fjmrh. rétt. Það er alveg ljóst að ekki er mjög langur tími til stefnu í þeim efnum og því verður hæstv. fjmrh. að spretta úr spori ef hann ætlar að ná því marki sem almennt er talað um í þessu sambandi.
    Þá vildi ég aðeins gera það að umræðuefni sem hæstv. fjmrh. kom inn á að því er varðaði arðgreiðslur ýmissa ríkisstofnana og sjálfstæðra fyrirtækja ríkisins sem sum hver eru undir sjálfstæðri stjórn, sumar af þeim kjörnar á hv. Alþingi. Ég stóð í þeirri meiningu að ekki væri hægt að leggja nýjar skyldur á þessi fyrirtæki nema með lagabreytingum. Ég ætla ekki að fara að tala um það efnislega hvort það er rétt eða rangt að leggja nýjar skyldur á þessi fyrirtæki. Ég leit ekki þannig á það þegar efh.- og viðskn. fékk yfirlit yfir þessi væntanlegu fyrirtæki án þess að fram kæmi hvað það ætti að gefa af sér. A.m.k. var það illa áætlað að þar væri um lagatexta að ræða.
    Hæstv. fjmrh. hefur nú upplýst á Alþingi að yfirlitið sem var lagt fram í fjárln. og jafnframt kynnt í efh.- og viðskn. væri lagatexti og síðan kemur í ljós að þetta hefur verið flutt sem brtt. og þar með sé kominn nægilegur lagagrundvöllur til þess að leggja þessar skyldur á viðkomandi fyrirtæki. Ég hef aldrei áður heyrt um slíka lagagerð á Alþingi. Á að skilja það svo að jafnvel sé hægt að koma með yfirlit yfir það hvað ýmsir skattstofnar eigi að skila og hægt sé með þeim hætti að líta þannig á að þar með hafi verið samþykkt að breyta greiðslum fyrirtækja og einstaklinga í landinu? Eða hvar eru mörkin í þessu sambandi, hæstv. fjmrh.? Er hægt að leggja skyldur á stofnanir sem ríkið á í, hlutafélög sem ríkið á, fyrirtæki, banka sem ríkið á með því að koma með yfirlit yfir þá að flytja það sem brtt.? Ég verð að játa, hæstv. fjmrh., ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hér væri um brtt. að ræða. Mér datt ekkert annað í hug en að flytja þyrfti um þetta sérstakt frv. Ég efast stórlega um lagalegt gildi slíkra athafna og tel fulla ástæðu til þess að ganga úr skugga um það og væri nauðsynlegt fyrir efh.- og viðskn. eða fjárln. að fá frekari útskýringar á þessum nýju háttum í lagagerð á Alþingi. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Eru einhver fordæmi um slíkt áður? Má vel vera að hæstv. fjmrh. hafi fundið eitthvað um þetta í skúffum fjmrn. eins og í mörgum öðrum málum en ég minnist þess a.m.k. ekki að málið hafi verið flutt með þessum hætti þótt ég vilji ekki sverja fyrir að einhver hafi farið í viðlíka undirbúning í fjmrn., en eftir því er mjög leitað að finna út úr því hvað hefur gerst áður í slíku sambandi og auðvitað er mikilvægt að vita um fordæmi til þess að fá úr því skorið hvort hér sé staðið að með réttum hætti. En þegar nálgast afgreiðslu fjárlaga og tillögur eru fluttar á síðustu stundu má vel vera að eitthvað hafi farið fram hjá mönnum og það á jafnt við þann sem hér stendur og aðra og má vel vera að ég hafi ekki gert mér nægilega grein fyrir þessu. En mér finnst ekki vera staðið eðlilega að málinu, hæstv. fjmrh., jafnvel þó að þarna hafi verið flutt brtt.
    Ég spyr í þessu sambandi: Hefði þá ekki alveg eins verið hægt að koma á þeirri skyldu að ríkisbankarnir greiddu ákveðinn hluta tekna sinna og skatt af nettóeign sinni með því að flytja einfaldlega brtt. við fjárlög? Af hverju fóru menn út í það á sínum tíma þegar bankarnir voru skattlagðir að vera að burðast við það að flytja um það sérstakt lagafrv.? Svarið liggur væntanlega í því að það sé m.a. vegna þess að það tók jafnframt til annarra banka en ríkisbankanna en við skulum nú taka sem dæmi að það hafi ekki staðið til heldur hafi eingöngu átt að taka göld af ríkisbönkunum. Hefði þá verið nægilegt að flytja um það efni brtt. við fjárlög? Hefði e.t.v. verið hægt að flytja allan bandorminn sem er nú í ákveðnu uppnámi sem brtt. við fjárlögin? Þá hefði ríkisstjórnin ekki lent í jafnmiklum vanda með það mál og hefði getað lögfest allan flumbruganginn fyrir jól. Það er nauðsynlegt að þessum spurningum sé svarað í ljósi þess sem hæstv. fjmrh. heldur hér fram og mikilvægt að ekki sé hægt að mótmæla þeirri tilhögun, en ekki þykir mér ólíklegt að þeir sem þarna eiga að greiða munu gera það í einhverjum mæli því að ég veit ekki til þess að mönnum sé það almennt ljúft að láta af hendi fjármuni til ríkissjóðs þótt hann kunni að vera í mikilli þörf fyrir að fá þá peninga. Ég tek fram að ég er heldur vinveittur þessum sjóði og hann hefur meiri samúð hjá mér en ég held að almennt gerist um marga þannig að ég hef fullan skilning á því, hæstv. fjmrh., að afla þurfi tekna en það er jafnframt mikilvægt að það sé gert með fullnægjandi hætti og nægilega traustum hætti þannig að lög landsins standist.
    Ég hef þá lokið við að bera fram þær spurningar sem ég hafði ætlað mér að koma til hæstv. fjmrh. en ég vil biðja hann um að beita sér fyrir því að á fundi efh.- og viðskn. verði gerð grein fyrir málinu af hálfu fjmrn. þannig að ekkert fari á milli mála. Ég vænti þess að slíkan fund þurfi að halda af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi til þess að fá svör frá Seðlabankanum um afdrif þess máls sem nefndin skrifaði bankanum út af. Í öðru lagi um málefni sjóðanna og í þriðja lagi um það mál sem ég hef nú fjallað um.
    Aðeins út af því sem hæstv. fjmrh. sagði um efnahagsmál og talaði um afkomu atvinnulífisns og þá miklu erfiðleika sem Íslendingar standa frammi fyrir. Vissulega eru nú erfiðleikar sem við stöndum frammi fyrir í þjóðarbúskap okkar en þó er mikilvægara en allt annað að nægilegt ráðrúm sé gefið til þess að við getum unnið okkur út úr þeim erfiðleikum. T.d. þegar framleiðslan dregst saman sé það grundvallaratriði að aðgerðir í ríkisfjármálum dragi ekki úr mönnum allan vilja og allan kjark til þess að auka verðmætasköpunina. Því miður eru aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar nokkuð því marki brenndar að draga úr mönnum. Meðal annars kemur þetta fram í aukinni skattlagningu á undirstöðuatvinnuvegi landsmanna, í tilhneigingu til að halda uppi háum vöxtum og nokkur fleiri dæmi mætti nefna. Þótt það sé mikilvægt atriði, hæstv. fjmrh., að draga úr einkaneyslu landsmanna er ekki sama með hvaða hætti það er gert og ég vil minna hæstv. fjmrh. á það að hann er nokkuð oft búinn að koma upp á Alþingi og halda sömu ræðuna um það að þetta megi allt

saman réttlæta í þessum erfiðleikum og þá gildi einu hvernig það er gert, á hvern gjöldin eru lögð, á hvaða grundvelli, hvort barnafjölskyldur verði þar sérstaklega fyrir barðinu eða þeir sem eiga erfitt vegna sjúkleika. Enginn hefur mælt gegn því, hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt sé að afla meiri tekna í þessu sambandi. Hins vegar er grundvallarágreiningur um það hvernig það er gert. Það er mergurinn málsins og er því óþarfi af hæstv. fjmrh. að halda því fram að menn hafi engan skilning á þessu máli og væri nú nær fyrir hann að viðurkenna að það sé að sjálfsögðu ósanngjarnt að hækka tekjuskatt sérstaklega á þeim sem eiga mörg börn, svo að dæmi sé tekið, en hann hafi bara ekki getað annað vegna þess að stjórnarflokkarnir komust ekki út úr því nema gera það með þessum hætti. Það eru þessi atriði sem valda hér grundvallarágreiningi, hæstv. fjmrh. Þótt segja megi að það heyri kannski ekki nákvæmlega undir þann dagskrárlið sem er til umræðu þá er það samt svo að þessi mál blandast að verulegu leyti saman.
    Ég vænti þess svo, hæstv. forseti, að ráðrúm gefist til eðlilegrar umfjöllunar um málið í efh.- og viðskn., enda hafa hér gefist hér mörg tilefni til þess að nefndin komi saman til að fjalla sérstaklega um þau atriði sem hér hafa komið fram. Jafnframt eru atriði sem snerta bandorminn sem nendin þarf að mínu mati að fjalla um og ég vænti þess að ráðrúm gefist til næstu daga.