Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:10:00 (3026)

     Össur Skarphéðinsson :
     Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Jóhann hefur farið hér með hótunum og hótað því að tala hvað af tekur kvöldið og nóttina. Ég verð að segja það að ég er einn af þeim mönnum sem hafa alltaf gaman af því að hlusta á þennan hv. þm. þannig að ég kikna ekki í hnjáliðunum þótt hv. þm. setji fram þessa ógnun. Hins vegar vildi ég auðvitað mælast til þess að þingmaðurinn gætti hófs í orðavali. Ég vil til að mynda, svo ég setji örlítið ofan í við þennan ágæta félaga héðan úr þinginu, segja honum að ég kann ekki við það þegar hann er að fara orðum um fjarstadda þingmenn og ráðherra, jafnvel þótt honum kunni að vera eilítið í pólitískri nöp við þá, þegar hann tekur til orða eins og um hæstv. heilbrrh. og kallar hann kostulegt eintak. Það stappar nærri mannfyrirlitningu að taka þannig til orða um jafnágætan mann og góðan ráðherra, sem er þar að auki að mínum dómi mjög fínt ,,exemplar`` af góðum Vestfirðingi.
    Hins vegar skil ég það vel að hv. þm. Steingrímur Jóhann þurfi að setja hér á miklar ræður vegna þess að það er ekki gert á örfáum mínútum að skýra út stefnumun innan Alþb. í sjávarútvegsmálum --- eða ættum við frekar að kalla það stefnuleysi?
    Mér þótti mjög merkilegt og fróðlegt að sjá þennan upprennandi leiðtoga Alþb. taka svo til orða um núv. formann Alþb., að hann mætti svo sem hafa sínar prívatskoðanir á sjávarútvegsmálum. Og hann lýsti hér góðu viðtali og mjög merku sem hæstv. sjútvrh. las upp úr, viðtali við þennan leiðtoga Alþb., hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem prívatskoðunum hans. Það kann auðvitað vel að vera en síðan hvenær hefur formaður stjórnmálaflokks haft leyfi til þess að vera með einhverjar prívatskoðanir sem eru á skjön við skoðanir flokksins? Getur verið að staðan sé einfaldlega sú að þrátt fyrir allt þá hafi hv. þm. Jóhann Ársælsson rétt fyrir sér þegar hann kallar stefnu eða stefnuleysi Alþb. í sjávarútvegsmálum grín, svo ég leyfi mér að lesa upp úr grein í Morgunblaðinu þar sem fjallað var um málflutning þessa ágæta þingmanns frá landsfundi Alþb. Það var laugardaginn 23. nóv. og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Jóhann Ársælsson alþingismaður sagði lítið fara fyrir umfjöllun um sjávarútvegsmál í drögum að stjórnmálaályktun og kvartaði yfir óljósu orðalagi um sjávarútvegsstefnuna.`` Og síðan bætir þingmaðurinn við, herra forseti: ,,Það er svolítið líkt því sem við vorum að gera grín að hjá Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar.``
    Hér talar sá maður sem mér finnst fjalla af hvað dýpstu mannviti um sjávarútvegsmál úr röðum Alþb. Hann kallar stefnuleysi Alþb. í sjávarútvegsmálum grín. Ég veit ekki hvað hv. þm. Steingrímur Jóhann og varaformaður Alþb. segir um þetta.
    En mig langar líka að leiðrétta það sem Steingrímur sagði hér áðan, að skoðanir hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar á veiðigjaldi og kvótaleigu væru eitthvert prívatmál hans. Það vill svo til að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er á allt annarri skoðun en Steingrímur Jóhann hvað þetta varðar. Þess vegna langar mig til þess að lesa upp úr öðru viðtali við þennan ágæta kollega Steingríms Jóhanns. Þar segir formaður Alþb. beinlínis í viðtali við tímaritið Þjóðlíf, 10. tölublaði 1990, að hann fylgi kvótaleigu og ekki bara hann heldur flokkurinn allur. Eða eins og hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþb. hefur ályktað um það og tekið upp þá stefnu á Akureyrarfundinum að kvótaleiga verði tekin hér upp.`` Síðan bætir hann við: ,,Þetta er orðin stefna Alþb.``
    Ég verð því að segja, virðulegi forseti, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Steingrími Jóhanni að ég trúi því frekar þegar formaður Alþb. segir að kvótaleiga sé stefna flokksins en þegar varaformaðurinn kemur hér í stólinn og reynir að draga þar úr. Það er því auðvitað alveg ljóst að formaður Alþb. er þeirrar skoðunar að kvótaleiga sé það sem koma skal. Hann hefur gengið lengra en nokkur sem talað hefur á þessu þingi þegar hann segir í viðtali við Þjóðviljann 1. maí að það eigi ekki bara að selja aflamark Hagræðingarsjóðs á gangverði heldur eigi að bjóða það upp. Með öðrum orðum, við höfum hérna hv. þm. Steingrím Jóhann sem segir að það vitlausasta sem til er í sjávarútvegsmálum sé að koma á veiðigjaldi. Og síðan höfum við hv. þm. og formann Alþb. sem segir að stefna Alþb. sé að koma á veiðigjaldi. Síðan höfum við þriðja þingmanninn, hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem segir í Morgunblaðinu 23. okt. að þessi stefna Alþb. sé bara grín.
    Ég verð auðvitað að taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem er greindur maður. Hann hefur skilið þetta alveg hárrétt. Stefna Alþb., eins og hún birtist í skoðanamun formanns og varaformanns Alþb., er auðvitað ekkert annað en grín.
    Ég hef dálítið gaman af því, virðulegi forseti, að bera saman það sem menn segja hér í umræðum milli mála. Annars vegar höfum við alþýðuflokksþingmenn mátt heyra það, m.a. af munni hv. þm. Steingríms Jóhanns og margra framsóknarþingmanna, að Alþfl. sé bara vesalings garmurinn hann Ketill sem liggi undir Sjálfstfl. í öllum málum. Síðan höfum við hérna góðan og gegnan Norðlending, hv. þm. Stefán Guðmundsson, og hvað segir hann? Hann segir að illt sé til þess að vita að Alþfl. sé búinn að snúa Sjálfstfl. niður í þessu máli. Hvorum á maður að trúa, hv. þm. Steingrími Jóhanni sem hefur sagt hið gagnstæða í mörgum umræðum eða Stefáni Guðmundssyni? ( Gripið fram í: Hverju trúir þú?) Ég trúi Stefáni Guðmundssyni en ég skal taka fram að ég læt þar óskhyggju ráða. Staðreyndin er auðvitað sú að þegar um er að ræða tvo flokka í ríkisstjórn þá hlýtur alltaf

að vera um málamiðlun að ræða. Það er það sem gerist í stjórnarsamstarfi, hvernig sem stjórnarandstöðunni líkar niðurstaðan, þá er auðvitað staðreyndin sú að menn gefa og menn taka, það verður málamiðlun. Og við því er ekkert að segja. Það er einu sinni eðli stjórnmála, enginn flokkur getur hreinsað sig af því.
    Hins vegar er líka mjög gaman, virðulegi forseti, að fylgjast hér með ýmsum þingmönnum koma upp og ræða um Hagræðingarsjóðinn og segja að hér sé verið að leggja út á mjög skýrt afmarkaða braut veiðigjalda. Menn tala um það t.d. í nefndaráliti minni hlutans að hér sé lagt út á hættulega braut. Það sé verið að marka nýja stefnu. Með öðrum orðum, þeir halda því fram að verið sé að marka stefnu. Síðan kemur Steingrímur Jóhann, varaformaður Alþb. upp og kvartar. Yfir hverju? Yfir stefnuleysi í sjávarútvegsmálum. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Þó er eitt mál sem ég get ekki komist hjá að ræða lítillega. Hverjir eru það í íslenskum stjórnmálum sem eru fylgjandi veiðigjaldi? Það er auðvitað hluti Sjálfstfl., hluti Alþb., eins og fram hefur komið m.a. í viðtölum við formann Alþb., og það er Kvennalistinn. Það er nefnilega svo að tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa lýst yfir stuðningi við veiðileyfasölu, ekki bara Alþfl. heldur líka Kvennalistinn. Í stefnuskrá Kvennalistans kemur mjög skýrt fram að fimmtungur veiðiheimilda eigi að renna í sameiginlegan veiðileyfasjóð. Og hvað á að gera við þennan veiðileyfasjóð? Það á að leigja heimildirnar, það á að selja þær eða ráðstafa þeim vegna sérstakra aðstæðna. Hvað á að gera við tekjurnar --- og ,,nota bene`` það kemur skýrt fram að tekjur eiga að verða af sjóðnum sem þýðir auðvitað og undirstrikar það sem segir annar staðar í stefnuskránni, það á að leigja eða selja þessar veiðiheimildir. Þar segir: ,,Tekjum sjóðsins verði varið í þágu sjávarútvegs.``
    Hér er auðvitað um að ræða stefnu sem ekki er hægt að segja annað en sé vel fylgt fram í því frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram um Hagræðingarsjóð. Hvað er að gerast þar? Þar er verið að leggja til --- að vísu ekki 20% veiðiheimilda, eins og Kvennalistinn vill að verði settur í veiðileyfasjóð --- að u.þ.b. 3% allra veiðiheimilda verði sett í einn sjóð. Það á að selja þær eða leigja. Hvað á að gera við afraksturinn? Það á að verja honum til hafrannsókna. Þarna er um að ræða fulla samsvörun við stefnuskrá Kvennalistans þar sem sagt er: Tekjum sjóðsins verði varið í þágu sjávarútvegs. Eigi að síður kemur fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. upp og leyfir sér að fara vísvitandi gegn stefnu Kvennalistans. Hún gerir það með því að taka undir að ekki eigi að koma á veiðigjaldi, sem er þrátt fyrir allt stefna Kvennalistans, og þrátt fyrir það að í þessu frv. segi að verja eigi tekjum sjóðsins til sjávarútvegs, til hafrannsókna. Með öðrum orðum: Ég get ekki annað sagt en að hér er um fullkomna hentistefnu að ræða af hálfu Kvennalistans og ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson skuli með þessum hætti ekki svíkja bara stefnuskrá Kvennalistans, ekki bara svíkja Kvennalistann, heldur það fólk sem kaus Kvennalistann á grundvelli þessarar stefnuskrár. Vegna þess að ekki er hægt að segja neitt annað en að þetta eru svik við stefnuskrá Kvennalistans. Ég segi það, virðulegi forseti, fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. þingisins skuldar þinginu og kjósendum sínum og kannski ekki síst stallsystrum sínum í Kvennalistanum skýringu á þessum sinnaskiptum og á því hvers vegna í ósköpunum hún leyfir sér þá ósvinnu að fara gegn opinberri og yfirlýstri stefnu Kvennalistans í þessu máli.