Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 11:16:00 (3060)

     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
     Frú forseti. Áður en við ljúkum við að greiða atkvæði um breytingar á lögum um almannatryggingar sem ríkisstjórnin hefur lagt hart að sér við að breyta til að afla fjár til ríkisútgjalda og til þess að viðhalda velferðarkerfinu, þá vil ég, vegna þess að nú hefur verið gengið að öryrkjum og ellilífeyrisþegum til þess að ná inn um 260 millj. kr., leyfa mér, frú forseti, að vekja athygli hv. þm. á að aðrar leiðir kynnu að hafa fundist en að ganga að þessu fólki sem síst skyldi.
    Í Morgunblaðinu í dag á baksíðu er svohljóðandi fyrirsögn ,,Hluthafafundur Sameinaðra verktaka: Greiða 900 milljónir króna út til hluthafa`` og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sameinaðir verktakar ákváðu á hluthafafundi í fyrradag að hækka hlutafé félagsins um 900 millj. kr. og færa niður um sömu upphæð aftur og greiða þá upphæð til hluthafa. Í fundarlok voru hluthöfum afhentar ávísanir í samræmi við eignarhluta þeirra. Með því`` --- og ég bið hv. þm. að hlýða á mál mitt --- ,,að hafa þetta fyrirkomulag á greiðslum til hluthafanna komast þeir hjá því að greiða skatt af þessum fjármunum, samkvæmt þeim upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði sér í gærkveldi. Sami háttur hefur verið hafður á hjá Sameinuðum verktökum undanfarin ár, þar sem hlutafé hefur verið hækkað með jöfnunarhlutabréfum, og svo lækkað aftur með því að hækkunin hefur verið greidd út til hluthafanna. Hlutafé Sameinaðra verktaka stóð í 1.210 millj. kr. nú um áramót þannig að eftir stendur nú 310 millj. kr. hlutafé Sameinaðra verktaka. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur undirbúningur þessarar ákvörðunar staðið í allnokkurn tíma.``
    Frú forseti. Mér reiknast svo til að með eðlilegri skattgreiðslu af þessu fé hefði mátt finna nokkurn veginn það sem hæstv. heilbrrh. hefur verið að leita að hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum og þar sem nú er enn eftir 3. umr. þessa máls vil ég benda hæstv. heilbrrh. og hæstv. menntmrh. og ríkisstjórninni allri sem hefur nú gengið að námsmönnum, sjúklingum, ellilífeyrisþegum, öryrkjum, sjómönnum og öðrum slíkum, að einfalt væri að ræða við forstöðumann þessa félags þar sem sami stjórnarformaðurinn er í eftirtöldum félögum: Sameinuðum verktökum hf., Hf. Eimskipafélagi Íslands, Burðarási hf., Hafnarbakka hf., Skipaafgreiðslu Jes Ziemsens hf., háskólasjóði Eimskips, Eimskipafélagi Reykjavíkur hf., Byggingarmiðstöðinni sf. og Borgarvirki hf.
    Halldór H. Jónsson, stjórnarformaður þessara fyrirtækja, er einnig stjórnarmaður í eftirtöldum fyrirtækjum:
    Garðari Gíslasyni hf., Skeljungi hf., Bændahöllinni, Íslenskum aðalverktökum hf., Flugleiðum hf., Lífeyrissjóði hf. Eimskipafélags Íslands. Þar sem þessi félög mörg hver eru að allra bestu manna mati allstöndug vil ég stinga upp á því við hæstv. ríkisstjórn að matarhola verði nú leitað hjá þessum aðilum áður en frekar verður gengið að þeim sem erfiðast eiga í þessu þjóðfélagi.