Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:16:00 (3100)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þm. að stilla skapi sínu í hóf og skoða málið með efnisrökum og á efnislegum grunni og vera ekki stöðugt með stóryrði á lofti sem þeir eru ekki menn til að standa við.
    Því verður ekki breytt að í lögum sem Alþingi samþykkti er fyrir mælt að áður en umrædd reglugerð er sett skuli liggja fyrir tillögur tryggingaráðs. Ég hef skýrt frá því að heilbr.- og trmrn. óskaði eftir því fyrir áramót að slíkar tillögur bærust. ( Gripið fram í: Hver er formaður tryggingaráðs?) Hann heitir Jón Sæmundur Sigurjónsson, það veit hv. þm.
    Í annan stað þá var --- virðulegi foreti, eigum við ekki reyna að hafa sæmilega stjórn á þessum hv. þm. sem eru að spyrja, þannig að menn geti fengið upplýsingar í rólegheitum. ( Forseti: Forseti biður hv. þm. að hafa hljóð á meðan hæstv. ráðherra er að ljúka máli sínu.)
    Í öðru lagi liggur það fyrir að þegar umræddar tillögur höfðu ekki borist þá sendi ég með bréfi þann 13. jan. ítrekun þar sem ég óskaði eftir að fá þessar tilllögur. Í þriðja lagi liggur líka fyrir að greiðslur fóru fram í janúar og þá var greitt öllum þeim sem rétt áttu á greiðslum og búið var að úrskurða um. Í fjórða lagi liggur fyrir að félmrn. er búið að fella úrskurði um alla þá sem eftir hafa sótt fram í apríl á þessu ári. Með öðrum orðum, það eru aðeins þeir sem annast börn og eru með nýjar umsóknir inni sem ekki hefur verið hægt að fella úrskurð um vegna þess að frá reglugerðinni hefur ekki verið gengið. Þeirra mál ættu að koma og eiga að koma til afgreiðslu 3. febr. Þetta er ekki stór hópur en hópur samt og vissulega er það ekki viðunandi að það skuli ekki vera hægt að úrskurða um þeirra mál. Ég vænti þess og á ekki á öðru von en að fá tillögur frá tryggingaráði um efnisatriði slíkrar reglugerðar. Ég mun að sjálfsögðu ganga frá þeirri reglugerð um leið og tillögurnar liggja fyrir.
    Hv. þm. geta gagnrýnt ráðherra fyrir ýmislegt en hv. þm. geta ekki gagnrýnt ráðherra fyrir það eitt að fara að lögum.