Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:19:00 (3101)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegur forseti. Bara örstutt athugasemd varðandi þennan hóp sem fékk greiðslur á grundvelli 10. gr. og þeirrar reglugerðar sem gilti um greiðslur til krabbameinssjúkra barna. Þar var sérstakt ákvæði, sem krabbameinssjúk börn voru flokkuð undir og höfðu fengið úrskurð, til að hægt væri að greiða á grundvelli reglugerðarinnar. Þessi úrskurður gilti fyrir allan þennan hóp til síðustu áramóta. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þær eru kannski aðrar en hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur og það verður þá að koma í ljós hvor fer hér með rétt mál, hefur enginn úr þessum hópi sem hafði úrskurð til síðustu áramóta fengið greiðslur fyrir janúarmánuð. Þar að auki er ráðherrann að lofa að fyrir febrúar skuli þessi hópur fá greiðslu. Auðvitað er hann að lofa upp í ermina á sér og blekkja það fólk sem bíður eftir greiðslum. Það er bara staðreynd, og ráðherrann á að þekkja það, að það er nauðsynlegt að fyrir 15. næsta mánaðar áður en greiðsla fer fram þurfa allar þessar upplýsingar að liggja fyrir. Reglugerðin hefði auðvitað þurft að vera tilbúin fyrir 15. jan. til að hægt sé að greiða út á grundvelli hennar 1. febr. Ég skil ekki hvernig ráðherrann ætlar að fara að slíku, að lofa því nú að þessar greiðslur komi 1. febr. þar sem reglugerðin er ekki tilbúin og greiðslugögn öll til Skýrsluvéla ríkisins þurftu að liggja fyrir um miðjan janúar til að hægt sé að greiða út 1. febr.