Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:28:00 (3104)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Nú fer fram mikið starf í því skyni að endurskipuleggja starfsemi Norðurlandaráðs. Allir þeir sem bera hagsmuni norræns samstarfs fyrir brjósti eru sammála um að mikilvægt sé að styrkja það inn á við með tilliti til ýmissa breytinga sem eiga sér stað í umhverfi Norðurlandanna. Þannig sé nauðsynlegt að styrkja tengslin við Evrópu, styrkja tengslin til austurs og jafnframt til vesturs. Það hefur verið samdóma álit þeirra sem starfa innan Norðurlandaráðs að þessum málum, og fjalla um samskiptin við baltnesku löndin, að ekki sé rétt að bjóða baltnesku löndunum aðild að Norðurlandaráði. Þetta hefur jafnframt verið skoðun talsmanna ríkisstjórna Norðurlandanna nema Íslands. Nú hefur verið stofnað baltneskt ráð og það var gert 8. nóv. sl. Fyrsta þing þess er í Ríga um næstu helgi. Þar munu fulltrúar úr forsætisnefnd Norðurlandaráðs, m.a. sá sem hér stendur, eiga viðræður um framtíðarsamvinnu milli Norðurlandaráðs og baltneska ráðsins og leitast við að finna þessu samstarfi form. Það er mjög mikilvægt að Norðurlöndin séu samstiga í þessum efnum og því kemur það á óvart hvers vegna íslenska ríkisstjórnin hefur aðra skoðun en aðrar ríkisstjórnir á Norðurlöndum. Utanrrh. núv. ríkisstjórnar hefur svarað spurningum fréttamanna þegar hann hefur verið spurður um hvort hann sé fylgjandi aðild Litáens að Norðurlandaráði, þá svarar hann með einföldu jái. Ef hann er hins vegar spurður um það hvort rétt sé að bjóða þeim aðild að EFTA kemur hann með langar útskýringar á því. Hvernig getur utanrrh. Íslands leyft sér að svara slíkri spurningu með einföldu jái og hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands hefur allt aðra skoðun í þessu máli en ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna? Eða getur það verið að utanrrh. Íslands tali ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í málinu? Það þykir mér ótrúlegt því ef svo er er ómögulegt að átta sig á því hvenær utanrrh. Íslands er að tala fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, þjóðar sinnar, hvenær hann er að tala fyrir sína hönd persónulega, eða hvort hann er að tala sem formaður Alþfl. Við hljótum að gera kröfur til þess að utanrrh. sé í svo alvarlegum málum ávallt að tala fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Ég bið um skýringu á því í hverju þessi afstaða er fólgin.