Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:39:00 (3143)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Hér fyrr í dag, við 2. umr. frv., var dregin til baka tillaga um að 14 millj. skyldu renna til norræns kvikmyndaverkefnis. Sú tillaga er endurflutt á þessu þskj. Þá er í öðru lagi tillaga um að við ákvæði til bráðabirgða IV um að í stað orðanna ,,15. jan. 1992`` og ,,15. febr. 1992`` í 2. málslið komi: 15. febr. 1992 og 15. mars 1992. Þetta eru ákvæði varðandi Tryggingastofnun ríkisins um að auglýsa skuli með áberandi hætti eftir þeim aðilum sem telja sig eiga rétt samkvæmt framansögðu á endurgreiðslu sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði og að tekið skuli við umsóknum fram að næstu dagsetningu sem er þá 15. mars. Þetta eru tillögur sem komu ábendingar um í dag og var fjallað um í dag og því eru þessar brtt. fluttar nú.