Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:40:00 (3144)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Í Bandaríkjunum hafa blaðamenn löngum haft þann sið að gera úttekt á því eftir að ríkisstjórn hefur starfað í 90 daga hvað hún hefur afrekað. Þessi 90 daga mælikvarði á nýja forseta hefur löngum verið notaður til að leggja mat á það hvort hægt væri að líta svo á að þeir hefðu markað einhverja þá framtíðarstefnu fyrir sitt stjórnartímabil sem byggjandi væri á. Hér á landi búum við við það stjórnskipulag, eins og allir vita, að forsetinn felur öðrum að fara með vald sitt, þ.e. forsrh., og við búum við samsteypustjórnir.
    Fyrir framan okkur liggur frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Þetta frv. er afkvæmi tveggja leiðtoga íslenskra stjórnmála, hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Trúa verður því að megnið af því efni sem hér er hafi verið rætt á vordögum úti í Viðey. Þar hafi það komið undir þó að ekki verði það borið í heiminn fyrr en nú á næstunni. Satt best að segja spyr maður sjálfan sig þegar maður skoðar þetta: Hafa þessir menn áttað sig á því að heildaraðgerðir þeirra í efnahagsmálum Íslands hafa stuðlað að svo miklum samdrætti í þjóðfélaginu að veltutekjur íslenska ríkisins munu minnka meira en sá sparnaður sem þeir eru að leggja til? Gera þeir sér grein fyrir að megnið af tekjum íslenska ríkisins byggist á því að hér séu eðlileg umsvif, hér sé blómlegt atvinnulíf og að vegna umsvifanna koma peningar í ríkiskassann? Það er ekkert sem bendir til að þeir hafi horft á þessa hlið málsins. Þeir virðast nánast hafa trúað því að með því að þrengja að á hinum ýmsu sviðum hefði það engar aukaverkanir í för með sér gagnvart ríkissjóði. Ég hlýt að spyrja sjálfan mig þegar ég horfi á þær ráðstafanir sem hér liggja fyrir: Er þeim ljóst að þrátt fyrir þessar ráðstafanir eru þeir að framansögu, m.a. með vaxtahækkunni sem þeir komu á, búnir að stuðla að því að umsvifin í samfélaginu minnka það mikið að heildartekjur ríkissjóðs munu minnka svo að þeir verða fjær markmiðinu en þeir voru? Þetta er dapurleg niðurstaða. Og jafnvel þó hæstv. heilbrrh. boði það að þessar aðgerðir komi ekki niður á þeim sem minnst mega sín, þá er það þó staðreynd í dag að það er ekki bara í Sovétríkjunum fyrrverandi sem er ótti hjá gömlu fólki. Okkur er sagt að þar færist það í vöxt að það stytti sér aldur vegna þeirrar kreppu sem þar er. Hér á landi er virkileg óvissa og virkilegur ótti og þeir eru margir sem horfa fram á að þeir geta trúlega ekki greitt þau meðul sem þeir þyrftu að kaupa.
    Ég hef litið svo á að þeir ráðherrar sem hér um véla væru ekki slæmir menn í þeirri merkingu að þeir vildu vinna þjóð sinni eitthvað illt. Ég held að þeir trúi því að þeir séu að gera hluti sem munu bjarga einhverju. Ég held að þeir séu sannfærðir um að þetta frv. muni skila einhverju stóru og miklu fyrir núv. ríkisstjórn og það er kannski þetta atriði sem ég er alvarlega hræddur við. Ég er alvarlega hræddur við að þeir menn sem fara með völd í landinu virðast vera svo fjarri þeim veruleika að skynja að þetta frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum leysir ekki þá stöðu sem þeir vilja að það leysi. Það leysir hana ekki.
    Hæstv. menntmrh. hafði ekki það orð á sér, sem formaður þingflokks Sjálfstfl., að þvermóðska væri einkenni hans heldur hitt að oft og tíðum var litið svo á að hann væri samningamaður og maður sem færi leiðir málamiðlana. Það virðist aftur á móti hafa gerst þegar hann tekur við í menntmrn. að þá eru það einhverjir aðrir sem hafa stillt kompásinn og sagt: Þetta verðum við að gera og hæstv. menntmrh. hefur litið svo á að eftir að hann var búinn að samþykkja fjárlög á Alþingi Íslendinga, sem innifólu vissar staðreyndir, þá bæri honum að stilla kompásinn og sigla eftir þessum merkjum. Vandamálið við það sem hæstv. menntmrh. er að gera er aftur á móti að hætt er við því að þegar kemur að lokadögum hans ævi og okkar hinna, þá fari ávextirnir af tiltækinu að koma fram.
    Það er út af fyrir sig fallegt á pappírum að hafa tíu ára grunnskóla. En ef það er stjórnleysi í kennslustofunni í tíu ár vegna þess að kennarinn ræður ekki við að stjórna þeim fjölda nemenda sem honum er ætlaður þá er ávöxturinn af tiltækinu enginn, þá hefur skóladvölin snúist upp í andhverfu sína, hún hefur ekki orðið nemandum til góðs, hún hefur orðið honum til ills. En það er skylda að sækja skóla.

    Ef grunnskólalögin eru skoðuð og það markmið þeirra að kennslu væri hagað á þann veg að það kæmi öllum til góða þá blasti við að búið var að gera mikið fyrir meðalnemandann, einnig var búið að gera þó nokkuð mikið fyrir þann sem var á eftir en ekkert var búið að gera fyrir þann sem var á undan, nákvæmlega ekkert. Hæstv. menntmrh. hefði getað farið þá leið, hefði hann viljað ná árangri, að beita sér fyrir því að auðvelda nemendum sem hefðu haft áhuga og getu til að fara í gegnum námsefni grunnskólans á níu árum. Ef hann hefði gert það, hefði fækkað í bekkjunum og skólinn einfaldlega orðið betri því að þá hefði líka nemandinn sem var á undan haft árangur af erfiði sínu ef hann hefði lagt sig fram. Þetta segi ég hér og nú vegna þess að allir vita að eitt af því sem þarf að gerast í íslensku menntakerfi er að ná stúdentsaldrinum niður um eitt ár til samræmis við það sem er í löndunum í kringum okkur. Grunnskólinn er einfaldlega lykillinn að því að ná meiri árangri vegna þess að hann er tíu ára skóli. En það er kolvitlaus ákvörðun þó að ekki sé meira sagt að trúa því að það leysi einhver vandamál að fjölga í bekkjardeildum. Það er betri lausn að fækka kennslustundum en að fjölga í bekkjardeildum.
    Ég trúi því að þeir, sem sátu yfir skrifborðinu í menntmrn. og töldu það skynsamlega ákvörðun að fjölga í bekkjardeildum og auka stjórnleysið í skólunum, hafi aldrei fengist við kennslu, hæstv. menntmrh. ( Gripið fram í: Voru þeir ekki í forsrn.?) Hér er fullyrt úr hliðarsal að þeir hafi verið í forsrn. Ég ætla ekki að dæma um það. En ég trúi því ekki að þar hafi verið hlýtt á ráð þeirra manna sem hafa haft kennslu að atvinnu.
    Hugmyndir um að flytja nemendur milli hverfa eru í sjálfu sér þess eðlis að ég tel ástæðulaust að fjalla um þær í þessum ræðustól. Borgarfulltrúar Sjálfstfl. í Reykjavík munu jarða þær hugmyndir. Þær eru einfaldlega vitlausari en svo að hægt sé að ræða þær, byggjast á svo mikilli félagsfræðilegri vanþekkingu að það er hreint og beint ótrúlegt að mönnum detti þetta í hug. Til eru skólar á Íslandi þar sem bætt er inn ákveðnum hópum sem eru teknir úr hliðarskólum. Yfirleitt fylgja þessu viss vandamál vegna þess að þeir sem koma mæta hörðum kjarna sem fyrir er sem ætlar sér stærri rétt en hinum sem bætast við. Það sama yrði uppi á teningnum ef menn færu að framkvæma þessar hugmyndir í alvöru.
    Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra trúir því að hann muni ekki misbeita því valdi sem hann fær í hendur með því að Alþingi ákveði ekki fjölda kennslustunda heldur geri ráðherrann það. Hins vegar kallar þessi afhending á valdi til ráðherrans á það að aðrir menntamálaráðherrar telji sig þurfa sama traust frá þinginu, þ.e. að þetta verði reglugerðarákvæði í framtíðinni. Og hæstv. menntmrh. getur ekki miðað kröfu um lagasetningu við að hann, hæstv. ráðherra, sitji alltaf í ráðherrastólnum. Hann getur alveg eins verið að framselja með þessu móti reglugerðarvald til aðila sem hann treystir ekki til að fara með það vald. Fordæmið er þess vegna afleitt, hæstv. ráðherra.
    Ég er sannfærður um að farsæld þessarar þjóðar býr í fólkinu sjálfu. Hún býr hvorki í náttúruauðæfum Íslands né því hvaða rétt aðrar þjóðir ætla okkur. Farsældin býr í fólkinu sjálfu. Og grunnskólinn er lykillinn að því að þeir einstaklingar, sem taka við þessu landi, verði hæfari en við sem í dag höfum verið að reyna að hafa áhrif á stjórn þess. Við getum ekki leyft okkur að afgreiða þessi mál með þeirri léttúð sem gert er í þessu frv.
    Stefnumarkandi ákvörðun var tekin sl. vor um að börn ættu rétt á skólamáltíðum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur í alvöru hugleitt hvers vegna börn á Íslandi hafa verið vigtuð og mæld í barnaskólum. Það er haldin skrá yfir hvort þau þyngjast eða hvort þau standa í stað og yfir hvort þau hækka. Þetta er í tengslum við læknisskoðun. Hver skyldi skýringin vera? Ætli þetta sé bara einhver fordildin sem sýnir að menn vilji hafa eitthvað fyrir stafni? Þetta er raunverulega eina opinbera athugunin sem fer fram á því hvort börnin njóti þess viðurværis heima að foreldrunum sé treystandi til að hafa þau í sinni umsjá. Þessi vigtun og mæling er ekki til skrauts, hæstv. menntmrh. Í skólakerfinu, þegar það fór af stað hér á landi, voru kennslustundirnar ekki jafnmargar en þá áttu börnin þess kost að fá sinn hádegisverð. En í dag er tíu ára skeið í lífi þeirra þar sem þau munu ekki fá hádegisverð. Á sama tíma og þetta er að gerast eru flestir foreldrar eða mjög margir farnir að vinna úti þar sem þeir fá hádegisverð. Afleiðingin af því er sú að mjög margir hafa trúlega mun léttari máltíðir á kvöldin. Minni líkamleg áreynsla kallar á að foreldrarnir hafi ekki þörf fyrir tvær máltíðir af þeim styrkleika sem er í hádeginu. Auðvitað leiðir af þessu að börnin sitja uppi með það að fá kvöldmáltíð sem ekki er jafnríflega útbúin og hádegisverðurinn er að meðaltali hjá foreldrunum. Undantekningin frá þessu eru svo tveir dagar í viku, þ.e. laugardagur og sunnudagur.
    Ég fer ekki dult með og get játað það hér og nú að fyrst þegar þessi mæling og vigtun á börnum fór fram var mér alls ekki ljós alvaran sem lá á bak við það hvers vegna þetta var gert. Maður aðstoðaði við þessi störf eins og hvert annað sem maður aðstoðaði við í hugsunarleysi að sinna því verkefni sem manni var falið. En því miður hafa sennilega flestir, sem hafa haft þó nokkuð langa dvöl í barnaskólum landsins, áttað sig á að þarna er rík alvara á bak við. Í Reykjavík er alvaran mikil. Það er staðreynd að um eða yfir 10% af börnum í þéttbýlinu fá ekki þá næringu sem viðunandi getur talist. Þau eiga að mæta í skólann, það er þeirra skylda en samfélagið hefur ekki skilning á einfaldasta atriðinu til þess að þau uni sér þar, þ.e. að þau séu eðlilega nærð. Á sama tíma og íslenskt samfélag telur það ekki skyldu sína að tryggja að börn í skólum séu eðlilega nærð þá erum við að safna hjálpargögnum til að senda út um allan heim, fín þjóð með göfug markmið.
    Það hlýtur að vera dapurlegt fyrir hæstv. menntmrh. að sitja í þeim sporum að hafa verið ráðherrann sem lagði til að þessi ákvæði færu út úr grunnskólalögunum. Hafi hann einhvern tíma trúað því að hann væri að gera þetta af tillitssemi við sveitarfélögin, þá hlýtur honum að vera ljóst að svo er ekki. Ekkert hik er á hæstv. ríkisstjórn að leggja byrðar á sveitarfélögin þó að þau mótmæli.
    Ég verð að segja eins og er að mér þótti vænt um afstöðu hv. 4. þm. Reykv. þegar þessi mál komu til atkvæðagreiðslu. Það gerist gjarnan eftir að menn hafa setið nokkuð lengi á Alþingi að þeir vilja hefja sig yfir dægurþrasið og taka frekar afstöðu á þann veg að þeir geti verið sáttir við dóm sögunnar um þá afstöðu sem þeir tóku. Kannski er það þegar menn eru komnir á það stig að þeir eru orðnir hæfir til þess að vinna verk sín á Alþingi Íslendinga út frá réttu sjónarhorni. Því að meðan menn eru svo konungshollir að þeir hlýða skilyrðislaust þeim meiri hluta sem fer með völdin hverju sinni og dansa eftir öllum fyrirmælum í atkvæðagreiðslum hvort sem þeim er það þvert um geð eða ekki þá eru þeir í reynd miklu líkari leikbrúðum sem dansa eftir því hvernig stjórnandinn togar í strengina en viti bornum mönnum sem taka afstöðu í samræmi við skoðanir sínar. Ég er sannfærður um að hæstv. menntmrh. mun hugleiða það í alvöru hvort hann vill skiljast svo við ráðuneyti sitt að hann verði ráðherrann sem tók þetta út eða hvort hann vill nú hefja fyrir því baráttu innan ríkisstjórnarinnar og innan sveitarstjórnavaldsins á höfuðborgarsvæðinu að þetta ákvæði verði sett inn á nýjan leik. ( Menntmrh.: Er þingmaðurinn að tala um skólamáltíðirnar?) Þingmaðurinn er búinn að vera að tala um skólamáltíðir alllanga tíð. Ég fagna því að hæstv. ráðherra vill þó fylgjast með því sem er til umræðu og sýnir vissulega með því virðingu við þann sem hér stendur og er að reyna að koma því á framfæri að hann telur að það sé ekki of seint að endurskoða þessa afstöðu hvort sem þetta mál fer út nú, endurskoða það og setja þetta inn aftur.
    Mér urðu það mikil vonbrigði að þegar nefndadeild þingsins sem á að sjá um þjónustu við þingmenn sendi bréf í menntmrn. og vildi fá upplýsingar um það hvernig staðið væri að þessum málum á Norðurlöndum þá barst það svar að slíkar upplýsingar væru ekki tiltækar. Einstakir menn vissu kannski eitthvað um þetta hjá einstökum löndum en að heildarupplýsingar lægju ekki fyrir. Það verður að segjast eins og er það var alveg á mörkunum að ég tryði því að verið væri að segja mér satt. Ég lít svo á að eitt af því sem menntmrn. gerir sé að viða að sér upplýsingum um skólamál erlendis og alla þætti þeirra. Ég vissi að slík vinna fór fram í menntmrn. fyrir nokkrum árum og ég hélt að það væri enn til staðar. Ég lít á slíka gagnaöflun sem eitt af því nauðsynlegasta sem innt er af hendi í ráðuneytinu svo að ráðuneytið sé þess meðvitandi og sé um það fróðara en allir aðrir aðilar í landinu hvað sé að gerast í kringum okkur. Ég verð að játa að það voru að mörgu leyti ánægjulegir dagar í vor að vera á Alþingi Íslendinga og kynnast því í stuttan tíma að grunnskólinn virtist verða hafinn yfir flokka, þ.e. menn fóru að vinna af meiri tillitssemi hver í annars garð til að ná sátt um grunnskólann og afgreiða hann með þeim hætti. Sjálfstæðismenn tóku ekki síður þátt í þessu en aðrir, þeir fengu ýmislegt fram sem þeir höfðu haft á óskalista sínum og samþykktu annað. Ég átti þess vegna ekki von á því að mönnum dytti í hug í bandormi eins og þessum að ganga um á skítugum skónum í þessum lagatexta. Menn létu þá fara fram formlega endurskoðun á lögunum þar sem gefinn væri nægur tími til að fara yfir efni málsins. Nei. Vaðið var í þetta verk með vinnubrögðum sem eru ekki til þess að hrósa.
    Ég veit að hæstv. ráðherra hefur brotið heilann um hvaða breytingar þurfi að gera á framhaldsskólanum og hvað þurfi að gera til þess að auðveldara verði að færast á milli skólastiga á Íslandi en eins og allir vita hefur Háskólinn uppi hugmyndir um það í dag að hætta að taka stúdentsprófið gilt eða meta það með öðrum hætti en verið hefur. Hæstv. ráðherra þyrfti að hugleiða þá stöðu að framhaldsskólinn er aðeins í fjögur ár en grunnskólinn er í tíu ár og bæta við þeirri heimspeki Darwins þegar blaðamennirnir spurðu: Á hvaða árum ævinnar lærðir þú mest? og biðu svo spenntir eftir svarinu. Og Darwin svaraði: Á fyrstu þremur árunum, herrar mínir. Það er alveg tómt mál að trúa því að önnur ár séu þroskavænlegri eða skili meiru en þessi tíu ár. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að góður skóli sé það mikils virði að efli hann lestrarhneigð manna sé ekki hægt að finna grundvallarmun á því í framtíðinni hvort menn hafi stundað mikið skólanám eða ekki. Því að sá sem heldur áfram að lesa hefur sömu möguleikana til að lesa og sá sem heldur áfram í háskóla. En ef grunnskólinn bregst og ef tíu árum í ævi mannsins er sóað í hálfgerða hringavitleysu og martöð í allt of fullum bekkjardeildum með allt of litlum stuðningi við skólann til þess að hann geti sinnt sínu starfi eru menn að kasta lífi í ruslafötuna. Þá eru menn að stytta mönnum stundir en ekki að kenna. Og það er svo stutt á milli þess að stytta mönnum stundir í þeirri merkingu og að stytta sér aldur. Ég vil þess vegna skora á hæstv. menntmrh. að þó að hann hafi e.t.v. orðið að líta svo á að kaupverð gæfunnar til þess að mega vera ráðherra væri að þurfa að skrifa upp á þær kolvitlausu tillögur sem hér eru þá hugsi hann til þess að stundum er sókn besta vörnin og hann reyni að ná vopnum sínum í þessum efnum. Sagan mun engan mann vel dæma sem telur að sóun á fjármunum Íslands liggi fyrst og fremst í því hve mikið sé gert fyrir börn í grunnskólum landsins.
    Hitt er svo líka umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra að barnafjöldi á Íslandi fer stöðugt niður á við í hlutfalli við þá fullorðnu. Við nálgumst stöðugt það sama og þær frægu menningarþjóðir í kringum okkur sem eru hættar að endurnýja sjálfar sig í barneignum. Þær flytja inn fólk í stórum stíl til að vinna ýmiss konar störf fyrir sig. Ef við förum svolítið aftar í söguna var glettilega stutt blómaskeið þeirra þjóða sem fæddu ekki upp það fólk sem átti að lifa í löndum þeirra heldur töldu að þeir ættu að leysa það með því að flytja inn einhverja lágstétt. Það var stutt blómaskeiðið og svo gæti farið fyrir Íslendingum ef við hættum að sinna þessu verkefni af sömu alvöru og við höfum gert að undanförnu að hafa þau markmið að reyna stöðugt að bæta skólann. Ef við hættum að sinna þessu verkefni yrði stutt í afturför á ýmsum öðrum sviðum.
    Mér hefur oft verið hugsað til þess eitthvað hafi verið í þýsku skólakerfi sem gerði það að verkum að Þjóðverjar náðu slíkum afburðaárangri í framleiðslu á verðmætum. Satt best að segja staldra ég oft við það að um seinustu aldamót var það verknámsskóli Kerschensteiners sem var aðalforskrift þeirra og stuðlaði að því að jafnvel þótt menn færu í háskóla urðu þeir einnig að læra einhverja iðngrein ef þeir áttu að fá að halda áfram. Það var skilyrðið. Hér á landi virðist enn einu sinni vera að koma ný bylgja á þann veg að menn vilja ekki styðja við verknámið með eðlilegum hætti og birtist það í þeim hugmyndum sem fyrir liggja um Lánasjóð ísl. námsmanna þar sem þeir sem eru á háskólastigi telja mesta réttlætismálið að ýta þeim út úr sjóðnum sem eru við nám í iðnskóla.
    Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara yfir alla kafla þessa frv. Viss verkaskipting hefur verið í mínum flokki og ég hef að mestu haldið mig við menntamálin eins og hér hefur komið fram. Mér hefur einnig verið tjáð að hæstv. heilbrrh. hafi búið sig undir að flytja hér mikla ræðu áður en hann nær hálfrar aldar afmæli og ég vil ekki verða til þess að koma í veg fyrir að að sú ræða verði flutt fyrir þau tímamót.