Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:43:00 (3157)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt og flókið að taka þátt í þessari fortíðarumræðu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin ber aldrei ábyrgð á neinu. Hún hefur aldrei gert tillögu um neitt. Hjá henni hefur aldrei neitt misfarist, allt er heilagt og allt er fullkomið. Hins vegar voru á undan okkur ráðherrar, t.d. sá sem hér stendur, sá sem þarna situr út í sal og fleiri hafa verið ráðherrar áður og þetta er allt saman þeim að kenna. Þessi málflutningur er auðvitað fyrir neðan virðingu nokkurs manns sem hér er og ég nenni ekki að taka þátt í honum. En ég segi: Það er óhjákvæmilegt að rannsaka hvernig þessi auðsöfnun hefur orðið til og það er athyglisvert að ráðherrar bæði Sjálfstfl. og Alþfl. verða ókvæða við þegar einn þingmaður leyfir sér að nefna að rakið sé í rannsókn á vegum Alþingis hvernig þessi auðsöfnun hefur orðið til, lið fyrir lið. Ég tel óhjákvæmilegt að það verði kannað og það rækilega. Ég segi líka og spyr: Hvaða flokkur ber annar frekar ábyrgð á þessu kerfi hermangsgróðans, fjölskyldnanna fjórtán, en Sjálfstfl.? Undan því getur hv. varaformaður Sjálfstfl. ekki vikið sér. Það er eðlilegt að hann skuli bregðast við með þessum vanstillta hætti, þessi annars sérkennilega stillti maður, miðað við það sem hann hefur orðið að standa í í seinni tíð. Ég hef aldrei séð þessum hæstv. fjmrh. eins brugðið og núna. Það er hans vandi og hans sorg líka, herra forseti.