Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:43:00 (3174)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 2. þm. Vesturl. vil ég segja að það fóru engir samningar fram svo ég viti til um það við sveitarfélögin að dregið yrði úr framkvæmdum við hafnir landsins, fjarri því. Það fóru heldur ekki neinir sérstakir samningar svo ég viti til fram við sveitarfélögin um það sem kallaður er lögguskattur. Hins vegar veit ég að mjög mörg sveitarfélög, þar á meðal sveitarfélög á Vesturlandi, lögðu á það ríka áherslu að ekki yrði dregið úr framkvæmdum við hafnir landsins og við það hefur verið staðið. M.a. benti ég á í þeirri ræðu sem hv. 2. þm. Vesturl. vitnaði til að ég hefði haldið að hækkun á framkvæmdafjárlögum í hafnagerð á milli áranna 1992 og 1992 væri 53% og það væri mjög mikils virði fyrir sveitarfélögin að svo væri.
    Hv. þm. benti á að það hefði verið nær að skera niður framkvæmdir, m.a. hafnaframkvæmdir, fremur en að leggja íbúagjald á sveitarfélögin. Ég er ekki sammála. Ég taldi að það væri mjög mikilvægt að gera upp við sveitarfélög það sem ríkið skuldaði sveitarfélögum. Ég taldi mjög óskynsamlegt og ekki sveitarfélögunum til hagsbóta, allra síst sveitarfélögunum úti á landi, að draga úr framkvæmdafjárveitingum til þeirra verkefna sem voru hálfkláruð eða stóðu fyrir dyrum, e.t.v. mikilvægir áfangar. Ég lýsti því í ræðu minni að það hefði þurft að hafa meira samráð við sveitarfélögin og samtök þeirra vegna þessa gjalds sem títtnefnt er, en því miður verður stundum að gera fleira en gott þykir en ég tel að niðurstaðan eins og hún er sé ásættanleg fyrir sveitarfélögin vegna þess að uppgjör vegna verkaskiptingar er tryggt og fjárveitingar til sameiginlegra verkefna vel viðunandi.