Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:39:00 (3195)

     Finnur Ingólfsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Mér var fullkunnugt um það eins og fleiri þingmönnum að hæstv. heilbr.- og trmrh. þurfti að fara heim, hann gat ekki verið með okkur í alla nótt, og hafði undirbúið það í minni ræðu að hann gæti svarað beinum spurningum sem ég beindi til hans. Ég þurfti hins vegar að gera grein fyrir þeim rangfærslum sem hann hafði farið með í umræðum um atkvæðagreiðslu í gær. Í stað þess að svara einhverjum af þeim spurningum sem til ráðherrans var beint hélt hann áfram uppteknum hætti og sneri út úr, fór með ósatt mál og þegar hann hafði lokið því hleypur hann af vettvangi, í miðri ræðu fyrrv. heilbr.- og trmrh. sem við framsóknarmenn hefðum þó kannski getað sætt okkur við að hann hefði hlustað á og þannig kannski skilið það sem um er verið að fjalla.
    En þessu til viðbótar kastaði hann inn í umræðuna ýmsum öðrum mjög viðkvæmum málum. Hann fullyrti í fyrsta lagi að það sé hægt að greiða út bætur 1. febrúar nk. Í dag kom fram í umræðunni hjá varaformanni tryggingaráðs að vegna þess að ekki væri búið að ganga frá uppgjöri til Skýrsluvéla ríkisins fyrir útgreiðslur á bótum til krabbameinssjúkra barna þyrfti að greiða út með afbrigðum til þessa hóps um næstu mánaðamót. Hvað þýðir það að greiða út með afbrigðum? Það þýðir að hver einasti bótaþegi verður að koma í Tryggingastofnun ríkisins til að ná í ávísun þangað. Það er ekki búið að ganga frá neinu núna, það gengur ágætlega, það gengur mjög vel, sagði ráðherrann, og hafði það eftir starfsmönnum Tryggingastofnunar. 15. janúar er liðinn fyrir nokkru og það verður aldrei fyrr en undir næstu helgi sem þetta verður tilbúið. Það er útilokað að ganga frá þessum hlutum. (Gripið fram í.) Það eru a.m.k. 2.800 manns sem þurfa að koma í halarófu upp í Tryggingastofnun ríkisins til að fá þessa þjónustu ef við tökum bara þá ellilífeyrisþega sem mega búast við skerðingunni.
    Þar að auki segir ráðherrann: Ja, hvað snertir þá sem eru með tekjur erlendis. Þá bara fellum við lífeyrinn hjá þeim niður sem senda okkur ekki tekjuvottorð. Ég veit ekki til þess að það sé nein lagaheimild fyrir slíku í almannatryggingalögunum.
    Öllum þessum spurningum ásamt sex öðrum spurningum sem ég beindi formlega til ráðherrans þegar við 2. umr. er öllum ósvarað. Hvað með þá öryrkja sem njóta bensínstyrks og eru með tekjur yfir 100 þús. kr. á mánuði? Hvað verður með þá öryrkja sem þurfa á hjálpartækjum í sína bíla að halda og eru yfir þessum tekjum? Hver verða útgjöldin fyrir Tryggingastofnun hjá þeim öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem fara út af vinnumarkaðnum og sækja eftir tekjutryggingu og heimilisuppbót eða sérstakri heimilisuppbót þegar þeir hætta vinnu? Öllum þessum spurningum er ósvarað og mér finnst það vera í hæsta máta óeðlilegt að ætla að halda þessari umræðu áfram með þessum hætti án þess að hafa hjá okkur hæstv. heilbr.- og trmrh. til að svara þessum spurningum. Í raun er þetta mál allt upp í loft ef ekki er vitað hvernig framkvæmdin á þessum hlutum á að vera. Ef aðrir ráðherrar Alþfl. geta svarað þessum spurningum sættum við okkur við það, a.m.k. ég.