Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:21:00 (3208)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það var raunar fyrri ræða hæstv. forsrh. sem rak mig hingað í stólinn. Ég náði ekki þeirri síðari. Hún var mælt fram of hratt til þess að alla vega ég næði því eftir þetta langar fundarsetur. En af því að hér var notað orðið ómaklegt þóttu mér það mjög ómakleg ummæli í garð okkar þingmanna sem hér höfum gert eðlilegar athugasemdir við óeðlilegt ástand. Það hefur gerst hérna, eins og margoft hefur fram komið, að það hefur verið óskað svara frá hæstv. heilbrrh. Þau svör hafa ekki fengist. Þegar hæstv. heilbrrh. loks talar kemur í ljós eftir hans ræðu að enn hafa svör ekki fengist, þau hafa verið ófullnægjandi eða engin. Og ég sé ekki að það sé neitt ómaklegt við þann mikla skilning og það óendanlega langlundargeð sem þingmenn sýna að þessu loknu að virða það við hæstv. heilbrrh. að hann vill komast burtu í tilefni af hans merkisdegi. Mér finnst ekki nema sanngjarnt að menn megi lýsa óánægju sinni yfir ástandi mála þegar ástand mála er óviðunandi. Það er ómaklegt í garð okkar þingmanna að væna okkur um ósanngirni í þessu máli.