Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:02:00 (3216)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Ég ætlaði að víkja að einu atriði og að ýmsu leyti væri eðlilegast að beina því til hæstv. forsrh., en ég veit ekki hvort það greiðir fyrir gangi mála þannig að það má vel vera að ég beini mínum orðum frekar til hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. Að mörgu leyti má segja að það geti líka verið eðlilegt að þessir tveir hæstv. ráðherrar tjái sig um það efnisatriði sem ég ætla að víkja að.
    Hæstv. ríkisstjórn lagði af stað með þetta frv. og meginrökin voru þau að frv. væri nauðsynlegt til að festa í sessi stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu og greiða þannig fyrir gerð nýrra kjarasaminga. Frv. var annar meginarmur fjárlaganna og tengist þeirri stefnu sem þar kom fram. Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar með frv. og fjárlögunum og lánsfjárlögum, sem einnig er ætlunin að afgreiða á þessum sólarhring, var að ná samningum á launamarkaði og jafnvægi í efnahagsmálum.
    Nú held ég að það sé viðurkennt af öllum sem til þekkja að lykillinn að slíkum samningum séu samningar Verkamannasambands Íslands við vinnuveitendur og ríkisvaldið. Að öllum öðrum samtökum launafólks ólöstuðum er það raunsætt mat að Verkamannasamband Íslands er með lykilstöðu í þessu máli.
    Nú hefur það gerst á síðasta sólarhring að framkvæmdastjórn Verkamannasambands Íslands hefur komið saman og gert grundvallarályktun í væntanlegum kjarasamningum. Þessa grundvallarályktun ætlar forusta Verkamannasambandsins á þessum sólarhring að kynna fyrir forsetum Alþýðusambandsins og vinnuveitendum. Það hefur þó komið fram í yfirlýsingum forustumanna Verkamannasambandsins að á þessum framkvæmdastjórnarfundi Verkamannasambandsins hafi verið gerð sú samþykkt að ein af meginforsendum nýrra kjarasamninga væri að hæstv. ríkisstjórn breytti því frv. sem hér er verið að knýja fram með 18 klst. löngum fundi nú þegar að verði samþykkt. Ég get fullvissað hæstv. ríkisstjórn um það af reynslu minni að það er skynsamlegra fyrir stjórnvöld sem ætla sér að ná skynsamlegum kjarasamningum að vera reiðubúin til viðræðna við Verkamannasambandið og önnur samtök launafólks og taka því vel að athuga breytingar á gildandi löggjöf ef þær tillögur eru skynsamlegar og geta greitt fyrir kjarasamningum og geta haft í

för með sér stöðugleika í efnahagslífi.
    Nú vill svo til að ýmsar af þeim upphæðum sem hér er verið að tala um, eitt, tvö og þrjú hundruð millj., munu ekki skipta sköpum hvað stöðugleikann í efnahagslífinu snertir. Þær geta hins vegar skipt sköpum hvað afstöðu Verkamannasambandsins og samtaka launafólks snertir. Þess vegna vil ég ekki að þessari umræðu ljúki, þótt aðstæður í henni séu orðnar ærið sérkennilegar og erfiðar, án þess að hæstv. ráðherrar séu beðnir að svara þeirri spurningu: Hver er afstaða þeirra til þessarar samþykktar Verkamannasambandsins og þeirrar stefnu sem þar kemur fram og er í sjálfu sér einföld og skýr þó menn hafi ekki séð samþykktina? Stefnan er að það sé nauðsynleg forsenda nýrra kjarasamninga að því frv. sem hér á að samþykkja verði breytt.
    Ég hefði talið skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina að taka vel í þær hugmyndir og lýsa sig reiðubúna til þeirra breytinga. Síðan má meta hvað þær kosta. Hvernig er hægt að mæta þeim kostnaði með öðrum hætti og setja þær tölur í samhengi við aðrar tölur í efnahagslífinu? En það er nánast ekki hægt fyrir okkur á þjóðþinginu að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. ráðherrar geri nokkra grein fyrir þessu lykilatriði.
    Eins og fram hefur komið í umræðum um þingsköp hef ég ekki tekið fyrr til máls í umræðu um þetta frv. og hafði ekki ætlað mér að taka þátt í henni því að margt góðra manna hefur þar haldið uppi málflutningi míns flokks og stjórnarandstöðunnar gagnvart frv. En ég tel mig til knúinn í ljósi reynslu minnar á undanförnum árum af hinum svokölluðu þjóðarsáttarsamningum, sem allir hafa talið grundvöll að stöðugleika á síðustu árum, að vekja athygli á þessum nýja atburði sem samþykkt Verkamannasambandsins felur í sér. Hún er í sjálfu sér ákveðin vegamót í kjaraviðræðum síðustu vikna og mánaða. Það mun ráða miklu hvort sú braut sem þar er haldið inn á leiðir til farsældarlykta hvernig hæstv. ríkisstjórn tekur í málið.
    Hæstv. forsrh. lýsti þeirri skoðun fyrir nokkrum dögum að það væri ekki fyrr og ef samningar kæmust inn á sameiginlegt borð og væru þar komnir á lokastig að hæstv. ríkisstjórn kæmi inn í málið. Það má vel vera að það hafi verið skoðun ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Nú er hins vegar alveg ljóst að Verkamannasambandið hefur mótað þá stefnu að nauðsynlegt er að ríkisstjórnin komi inn í málið fyrr. Verkamannasambandið hefur þegar ákveðið að óska eftir því að ríkisstjórnin komi inn í kjaraviðræðurnar strax, ekki eftir einhverjar vikur eða einhverja mánuði heldur strax. Og forusta Verkamannasambandsins hefur sagt alveg skýrt hvaða atriði það eru sem hún vill ræða. Þar eru þau atriði efst á blaði sem eru í þessu frv. Þess vegna vil ég spyrja: Ætlar hæstv. ríkisstjórn í ljósi þessa ekki að breyta fyrri afstöðu sinni, vera nú tilbúin til viðræðna strax?
    Ég get sagt hæstv. ráðherrum að það er vonlaust verk að ná farsælum kjarasamningum sem leitt geta til efnahagslegs stöðugleika í stríði við Verkamannasambandið. Það dæmi gengur ekki upp, mun aldrei ganga upp. Menn geta prófað það ef þeir vilja, en það er ekki gæfubraut.
    Það hefur komið fram í meðferð frv. hvað eftir annað á undanförnum vikum að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa komið fram með ýmsar ábendingar um galla, ávirðingar, mistök sem voru á upphaflegri frumvarpsgerð eða þeim brtt. sem ráðherrar fluttu. Eins og fram hefur komið hefur oft verið farið að þessum ábendingum, m.a. sameiginlegum tillögum heilbr.- og trn., og umræðurnar í nefndunum og ábendingar frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar hafa varðandi önnur atriði einnig orðið til þess að þeim hefur verið breytt.
    Afstaða hæstv. ríkisstjórnar til væntanlegra kjarasamninga, þó hún sé ekki formlega yfirlýst í frv., er líka eitt af þessum atriðum sem gagnlegt er að ríkisstjórnin íhugi að breyta. Þess vegna vildi ég óska eftir því að áður en þessari umræðu lýkur muni hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. lýsa afstöðu sinni til þessarar samþykktar Verkamannasambandsins. Ég óttast satt að segja að ef það gerist að ríkisstjórnin heldur þjóðþinginu næstum því í heilan sólarhring á fundi til að knýja þetta frv. í gegn og hirðir ekkert um að senda jákvæð merki til forustu Verkamannasambandsins um að ríkisstjórnin sé reiðubúin í viðræður um að breyta frv. geti orðið nokkuð langt í land með að árangursríkar kjaraviðræður

hefjist.
    Ég veit af reynslu minni að þeir menn sem eru í forustu Verkamannasambandsins líta á samningana sem mikið alvörumál. Þeir hafa allan hug á því að halda áfram á þeirri farsælu braut sem þeir tóku þátt í að móta manna mest á liðnum árum og vilja að þeir séu teknir alvarlega.
    Virðulegi forseti. Í raun og veru þarf kannski ekki mikið lengri tíma til að koma þessum óskum á framfæri. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þá gagnrýni sem forusta Verkamannasambandsins hefur sett fram á frv. Ég vænti þess að það sé hæstv. ráðherrum ljóst. En ég set fram þá ósk að áður en þessari umræðu lýkur geri hæstv. ráðherrar grein fyrir afstöðu sinni til þessarar samþykktar Verkamannasambands Íslands.