Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:33:00 (3225)

     Finnur Ingólfsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum svörin.
    En það er nú svo, hæstv. forsrh., með þessi tvö tilteknu atriði sem þú sagðir að væru nákvæm útfærsluatriði að við þingmenn minni hlutans í heilbr.- og trn. óskuðum einmitt sérstaklega eftir því að tryggingayfirlæknir Björn Önundarson yrði kallaður til fundar í nefndinni. Þessi atriði komu ekki upp í nefndarstarfinu fyrr en á síðustu stundu þannig að við óskuðum formlega eftir því á fundi í heilbr.- og trn. að sá maður yrði kallaður til sem best þekkir til í þessum efnum, sjálfur tryggingayfirlæknir, til að skýra okkur frá því hvað yrði um þessa úrskurði gagnvart þessum hópi. Því var neitað. Við vonuðumst hins vegar til þess að sá maður yrði kallaður til þá í umræðu í efh.- og viðskn. Ég veit ekki til að það hafi verið gert. ( RG: Hann var veikur þegar óskað var eftir því.) Já, þetta eru nýjar upplýsingar, hann var veikur. En þessum spurningum er ósvarað. Það er þarna ákveðinn hópur öryrkja sem er alveg í lausu lofti hvað verður um verði frv. að lögum.
    En ég fagna því að hæstv. félmrh. skuli bregðast svo vel við og leggja sig fram um að svara þeim spurningum sem ég hef áhuga fyrir að fá að beina til hans í umræðunni á eftir.