Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:43:00 (3228)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara einhverju af þeim spurningum sem hafa verið bornar fram. Reyndar hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. svarað flestum þeim spurningum sem hafa verið bornar fram af hv. þm.
    Spurningin er um framkvæmdina núna 1. febrúar. Samkvæmt því sem heilbrrh. upplýsti í dag og hefur þær upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins verði framkvæmdin með eðlilegum hætti 1. febrúar.
    Varðandi elli og örorkulífeyrisþega sem eru erlendis kom það fram í svari ráðherra í dag að þeir hefðu minnst þrjá mánuði til að sýna fram á þær tekjur sem þeir hafa og hvort þær þurfi að skerðast.
    Varðandi bensínstyrkinn og kaup á hjálpartækjum. Spurningin er um hvort þetta hafi þá áhrif og hvort þetta mundi falla niður hjá þeim öryrkjum sem lenda í skerðingunni. Þetta mun ekki falla niður, hvorki bensínstyrkurinn né hjálpartækin, hjá þessum öryrkjum.
    Varðandi tekjurnar og það sem áætlað er að þetta skili, þá er auðvitað ljóst að þegar þetta er framkvæmt mánuði seinna en til stóð verða tekjurnar því minni sem þessum mánuði svarar.
    Varðandi það hvort þetta geti orðið til þess að einhverjir elli- eða örorkulífeyrisþegar dragi við sig vinnu liggur það í augum uppi að ég get ekki svarað því frekar en annar. Því verður reynslan að skera úr um.