Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:15:00 (3245)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég óska þingmanninum til hamingju með þessi tímamót. Að vísu er þessum ágæta þingmanni svo létt um mál eða léttara um mál en flestum öðrum þingmönnum, og er þá langt til jafnað, að ég veit að hann á eftir að fjalla oft og mikið um þessi mál í einu eða öðru formi og reyndar get ég kannski með þessu stutta andsvari gefið honum tækifæri til að eiga enn einn stuttan sprett í ræðustólnum.
    Ég vil nefna út af því sem hann nefndi um efnahagsmálin í örstuttu máli að með þessu frv. eru menn að loka þeim tillögum og aðgerðum sem ríkisstjórnin fyrir sitt leyti grípur til og eru grundvöllur efnahagsstefnu. Eins og menn vita var þenslukippur sl. vor eða í byrjun sumars. Vextir voru því hækkaðir til að slá á þá þenslu. Sú aðgerð bar árangur, viðskiptahalli fer minnkandi, ríkissjóðshallinn og fjárlagahallinn fara minnkandi og verðbólga er nánast við núllið þannig að þetta er góður grundvöllur fyrir atvinnulífið til að fá viðspyrnu inn í framtíðina. Ég veit að um það hefur verið mikill ágreiningur í þingsölum sem eðlilegt má telja með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur staðið að þessum verkum, en þó liggur það fyrir að þessi verk hafa verið unnin.