Framkvæmdasjóður Íslands

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 13:02:00 (3259)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um atkvæðagreiðslu) :
     Herra forseti. Á þessum fundi hefur eitt frv. orðið að lögum með 28 atkvæðum. Hér standa mál þannig að fái ríkisstjórnin frumvörp afgreidd á þessum fundi er það fyrir náð, hvorki fyrir verðleika né styrkleika. Fjarverandi af hálfu stjórnarsinna eru hv. 3. þm. Norðurl. e., hv. 1. þm. Vestf., hæstv. heilbrrh. og hæstv. viðskrh., og biður nú ekki um fjarvistarleyfi venju fremur og sýnir virðingu til þingsins, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, ( GHelg: Séra.) séra, hv. 3. þm. Suðurl. Árni Johnsen og hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson.
    Nú er rétt að núverandi þingflokksformaður Alþfl. geri sér grein fyrir því hvernig hæstv. heilbrrh. taldi rétt að standa að málum þegar ríkisstjórn hafði ekki meiri hluta á þingi til að koma máli fram nema stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði gegn. Þá töldu þeir rétt að hlaupa úr salnum, það væru hin rökréttu vinnubrögð.
    Mér hefur einnig tjáð maður af Engeyjarætt að á þeim tíma þegar Bjarni Benediktsson stýrði stjórnarandstöðu, sem var nú aðeins einu sinni á ævinni, löngum sat hann í ríkisstjórn þegar hann var formaður, þá hafi þeir einnig gengið úr salnum. Ég tel slík vinnubrögð ekki til fyrirmyndar og ég tel að þingið þurfi að gæta vissra leikreglna. En það þarf að vera á báða vegu. Það þarf að vera gagnkvæm virðing. Það er ekki forsvaranlegt, hæstv. forseti, að geyma umræður eins og hér hefur verið gert, það eru ekki forsvaranleg vinnubrögð. Og ég vænti þess, þar sem hæstv. forsrh. hefur þó nokkuð lært í prúðmennsku á þeim tíma sem hann hefur verið forsrh. og í meiri tillitssemi við stjórnarandstöðuna en fyrst var, að við getum vænst þess að vinnubrögðin geti orðið með enn skaplegri hætti hvað það snertir að menn virði eðlilegar vinnureglur í þinginu á báða vegu.
    Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að því hefur mjög verið haldið á loft að hér sé stjórnarandstaðan ósanngjörn og hún sé með kröfur, tefji mál og komi í veg fyrir lýðræðisleg vinnubrögð. Ég hygg að þetta sé þarft umhugsunarefni fyrir hæstv. ríkisstjórn þar til þing kemur saman aftur og einnig hygg ég að það sé hollt umhugsunarefni fyrir hæstv. ríkisstjórn hvort ekki sé rétt að minna hæstv. viðskrh. á að í virðingarskyni við þingið sé eðlilegt að hann biðji um fjarvistarleyfi eins og aðrir ráðherrar hafa gert.