Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 13:44:00 (3328)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.
    Frv. þetta er samið í landbrn. en tilgangur þess er eingöngu sá að gera nauðsynlegar lagabreytingar í framhaldi af búvörusamningnum sem undirritaður var af landbrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og samninganefnd Stéttarsambands bænda hinn 11. mars 1991. Samningur þessi ber heitið ,,Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt`` og fjallar um framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða á tímabilinu frá 1. sept. 1992 til 31. ágúst 1998.
    Með samningnum eru tveir viðaukar, annars vegar viðauki I um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði fram til 31. ágúst 1992 og hins vegar viðauki II um ýmsar stuðningsaðgerðir til að mæta áhrifum samningsins. Þá fylgja samningnum 12 bókanir um ýmis málefni sem tengjast honum.
    Samningurinn tekur við að loknum gildistíma núverandi búvörusamnings þann 31. ágúst á þessu ári. Umræður um gerð hans hófust fyrri hluta árs 1989 og í ágústmánuði það ár lögðu landbrh. og Stéttarsamband bænda fram hugmyndir um útlínur slíks samkomulags. Þá komu af hálfu beggja aðila fram hugmyndir um markaðstengdan samning til allt að 6 ára. Síðari hluta árs 1989 og framan af árinu 1990 héldu viðræður áfram og unnið var að ýmiss konar gagnaöflun. Á aðalfundi Stéttarsambandsins árið 1990 voru lögð fram sameiginleg efnisatriði til umræðu um grundvöll búvöruframleiðslunnar eftir 1. sept. 1992.
    Í tengslum við febrúarsamningana svonefndu 1990 varð samkomulag um skipan nefndar, sjömannanefndarinnar svonefndu, sem hefði það hlutverk að ,,setja fram tillögur um stefnumörkun, er miði að því að innlend búvöruframleiðsla verði hagkvæmari og kostnaður lækki á öllum stigum framleiðslunnar, í búrekstri bóndans, á vinnslu- og heildsölustigi og í smásöluverslun``. Nefndin var skipuð fulltrúum frá landbrn., ASÍ, BSRB, Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaga og Stéttarsambandi bænda.
    Í september 1990 varð samkomulag um að viðræðum þeim sem í gangi höfðu verið milli landbrn. og Stéttarsambands bænda um nýja stefnumörkun yrði slegið á frest þar til sjömannanefndin hefði lokið störfum. Áfangaskýrsla sjömannanefndar um framleiðslu sauðfjárafurða var afhent landbrh. 14. febr. 1991, en hún lýsir þeim gögnum og hugmyndum sem liggja til grundvallar umræddri stefnumörkun í sauðfjárræktinni og í henni koma fram fyrstu hugmyndir um aðgerðir. Hinn 20. febr. óskaði stjórn Stéttarsambands bænda eftir áframhaldandi viðræðum um búvörusamning sem byggðar yrðu á hugmyndum sjömannanefndar með þeim viðaukum sem nauðsynlegir væru. Þær viðræður leiddu til ofannefnds samnings. Af hálfu Stéttarsambands bænda var hann undirritaður með fyrirvara um samþykki fulltrúafundar, en þar var hann samþykktur 14. mars 1991. Landbrh. undirritaði samninginn með fyrirvara um samþykki Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar.
    Með frv. þessu eru gerðar nauðsynlegar lagabreytingar í framhaldi af undirritun búvörusamnings frá 11. mars 1991. Þá voru gerðar ítarlegar áætlanir um kostnað sem samningurinn mundi hafa í för með sér og breytingar á útgjöldum frá fyrra fyrirkomulagi. Þær áætlanir fylgja frv.
    Útgjöld ríkissjóðs vegna búvörusamnings eru með þrennum hætti, þ.e. samningurinn sjálfur sem kveður á um stjórn framleiðslunnar á tímabilinu 1991--1998, þar á meðal beinar greiðslur til framleiðenda sauðfjárafurða á lögbýlum, viðauki I sem kveður á um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði og viðauki II sem fjallar um ýmsar stuðningsaðgerðir í framhaldi af samningnum.
    Frv. þetta tekur fyrst og fremst til samningsins sjálfs og viðauka I. Ákvæði viðauka II verða lögð fyrir Alþingi með frv. til fjárlaga og ráðast af samþykkt þeirra hverju sinni.
    Með frv. þessu er í 6. gr. a. vikið að þeim hluta búvörusamnings sem viðauki I fjallar um, þ.e. tilboð ríkissjóðs um að greiða fyrir allt að 3.700 tonnum fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu og allt að 55 þús. áa.
    Alþingi hefur með 38. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1991 heimilað fjmrh. að stofna til skuldbindinga vegna þessa. Tilboð ríkissjóðs stendur til 1. sept. 1992, þó þannig að hærri greiðslur voru í boði til 1. sept. sl. heldur en þær sem bjóðast á þessu ári. Auk þessa eru ákvæði um niðurfærslur fullvirðisréttar að því marki sem umsamin fækkun fjár næst ekki með frjálsum samningum.
    Sl. haust náðust samningar um minnkun fullvirðisréttar um 1.709 tonn auk þess sem þvingaða niðurfærslan nam 138 tonnum. Fargað var 42--43 þús. fjár í tengslum við þessar aðgerðir. Ásetningsskýrslur sem þegar liggja fyrir benda til að fé muni fækka um allt að 40.000 milli ára þrátt fyrir að margir bændur hafi tekið fé að nýju eftir riðuniðurskurð eða tímabundna leigu fullvirðisréttar til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Greiðslur vegna fækkunarinnar sl. haust hafa þegar verið sendar bændum sem uppfyllt hafa skilyrði samningsins.
    Hvað varðar markmið búvörusamningsins um aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði standa eftir 1.853 tonn sem þarf að ná út annaðhvort með samningum eða seinni niðurfærslu næsta haust.
    Stærsta breytingin er sú að stuðningi ríkissjóðs við útflutning landbúnaðarafurða verður hætt frá og með 1. sept. 1992 vegna afurða sem framleiddar verða eftir þann tíma. Hámark útflutningsbóta var miðað við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, en með búvörulögunum frá 1985 voru þær lækkaðar í 6% árið 1987 og 5% síðan. Þó skyldu önnur 4% renna til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til stuðningsaðgerða vegna samdráttar í hefðbundnum búkap. Vegna þessa er lagt til í 8. gr. frv. að 36.--38. gr. búvörulaganna falli brott 1. sept. 1992.
    Verðábyrgð ríkissjóðs á umsömdu ákveðnu magni sauðfjárafurða er numin úr gildi og felur það í sér mikla stefnubreytingu í landbúnaði. Framleiðslan verður eftir 1. sept. á ábyrgð framleiðenda og afurðastöðva og hefur það í för með sér að bændur verða að meta stöðu sína í nýju ljósi hvað varðar verðlagningu á framleiðslunni og sölu afurðanna þar sem ríkissjóður ber ekki lengur ábyrgð á umsömdu magni.
    Samkvæmt gildandi lögum er framleiðendum tryggt fullt verð fyrir framleiðslu innan fullvirðisréttar, enn fremur eru ákvæði um staðgreiðslu samkvæmt ákveðnum reglum sem þó er heimilt að víkja frá með samkomulagi framleiðenda og afurðastöðva. Í gr. 5.1 í búvörusamningi er kveðið á um að verðlagningu skuli hagað í samræmi við gildandi ákvæði búvörulaga með ákveðnum breytingum. Á árinu 1993 skuli taka kerfi verðlagningar sauðfjárafurða til endurskoðunar og þá m.a. kannaðir kostir umboðsviðskipta. Það liggur í augum uppi eftir að verðábyrgð ríkissjóðs fellur niður að framleiðendur og afurðastöðvar verða að fá frelsi til verðlagningar með tilliti til birgðastöðu og stöðu á markaði.
    Í 2. gr. frv. eru verðlagsnefnd veittar heimildir til að víkja frá gildandi ákvæðum um verðlagningu. Í fyrsta lagi er verðlasgnefnd heimilt að víkja frá því að gera ársfjórðungslegar breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda vegna breytinga á fjármagns- og rekstrarkostnaði og á launum eins og 12. gr. búvörulaga kveður á um. Þetta er í samræmi við ákvæði 5.1 í búvörusamningi.
    Í öðru lagi er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun á nýjum verðlagsgrundvelli að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur á gildistíma grundvallarins þrátt fyrir ákvæði 8.--10. gr. laganna.
    Ákvæði 5.1 í búvörusamningi kveður á um að sl. haust skyldi verð sauðfjárafurða fært niður um 2% og um 4% til viðbótar næsta haust. Í bókun II segir að samningsaðilar séu sammála um að stefna beri að því að raunverð dilkakjöts lækki í áföngum um 20% á næstu 5--6 árum. Ekki er áskilið samþykki allra nefndarmanna og nægir því einfaldur meiri hluti til ákvörðunar á grundvelli þessa ákvæðis.
    Í þriðja lagi er verðlagsnefnd heimilt að breyta einstökum liðum og verði einstakra afurða á gildistíma grundvallarins og hefur frjálsar hendur um það hvenær slík ákvörðun er tekin og til hvaða vara hún nái. Þetta er nauðsynlegt ákvæði til að geta mætt breyttum markaðsforsendum og koma í veg fyrir óeðlilega birgðasöfnun.
    Í stað niðurgreiðslu á heildsölustigi verða teknar upp beinar greiðslur til bænda frá og með haustslátrun 1992. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi áhrif á endurgreiðslu á hluta virðisaukaskatts né á gildandi reglum um niðurgreiðslur til ullariðnaðarins. Beinar greiðslur verða inntar af hendi mánaðarlega, í fyrsta skipti nú í mars.
    Beinar greiðslur til bænda greiðast út á greiðslumark sem ákveðið verður árlega og byggist á innanlandsneyslu kindakjöts. Í upphafi deilist það út á framleiðendur í hlutfalli við fullvirðisrétt þeirra haustið 1992. Heildargreiðslumark hækkar eða lækkar í takt við breytingar á innanlandsneyslu kindakjöts eftir vissum reglum. Meginatriðið er að heildargreiðslumark er tengt innanlandsmarkaði. Verði framleiðsla kindakjöts eitthvert ár umfram sölu þannig að birgðir aukast kemur mismunur til lækkunar heildargreiðslumarki næsta ár og öfugt. Bændum verða heimiluð aðilaskipti að greiðslumarki sem ætti að stuðla að hagræðingu í greininni og auðvelda búháttabreytingar.
    Í þessu frv. er ekki fjallað um mjólkurframleiðslu en í 5. gr. frv. er landbrh. heimilt að semja um beinar greiðslur til kúabænda. Eftir stjórnarskiptin sl. ár fól ég sjömannanefnd að halda áfram starfi sínu og þar á meðal að móta tillögur um nýtt fyrirkomulag í mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði. Enn hefur nefndin ekki lokið störfum varðandi þessa þætti en ég lagði áherslu á að hún skilaði skýrslu í þessum mánuði enda má það ekki dragast lengur að unnt sé að hefja samninga við Stéttarsamband bænda um nýskipan þessara mála. Að öðru leyti fjallar það um nánari útfærslu á framkvæmd þeirra kerfisbreytinga sem standa fyrir dyrum og gerð er grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frv. Skal hér aðeins stiklað á stóru í þeim efnum.
    Í 1.--4. gr. er fjallað um verðlagningu og uppgjör afurðastöðva, m.a. áðurgreindar breytingar á umboði verðlagsnefndar til að víkja frá sjálfvirkum framreikningi verðs til bænda. Einnig kveður 3. gr. á um að fimmmannanefnd, sem ákveður heildsöluverð búvara, fái sams konar heimild til að gera tilteknar framleiðnikröfur til afurðastöðva. Í 4. gr. eru ákvæði um hvernig með skuli fara uppgjör fyrir afurðir umfram

greiðslumark.
    5. gr. veitir landbrh. heimild til að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda á sauðé og mjólkurafurða.
    6. gr. er í átta liðum. a-liðurinn fjallar eingöngu um minnkun fullvirðisréttar sem ég hef þegar gert grein fyrir, b-liður er um ákvörðun heildargreiðslumagns sem er það magn kindakjöts sem beinar greiðslur til bænda miðast við. Hér er mælt fyrir um hvernig það er ákveðið og lagt til að það verði 8.600 tonn á verðlagsárinu 1992--1993. Sú tala byggist á neyslu kindakjöts árið 1990 og fyrri helming ársins 1991 sem var 8.300 tonn á ársgrundvelli. Við þetta bætast 200 tonn vegna heimtöku bænda auk 100 tonna sem eru ívilnun til einstakra búmarkssvæða á fyrsta ári samkvæmt ákvæðum búvörusamningsins og Framleiðnisjóði landbúnaðarins er gert að bera kostnað af.
    Í c-lið er fjallað um skiptingu greiðslumarksins. Einungis lögbýli getur öðlast greiðslumark. Í því felst réttur á beingreiðslu úr ríkissjóði og réttur til framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Á hinn bóginn stendur ekkert í veginum fyrir því að framleiðendur og/eða afurðastöðvar geri samning um útflutning á dilkakjöti.
    Í d-lið eru heimiluð aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla og hvernig með skuli farið. Þó eru takmarkandi ákvæði ef slík aðilaskipti þykja ganga gegn æskilegum landnýtingar- og gróðurverndarsjónarmiðum. Enn fremur er leitast við að skýra réttarstöðu jarðeigenda og leiguliða gagnvart ráðstöfun og nýtingu greiðslumarks en óljós staða þeirra mála í dag veldur margháttuðum erfiðleikum og óvissu.
    Í e-lið frv. er fjallað um beinar greiðslur ríkissjóðs sem mega nema 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts og miðast við greiðslumark lögbýlis. Þeim er ætlað að koma í stað niðurgreiðslna á kindakjöti og er tilgangur þeirra einkum sá að lækka vöruverð til neytenda og minnka útgjöld ríkissjóðs vegna framleiðslunnar ásamt afnámi útflutningsbóta og að vera nokkurs konar afkomutrygging fyrir sauðfjárbændur og tryggja með því búsetu í sveitum landsins. Bændum er gefið ákveðið svigrúm í framleiðslu án þess að greiðslurnar raskist. Þannig er gert ráð fyrir því á fyrsta ári að hver bóndi fái fulla greiðslu ef framleiðsla hans er á bilinu 80--105% af greiðslumarki býlisins. Þessi mörk verða þó endurskoðuð árlega með hliðsjón af markaðsaðstæðum.
    Ákvæði f-liðar eru í samræmi við 6. gr. í búvörusamningi og fjallar um hvernig farið skuli með birgðir kindakjöts ef þær verða í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu. Við það er miðað að þá sé hægt að beita verðskerðingu eða lækka heildargreiðslumark næsta árs.
    Í ljósi þess að hér er um opinbera verðlagningu að ræða er talið óhjákvæmilegt að ráðherra taki ákvörðun um verðskerðinguna og að ákveðið sé í lögum að verðskerðingin verði ekki umfram tiltekið hlutfall af afurðaverði kindakjöts til framleiðenda. Þessi ákvæði hljóta að koma til endurskoðunar um leið og önnur ákvæði um verðlagningu og uppgjör afurðastöðva.
    Í upphafi máls míns rakti ég aðdraganda búvörusamningsins. Það sem e.t.v. er merkast við þann samning er að hann byggðist á víðtæku samkomulagi í nefnd sem í eru fulltrúar allra helstu aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum bænda og stjórnvalda.
    Markmið samningsins og lagafrv. sem hér er lagt fram er að aðlaga sauðfjárframleiðsluna innanlandsmarkaði, draga úr kostnaði hins opinbera og stuðla að aukinni hagræðingu þannig að greinin standi sterkari eftir og vöruverð lækki. Um þessi markmið getur varla verið ágreiningur þótt menn greini á um ýmsar aðferðir sem í samningnum felast. Staðreyndin er sú, hvað sem öðru líður, að þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir munu spara ríkissjóði mikið fé á næstu árum. Sparnaður vegna sauðfjárframleiðslu á samningstímanum er áætlaður um það bil 5 milljarðar miðað við það sem orðið hefði að óbreyttu.
    Útgjöld yfirstandandi árs verða reyndar verulega hærri en ella vegna þess að nú skarast fyrirframgreiðslur vegna framleiðslu næsta hausts og niðurgreiðslur á afurðum haustsins 1991.
    Það er ljóst að landbúnaðurinn stendur frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum. Almenn þróun í heiminum er í átt til frjálsari viðskiptahátta og Íslendingar geta ekki vísað þeirri þróun hjá dyrum. Aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði og nýjum GATT-samningi mun óumflýjanlega leiða til aukinnar samkeppni á matvörumarkaði hér. Svar landbúnaðarins við þeirri þróun hlýtur að vera sú að hagræða á öllum sviðum svo sem kostur er til að geta mætt samkeppni og stjórnvaldsaðgerðir verða að miðast við að stuðla að slíkri hagræðingu og styrkja samkeppnisstöðu landbúnaðarins jafnframt því að milda þau áhrif sem umrótið mun óhjákvæmilega hafa á einstaka bændur og byggðarlög.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók búvörusamninginn í arf. Ég lýsti því strax yfir að við hann mundi ég vilja standa en leita samkomulags um hverjar þær breytingar sem ég teldi skynsamlegar og bændum og þjóð til hagsbóta.
    Með frv. er einungis stefnt að þeim breytingum á lögum sem nauðsynlegar eru til að framkvæma búvörusamninginn. Heildarendurskoðun laganna um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá 1985 verður eftir sem áður að fara fram. Sú endurskoðun er ekki tímabær fyrr en sjömannanefndin hefur lokið störfum varðandi aðrar greinar landbúnaðarins en sauðfjárrækt og tillögur liggja fyrir um fyrirkomulag afurðasölu.
    Óvissan í GATT-samningunum veldur því einnig að ekki er unnt í dag að ganga frá lagasetningu til frambúðar. Reyndar er næsta víst að nýr GATT-samningur, þegar og ef af verður, mun krefjast vissra breytinga á þeim lögum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Tíminn leyfir hins vegar ekki að beðið sé niðurstöðu í þeim málum. Vegna ákvæða um að beinar greiðslur til bænda skuli hefjast í næsta mánuði er knýjandi að frv. fái skjóta umfjöllun hér í þinginu. Frv. er vissulega viðamikið og lagatæknilega flókið, en til þess hefur verið reynt að vanda hvað hina lagatæknilegu hlið varðar og haft náið samráð við Stéttarsamband bænda um alla túlkun búvörusamningsins.
    Það er ósk mín, hæstv. forseti, til hv. landbn. og Alþingis að afgreiðslu málsins verði flýtt svo sem verða mál. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.