Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 15:26:00 (3334)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Það er rétt ábending hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að frv. þetta hefði gjarnan mátt vera lögfest fyrir áramót. Skýringin á því hversu seint það var á döfinni og seint fram lagt var fyrst og fremst sú að þetta mál var flóknara lagatæknilega heldur en okkur hafði grunað og af þeim sökum tók undirbúningur og gerð frv. lengri tíma en við höfðum ætlað. En það var þó lagt fram fyrir áramót þannig að hv. þm. hefur unnist nægur tími til að athuga efni þess og á ekki að koma að sök þó ekki hafi verið mælt fyrir því fyrr en nú í dag.
    Í fyrsta lagi hefur verið vikið nokkuð að því að með fjárlögum var gert ráð fyrir því að tvær greiðslur samkvæmt búvörusamningi skyldu fara fram á fyrstu tveimur mánuðum næsta árs. Þetta mál hefur verið rætt hér fyrr. Það er auðvitað of mikið að segja, of djúpt tekið í árinni að segja að bændur hafi verið sviptir um sjötta hluta árslauna sinna eins og raunar kom fram hjá hv. þm. í hans ræðu síðar, þeim sem hafði orð á því, þá er gert ráð fyrir að full skil komi á fyrstu tveim mánuðum næsta árs sem auðvitað léttir bændum að brúa bilið yfir áramótin. En gert hafði verið ráð fyrir því að verulegur hluti eða þyngsti hluti greiðslnanna kæmi síðast á árinu.
    Það hafa enn ekki verið teknar upp formlegar viðræður við samtök bænda eða fjmrn. um það hvernig skipting beingreiðslnanna verði nú á árinu. Það var rætt lauslega og óformlega við gerð fjárlaga en auðvitað er kominn tími til þess að ljúka þeim viðræðum enda umsamið að beingreiðslurnar hefjist nú um næstu mánaðamót og eins og ég sagði af þeim sökum nauðsynlegt að þetta frv. nái fram að ganga sem fyrst og í þessum mánuði. Það er þess vegna ekki hægt að segja um það á þessu stigi hvernig beingreiðslum verði háttað innan ársins. En ég þakka á hinn bóginn ábendingu hv. 4. þm. Norðurl. e. um að nauðsynlegt sé að breyta ákvæðum 2. mgr. e-liðar 6. gr. til samræmis við fjárlög eins og þau voru afgreidd nú fyrir jólin. Það var rétt ábending.
    Hér var spurt um birgðastöðuna nú í lambakjötinu og hvernig staðið yrði að því að birgðir hinn 1. sept. nk. yrðu ekki umfram þriggja vikna neyslu eða 500 tonn. Um það er það að segja að markaðsstaðan nú um áramót var 200--300 tonnum betri en fyrir einu ári, í árslok 1990--1991, og nægilegir fjármunir eru ætlaðir til þess á fjárlögum að hægt verði að standa við þau fyrirheit sem búvörusamningurinn gerði og það ákvæði 3. mgr. f-liðar 6. gr. að birgðastaðan verði ekki nema 500 tonn hinn 1. sept. Það er gert ráð fyrir því að standa við það með útflutningsbótafé nú á þessu ári.
    Spurt var um það hvað liði gerð mjólkurhlutans af búvörusamningi. Um það er það að segja, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, að sú vinna hefur sóst verr en menn höfðu gert sér vonir um. Ég leyfi mér þó að fullyrða að, ég veit ekki hvað ég á að segja, fyrsta álit, fyrsta nefndarálit eða greinargerð, álitsgerð sjömannanefndar mun líta dagsins ljós innan skamms. Ég skal ekki dagsetja það nákvæmlega, en það líður sem sagt senn að því að áfangaálit komi frá sjömannanefnd varðandi þennan hluta búvörusamningsins. Hið sama er að segja um þá vinnu sem lýtur að vinnslu og dreifingar- og markaðsmálum búvörunnar, þar hafa málin sóst seint en eru þó í vinnslu.
    Það lýtur raunar að þeim spurningum líka sem hér voru gerðar varðandi fimmmannanefndina, hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir því í þessu frv. að fjölga úr fimm í sjö. Staðreyndin í því máli er einfaldlega sú að ekki er um það full eining milli hagsmunaaðila. Á það er líka nauðsynlegt að líta að búvörusamningurinn gerir ráð fyrir því að bændur taki sjálfir á sig ábyrgð af framleiðslunni frá næsta hausti sem hlýtur að kalla á endurskoðun á vinnslu og markaðsmálum sauðfjárframleiðslunnar og er að minni hyggju nauðsynlegt að stíga það skref að staðgreiðsluákvæðin verði numin úr lögum, en hins vegar tekið upp á nýjan leik umboðssölukerfi í búvöruframleiðslunni eins og nauðsynlegt er að gera í hverri þeirri framleiðslu sem keppir á frjálsum markaði.
    Ég held að menn geti ekki neitað því að reynslan hefur sýnt að lambakjötið hefur verið svolítið til hliðar í markaðssókninni hér á undanförnum árum vegna þeirra flóknu reglna sem gilda um framleiðslu, verðlagingu og sölu á dilkakjöti. Þetta mál er auðvitað viðkvæmt og að sumu leyti byggðalegs eða félagslegs eðlis, hvernig sem maður skilgreinir það. En um leið og tími vinnst til verður unnið að því í samráði við bæði sláturleyfishafa og samtök bænda og raunar líka hverja þá aðra sem þessi mál varðar að undirbúa breytingu á sölu- og vinnslukerfi landbúnaðarvara, með það fyrir augum að draga úr heildsölu- og vinnslukostnaði og standa við fyrirheitið um lækkun búvara með öðrum hætti en þeim að bændur verði að taka á sig tvöfalda byrði vegna þess að nauðsynlegri hagræðingu verður ekki komið við í öðrum greinum landbúnaðarins.
    Efnisatriði búvörusamningsins hafa að sjálfsögðu verið kynnt og lögð fram í sambandi við GATT-viðræðurnar. Ég skal ekki um það segja og er ókunnugt um það hvort samningurinn hefur verið þýddur frá orði til orðs, enda sé ég ekki að það hafi neina hernaðarlega þýðingu. Á hinn bóginn liggja fyrir upplýsingar um það með hvaða hætti framleiðslustjórnunin er hér á landi og hefur jafnframt verið skýrt að samkvæmt búvörusamningi höfum við Íslendingar ákveðið að leggja útflutningsbætur niður frá næsta hausti og fólst beinlínis í samþykkt ríkisstjórnarinnar að við ætluðum okkur annan og meiri rétt af þeim sökum til þess að hafa áhrif á það með hvaða hætti innflutningi búvara yrði háttað, eins og hv. þingmönnum er kunnugt.
    Loks hefur verið spurt um það hvernig á því standi að 3. mgr. d-liðar 6. gr. sé ekki í samræmi við búvörusamninginn og samkvæmt frumvarpinu lagt á vald landbrh. að takmarka eða stöðva aðilaskipti að greiðslumarki ef talið er að þau stríði gegn æskilegum landnýtingarsjónarmiðum, en það vald ekki að öllu leyti lagt í hendur Landgræðslunni. Ég hef talið að það sé eðlilegra að hafa ákvæðið eins og það er í frv. Ég er á hinn bóginn síður en svo á móti því að það sé athugað nánar hvort rétt sé að viðkomandi bændur eigi málskotsrétt til ráðherra ef þeir eru óánægðir með úrskurð Landgræðslunnar um þetta atriði og hef síður en svo á móti því að landbn. athugi þetta orðalag sérstaklega og hvort skipan þessara mála fari betur með öðrum hætti. Hér er einungis um stjórnskipulegt atriði að ræða sem nauðsynlegt er að vanda sem best til. Ef endurskoðun á þessu ákvæði leiðir í ljós að heppilegra þykir að hafa það með öðrum hætti þá hef ég síður en svo neitt við það að athuga.
    Hið sama á raunar við um það í sambandi við úrskurðarnefndina, hvort einn skuli tilnefndur af

Hæstarétti Íslands eða sú leið farin sem gert var ráð fyrir í búvörusamningi. Satt að segja hafði það farið fram hjá mér að þessi breyting var gerð í frv. frá búvörusamningi en á hinn bóginn var farið mjög nákvæmlega yfir hin lagatæknilegu atriði og ég geri ráð fyrir því að þessi hafi verið niðurstaðan af þeim sökum hjá þeim lögfræðingum sem fóru yfir frv. Hér er auðvitað ekki um pólitíska ákvörðun að ræða heldur eingöngu lagatæknilega og síður en svo hef ég neitt á móti því að yfir það sé farið.
    Í sambandi við fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf. um það hvernig skerðingarákvæðinu verði beitt í sambandi við dilkakjötið, 20% skerðingarákvæðinu, þá hefur það verið ákveðið að nýta ekki innlausnarréttinn þegar svo stendur á að viðkomandi bú er að 70% sauðfjárbú. Á hinn bóginn er ekki farið eftir landsvæðum enda sé ég ekki að rök standi til þess.
    Það er auðvitað álitamál hvernig rétt sé að standa að stuðningsaðgerðum og skipulagi landbúnaðarins út frá byggðasjónarmiðum. Það er hægt að fara mismunandi leiðir í þeim efnum og veltur auðvitað á miklu nú hvernig viðbrögð verða við búvörusamningnum, hin sjálfráðu viðbrögð, hvernig bændur bregðast við þeim breyttu kringumstæðum og forsendum sem búvörusamningurinn hefur í för með sér og ýmislegt annað kemur inn í þetta dæmi. Um þetta er fjallað nokkuð í a-lið 6. gr. Auðvitað verður þetta haft til hliðsjónar og ég vil vekja sérstaka athygli á því að í sambandi við t.d. GATT-samningana er gert ráð fyrir því að almennar aðgerðir séu heimilaðar einmitt af þeim sökum.
    Þessi búvörusamningur verður síðan til heildarendurskoðunar áfram um leið og þættir mjólkurframleiðslunnar verða teknir til greina. Þá hljóta þessi mál að koma til stöðugrar endurskoðunar og má vera að okkar sjónarmið breytist mjög hratt eftir því hver framvindan verður.