Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:44:00 (3341)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það var einu sinni þingmaður hér á Alþingi sem varð frægur meðal þjóðarinnar fyrir það að hann sagði þegar hann hélt fram röngum málstað: Lygi er lygi þó hún sé ljósmynd. Það má með nokkru sanni heimfæra það yfir á þá sem fullyrða að gjaldtakan í heilbrigðisþjónustunni sé atlaga að öldruðum, sjúkum og barnafólki þó svo að það sé staðreynd að almenna gjaldtakan í heilbrigðisþjónustunni gagnvart aldraða fólkinu lækkaði í flestum tilvikum og í sumum tilvikum um allt að 50%. Þó það sé staðreynd að heildarkostnaður mikið veiks fólks sem þarf oft á læknishjálp að halda, hámarksgjöldin voru ekki hækkuð, þrátt fyrir gjaldtökuna. Þau eru 3.000 kr. fyrir aldraða og 12.000 kr. fyrir aðra og eru þau sömu og þau hafa verið á árinu 1991. Og jafnvel þó við höfum sameinað öll börn sömu fjölskyldu undir eitt kostnaðarþak, 12.000 kr., sem hvert og eitt barn þurfti áður að greiða þá er því samt haldið fram að þessi framkvæmd sé árás á mikið veika, á elli- og örorkulífeyrisþega og á barnafólk. Og ég verð bara að segja og taka mér aftur í munn þau orð Sveins í Firði, sem frægur varð fyrir þau, að hv. stjórnarandstaða gæti sagt eins og hann: Lygi er lygi þó hún sé ljósmynd.