Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:43:00 (3387)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það atriði að einn tali frá hverjum þingflokki og svo sé umræðu haldið áfram er út af fyrir sig hlutur sem 72. gr. heimilar ef rökrétt er hugsað vegna þess að það brýtur enga jafnræðisreglu. Hitt atriðið að ætla að fara að breyta samráði í samninga um að svipta menn málfrelsi gengur einfaldlega ekki upp og breytir engu, breytir nákvæmlega engu þó að hv. 5. þm. Vestf. telji að það geti verið hagkvæmt. Þetta er ekki spurning um neina hagkvæmni. Þetta er spurning um grunnmannréttindi þingmanna, hvorki meira né minna. Það er hlutað um sæti með virðulegum hætti og menn fá ekki að ryðjast hér í stóla eins og þeim sýnist og velja sér sessunauta, heldur skulu þingmenn vera jafnir. Og það er alveg á hreinu að þingsköpin eru ekkert hagræðingartæki. Þau eru sáttmáli sem fara verður eftir.
    Ég vil aftur á móti þakka hæstv. forseta fyrir það að, þegar ég hafði lokið minni ræðu áðan, þá rís forseti á fætur og gerir grein fyrir því til hvaða greinar forseti vill vitna. Það auðveldar mjög alla vitsmunalega umræðu um málið til að átta sig á því hvar menn telja að umræddar heimildir sé að finna. En það er ekkert í 72. gr. sem heimilar að breyta ákvæðum þingskapanna á þann veg. Það eru aðeins tvær tegundir af utandagskrárumræðu, þ.e. hálftíma umræða og ótakmörkuð. Og ég vil bæta því við að forseti hefur aftur á móti fullar heimildir til að segja við hæstv. heilbrrh. að hann gegni þingskyldu hér í dag og sé í þessu húsi hvað sem öllum hugmyndum hans um fundafrelsi og fundi annars staðar úti í bæ líður. Það er nefnilega orðin dálítið merkileg skrautsýning, svo að ekki sé meira sagt, ef umræður um lánasjóðinn eiga að vera á þann hátt að Alþfl. tali í útvarpinu en Sjálfstfl. í þingsölum.