Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 16:06:00 (3427)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. forsrh. seilast æðilangt til að rökstyðja för sína til ríkis sem stendur í mjög illvígum deilum á þessari stundu við yfirbugaða þjóð og beitir hana allri þeirri harðneskju sem unnt er að nefna. Þegar ég fór í heimsókn til Kína þá höfðu Kínverjar breytt sinni stefnu og voru að opna sitt land og fengu viðurkenningu frá öllum lýðræðisríkjum af þeirri ástæðu. Ég veit að hæstv. forsrh. veit það. Og ferðir til Sovétríkjanna voru allt annars eðlis. Geir Hallgrímsson heitinn fór líka til Sovétríkjanna í opinbera heimsókn. Sovétríkin voru stórveldi og voru þá í samningum við Bandaríkin, m.a. um að draga úr þeirri ásælni sem þau höfðu sýnt með sínum hernaðarmætti og það var vitanlega sjálfsagt að

reyna að styðja það og stuðla að því eins og lítil smáþjóð getur gert. En hæstv. forsrh. svaraði engum af þeim spurningum hvort hann mundi krefja t.d. forsætisráðherra Ísraels um það að hann virti sjálfsákvörðunarrétt hinnar palestínsku þjóðar. Ef hann færi í slíkum erindum þá væri kannski eitthvað hægt að segja um þetta jákvætt.