Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 17:31:00 (3570)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að mér þykja þau tíðindi, sem hæstv. sjútvrh. flutti áðan, mjög alvarleg. Hann er í raun að segja það, með þeim tölum sem hann nefndi, að aðstæður í sjávarútvegi séu eitthvað svipaðar og þær voru þegar hann fór frá sem forsrh. hér síðast. En í því sambandi sagði hann reyndar í haust að það hefði verið vegna þess að Framsfl. hefði ekki getað fallist á þá gengislækkun sem hefði verið nauðsynleg til að laga til fyrir sjávarútveginn. Og kannski eru það þessar raunhæfu aðgerðir sem hann nefndi áðan, þ.e. að breyta genginu til þess að lagfæra þá grundvallarskekkju sem hann talaði um í hagkerfinu og væri ástæðan fyrir því að ekki hefði verið hægt að reka þessa atvinnuvegi okkar á undanförnum árum.
    Ég tel að full ástæða sé til að líta þau tíðindi mjög alvarlegum augum sem hæstv. sjútvrh. var hér að flytja og ég vara við því ef Alþingi Íslendinga fær ekki að fjalla um þau mál eðlilega og að þau fá ekki þá umræðu sem þau þurfa hér í þinginu vegna þess að ef að taka þarf á málunum með afdrifaríkum hætti, sem tölurnar virðast benda til, þarf um það samstöðu í þjóðfélaginu. Þessi ríkisstjórn getur ekki vaðið fram með einhverjar stórkostlegar breytingar á hagkerfinu til þess að rétta við hag sjávarútvegsins nema í samráði við þjóðina og atvinnuvegina í landinu.
    Ég tel mikla ástæðu til að efna til þeirrar umræðu sem hér fer fram en því miður er sá tími sem til hennar er ætlaður allt of stuttur. Mér finnst reyndar fráleitt að efna til tveggja tíma umræðu um atvinnumál eins og hér er gert. Hér hefði átt að vera ótakmarkaður tími, þ.e. tíminn hefði átt að takmarkast eingöngu af þeim reglum sem eru í þingsköpum um lengri umræður utan dagskrár.
    Mig langar í upphafi að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi ekki stundum litið á sjónvarp undanfarið og séð þar myndir af brosandi og hamingjusömum Íslendingum sem vitnuðu um góðan arð af gullbókinni sinni, metbókinni eða skiptikjarareikningnum eða hvað aðrir sparikostir fjármagnseigenda, sem nú er boðið upp á, heita. Það virðist vera nýjasta eftirlætisíþrótt okkar Íslendinga að ávaxta fé hraðar en þekkist í öðrum löndum og ekki er lengur með í umræðunni að allir ættu að leggja vinnuframlag sitt af mörkum og hljóta í staðinn hlutdeild í arðinum af atvinnuvegum þjóðarinnar. Nú eru nýir tímar. Gróðinn leitar þangað sem hann margfaldast hraðast og hann á að stjórna þróuninni. Það eru engin takmörk fyrir því hver gróðinn má vera. Lögmálið um framboð og eftirspurn á að ráða í heimi fésýslunnar. Þar eiga ekki að gilda siðareglur almennra viðskipta eins og þær að það sé okur ef einhver leggur miklu hærra á en annar eða tekur til sín óeðlilega hátt endurgjald fyrir það sem hann leggur af mörkum. Það eru hinar vinnandi hendur í þjóðfélaginu sem skapa auðinn og þær verða að bera uppi þenna okurgróða sem verður til á fjármagnsmarkaði um þessar mundir. Þau atvinnutækifæri sem við höfum haft undanfarin ár hafa mörg hver ekki staðist þessar gróðakröfur sem nú eru uppi fyrir fjármagnið. Í þessum nýju kröfum til atvinnulífsins er að finna eina aðalskýringuna á því að atvinna minnkar ár frá ári. En skýringarnar eru reyndar fleiri. Þjóðfélagið hefur smám saman verið að opnast meir og meir fyrir erlendri samkeppni og þá án tillits til þess hvort viðkomandi starfsemi er niðurgreidd eða styrkt af þeim stjórnvöldum sem hlut eiga að máli.
    EFTA-aðildin hefur kostað okkur mörg atvinnutækifæri. Hið Evrópska efnahagssvæði mun gera að líka. Leikreglurnar eru einfaldar. Finnist einhver hlutur ódýrari á viðskiptasvæðinu en sá sem framleiddur er hér mun okkar framleiðsla verða undir. Smæð þjóðarinnar mun koma okkur í koll. Fyrirtæki okkar eru of lítil til að ná tökum á hinum stóru mörkuðum. Húsgagnaiðnaðurinn hrundi við EFTA-aðildina. Fataiðnaðurinn heyrir nánast sögunni til. Skipasmíðaiðnaðurinn hefur verið látinn deyja út og hin stórfurðulega ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem ætlaði að setja af stað mestu ( Gripið fram í: Hvar er iðnrh.?) þensluframkvæmdir allra tíma, þ.e. byggingu álvers, skipti yfir í mestu samdráttaraðgerðir sem sést hafa. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni tilburði til að liðka fyrir samningum um kaup og kjör. Hún hefur enga viðleitni sýnt til að auka atvinnu. Þvert á móti hefur hún með sinni dauðu hönd aukið á atvinnuleysið í landinu. Það er enginn vafi á því að því meir sem landið verður opnað í viðskiptalegu tilliti því öflugri þurfa uppsprettur nýjunga og nýsköpunar að vera í atvinnulífinu. Þessi dæmalausa ríkisstjórn vill tengja okkur við alla Evrópu í markaðslegu tilliti án þess að hún sýni nein merki um að hún ætli að gera átak sem miðar að því að gera atvinnulífið í landinu fært um að standa sig í þeirri samkeppni. Ég segi þetta þrátt fyrir orð hæstv. iðnrh. áðan. Það var upptalning á góðum áformum, sumum hverjum, en allt of lítið og allt of seint því ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin ætli sér að koma áhugamálum sínum í framkvæmd mjög bráðlega.
    Aðrir alvarlegir hlutir eru að gerast sem tengjast undirstöðuatvinnuvegum okkar. Svo ég taki sem dæmi hefur flutningur á óunnum fiski sífellt verið að aukast t.d. af Vesturlandi á höfuðborgarsvæðið eða beint í útflutning. Þannig er þetta líka annars staðar á landinu. Hin hefðbundna fiskvinnsla, frysting og söltun innan lands hefur verið að tapa samkeppninni við aðra kosti, t.d. fiskmarkaði erlendis sem geta keypt óunninn fisk tollfrjálsan en útflytjendur okkar verða að borga tolla ef tekið er svo mikið sem hausinn af þeim fiski sem fluttur er út. Þá hefur nýr útflutningur á fiski á háu verði með flugi komið til sögunnar og síðast en ekki síst er nú komið í ljós að útgerð á ísfiskstogara og vinnsla á þeim afla í hefðbundnum frystihúsum allt í kringum landið stenst engan veginn samkeppni við afla sem unninn er ferskur úti á sjó. Við öllu þessu þarf að bregðast með margvíslegum hætti.
    Við alþýðubandalagsmenn lögðum fram tillögu í haust um gæðamál og sölumeðferð á ferskum fiski og aðra tillögu um ráðstafanir í sjávarútvegi. Þær tillögur hafa auðvitað strandað í þinginu eins og aðrar tillögur stjórnarandstöðunnar sem komast yfirleitt ekki til umræðu. Ekki er hægt að ræða okkar úrræði en þó er sannarlega ástæða til að spyrja ríkisstjórnina hvað hún hyggist fyrir í atvinnumálum og hvort ekki sé farið að örla á spurningarmerkjum hjá henni um þá samdráttarstefnu sem ofan á erfiðar aðstæður er að mynda neyðarástand í atvinnumálum. Hér dugar auðvitað ekkert minna en ný stefna í atvinnu- og kjaramálum. Reyndar er það umhugsunarvert að hin almenna afstaða ríkisstjórna á undanförnum árum, að hlutverk ríkisstjórna sé að sjá til þess að fólkið í landinu hafi tækifæri til þess að taka þátt í atvinnulífinu, virðist hafa hopað fyrir átrúnaði á leiðsögn fjármagnsins. Ástæða er til að vara við þeim annaðhvort ótrúlega sofandahætti ríkisstjórnarflokkanna eða því sem verra er og ég nefndi áðan, að menn trúi því að ekki þurfi og ekki eigi að koma til afskipti stjórnvalda í því skyni að hafa áhrif á þróun atvinnumála í landinu. Alla vega er ótrúlegt að á sama tíma og við horfum upp á atvinnuleysistölur hækka stöðugt séu ekki uppi neinir tilburðir stjórnvalda til að hamla á móti. Mesta áhugamál stjórnarflokkanna virðist vera að koma okkur inn í samstarf, þ.e. hið Evrópska efnahagssvæði, sem á að vera aðgöngumiði inn í 21. öldina eða þannig hafa menn reynt að vekja vonir um að við munum uppskera í atvinnulegu tilliti vegna EES-samninganna. Á meðan hrannast hættumerkin upp, hættumerki sem segja okkur að margir þættir í atvinnulífi okkar standist ekki samkeppni í opnu og hindrunarlausu viðskiptaumhverfi.
    Augljóst virðist að ný atvinnutækifæri munu eiga erfitt uppdráttar, nema kannski í sjávarútvegi, eftir að EES-samningarnir koma til ef þeir verða þá að veruleika. Ljóst er reyndar að mikil hætta er á að við töpum einhverjum af þeim atvinnutækifærum sem við nú höfum. Menn verða að gera sér grein fyrir að í því starfsumhverfi sem hér er komið á og er að myndast þarf miklu öflugra starf til nýsköpunar en iðnrh. hefur verið að lýsa fyrir okkur.
    Ríkisstjórnin eða stjórnvöld geta ekki verið stikkfrí. ,,Kemur-mér-ekki-við``-stefnan gengur ekki. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki sýna nein merki þess að þeir séu að rakna úr rotinu. Forustumennirir hljóta að hafa fengið högg á höfuðið, eins og einn hv. þm.

komst að orði í haust. Það bólar alla vega ekki á neinum aðgerðum til að styðja atvinnulífið í landinu. Við horfum á erlend fyrirtæki flytja atvinnuna úr landi í óunnum hráefnum. Við horfum á atvinnutækifærin skreppa saman og flytjast út á sjó í frystiskipin og horfum á skipaiðnaðinn sigla til annarra landa. Við horfum á atvinnutækifæri í húsgagnaiðnaði, fataiðnaði, fiskeldi og loðdýrarækt hverfa. Við sjáum að reynsla síðustu ára hefur kennt þeim, sem annars hefðu hugsanlega haft frumkvæði til nýsköpunar, að láta vera að taka áhættu fyrir sig og fjölskyldu sína í þeim efnum. Þetta er greinileg þróun og því miður ástæða til svartsýni. Í stað þess að takast á við hin stóru vandamál atvinnulífsins eykur ríkisstjórnin á vandann með samdráttaraðgerðum. Það bólar ekkert á stefnu hennar í kjara- og atvinnumálum og hún hefur sett málefni sjávarútvegsins í nefnd. En hún veit hver á að borga pillurnar og skólagjöldin.