Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:36:00 (3599)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Af ummælum hæstv. menntmrh. og aðstoðarmanns hans undanfarið mætti ætla að þeir telji það brýnasta verkefnið að fara í stríð við kennara í landinu og þá alveg sérstaklega grunnskólakennara. Ráðherra fullyrðir að kennarar segi nemendum ósatt. Hann segir að þeir beri ábyrgð á því að eggjum sé kastað í sig. Hann heldur því fram og ítrekar það hér að kennslutímar séu notaðir til að ófrægja ríkisstjórnina og sig persónulega. Hann segist hafa dæmi um slíkt. Ég á ákaflega erfitt með að trúa þessari staðhæfingu en ef það er satt, þá á auðvitað að taka á slíkum málum. Það er ekki hægt að kennarar þurfi að liggja undir slíkum dylgjum. Og það er ekki bjóðandi ráðherra að koma fram opinberlega með slíkar dylgjur. Meðan ráðherrann dregur ekki ummæli sín til baka og nefnir dæmi um dylgjur, þá verður auðvitað að líta svo á að þessar ásakanir séu ómerkar. Ég get ekki fallist á þær skýringar sem hér koma. Það er enginn að fara fram á það að hann nefni dæmi hér úr þessum ræðustól, en hann hlýtur að þurfa að taka á þessu máli. Annars eru þessar ásakanir ómerkar, ég endurtek það.
    Aðstoðarmaður ráðherrans telur að kennarar svíkist undan vinnu vegna þess að skólahald sé ekki allt árið um kring og opinberar vanþekkingu sína á störfum kennara með því móti sem vinna af sér sumarmánuðina með lengri vinnuviku yfir veturinn og veitti ekki af að hann færi í kennslustund um skólamál, sá ráðherrasveinn.
    Ég harma að yfirmaður menntamála skuli standa fremstur í flokki í að atyrða kennarastéttina. Ummæli hans síðustu daga bæta gráu ofan á svart eftir þann mikla niðurskurð sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir gagnvart skólunum sem bitnar umfram allt á börnum landsins.