Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:50:00 (3604)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blanda sér í þessa umræðu hér en ég gat þó ekki á mér setið, kannski ekki síst vegna þess að ég þekki grunnskólann nokkuð vel af eigin raun, á þar börn og veit ekki til þess, ef ég tek bara dæmi af sjálfri mér, að um þessi mál hafi verið rætt hvað mín börn varðar a.m.k. í grunnskólum Reykjavíkur. Við sem þekkjum börn vitum það að börn hafa ekki sömu hömlur á sér og fullorðnir. Tilfinningar þeirra eru ákafari heldur en hinna sem fullorðnir eru og réttlætiskennd þeirra er einarðari heldur en hinna fullorðnu. Börn bregðast harðar við atburðum sem upp á koma.
    Ég held því að eggjakastið á Lækjartorgi sé því miður, og ég verð auðvitað að segja því miður, nokkuð góður mælikvarði á þá miklu óánægju sem er í þessu samfélagi. Börnin finna þessa kraumandi óánægju og bragð er að þá barnið finnur, hæstv. ráðherra. Börnin vilja vera með, unglingarnir, þau vilja vera með, þau vilja gera sig gildandi, þau vilja taka þátt. Þeim finnst líka nærri sér vegið í þeim niðurskurðaráformum sem fyrir liggja og þau vilja vera virkir þátttakendur í samfélagi hinna fullorðnu og mótmæla líka. Það er ekkert óeðlilegt við það. Börnin hafa sjálf myndað sér þessa skoðun. Þau hafa sjálf komist að þessari niðurstöðu. Það þarf ekki kennara til þess að innræta þetta. Börn eiga foreldra og þau heyra foreldra sína tala um það sem er að gerast í samfélaginu og þau mynda sér skoðun þegar þau hlusta á þetta. Börn horfa líka á fjölmiðla og þau móta sér skoðun af lestri blaða og af því að hlusta og horfa á fjölmiðla. Ég get nefnt ykkur dæmi um einn sex ára pottorm sem ég heyrði af um daginn sem hafði spurt hvort til stæði að gera Landakot að öldrunarspítala. Og þegar hann fékk svarið já, þá sagðist hann ætla að lemja þessa menn. Þessi drengur hafði ekkert heyrt talað um málið, hann hafði bara fylgst með fjölmiðlunum. Hann er auðvitað ekki nema sex ára og það má auðvitað draga í efa réttmæti þessarar ályktunar hans. En hin eru eldri og geta myndað sér skoðun.
    Ég verð að segja það að mér finnst viðbrögð hæstv. ráðherra og ákveðins skólastjórnanda hér á höfuðborgarsvæðinu mjög röng í því sem gerðist þarna. Þau voru mjög röng og ekki síst út frá sjónarhóli ráðherrans og þeirra hagsmuna og þeirra sjónarmiða sem hann stendur fyrir vegna þess að ég held að með þessu hafi í rauninni verið kynt enn frekar undir réttlætiskennd þessara krakka, kynt enn frekar undir róttækum hugsjónum þessara krakka sem eiga eftir að fara í framhaldsskólann og við vitum ekki nema þetta verði öflugur stokkur róttækra unglinga þá.

    Mig langar aðeins til að segja eitt, ég held að þetta mál komi ráðherra í koll, þessi hörðu viðbrögð. Ég ætla að nefna það að á Rás 2 í gær, held ég að það hafi verið, var verið að tala við auglýsingamenn og spyrja um hvaða ráðherra hefði lakasta ímynd um þessar stundir. Þeir vildu ekki svara því, en annar þeirra sagði: Ef ég segi það þá verður Ríkisútvarpinu lokað.