Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:38:00 (3621)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fsp. Ástæða er til að vekja athygli á þessu máli sem reyndar liggur fyrir í þinginu í frumvarpsformi. Ég held að menn þurfi að gera sér fulla grein fyrir því að í fyrsta lagi var málið upphaflega kynnt sem breyting yfir í hlutafélag og það eigi að vera fyrst og fremst í því skyni að auka skilvirkni í stjórn fyrirtækisins og annað því um líkt sem hér hefur verið lýst. Þegar var verið að fá stuðning við þessar fyrirætlanir hjá þessum aðilum, t.d. á Akranesi og reyndar fleirum, var þetta kynnt þannig að ekki stæði til að selja fyrirtækið. Nú er orðin yfirlýst stefna þeirra stjórnvalda sem eru við völd að selja hlut í fyrirtækinu og þá verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir því að þetta er einokunarfyrirtæki. Menn verða að gera sér grein fyrir öðru líka og það er að um leið og fyrsta hlutabréf verður selt í fyrirtækinu er kominn nýr útgjaldapóstur inn í rekstur fyrirtækisins sem felst í því að auðvitað verður að borga þeim arð sem kaupa hlutafé í fyrirtækinu. Ekki er hægt að bjóða á almennum markaði til sölu hlutabréf öðruvísi en að þeir sem eiga kost á þeim kaupum viti fyrir fram að þeir eigi að fá arð af fé sínu.