Nýr langbylgjusendir

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:57:00 (3672)

     Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Rétt ár er nú síðan fárviðrið skall á sem felldi langbylgjumastrið á Vatnsenda. Í utandagskrárumræðum sem ég stóð þá fyrir á Alþingi tók ráðherra til máls og lagði mikla áherslu á að full ástæða væri til að flýta eins og kostur væri uppbyggingu þessarar þjónustu. Ljóst er að með falli mastursins á Vatnsenda hefur öll þjónusta Ríkisútvarpsins snarversnað, ekki aðeins í almennri þjónustu við landsmenn heldur ekki síður í þjónustu við bátaflotann, er lýtur að veðurfréttum og öllum tilkynningum þar að lútandi. Það er þar sem mest reynir á og vandinn er mestur. Raunar er ekki boðlegt að á stórum hluta landsins skuli ekki vera hægt að ná útsendingum Ríkisútvarpsins sem á að vera hinn sameiginlegi tengifjölmiðill allra landsmanna í þeirri þjónustu sem við eigum sameiginlega og ekki er ágreiningur um. Öryggisþátturinn vegur þyngst í þessu, bátaflotinn. Og mikilvægt er að flýta sem kostur er þeirri vinnu að þarna sé hægt að rétta við.
    Það á að gera Ríkisútvarpinu kleift að ná til allra
landsmanna og miðanna í kringum landið. Tillögur um að byggja 500 kw. langbylgjusendi liggja fyrir. Sá gamli var 100 kw. þannig að styrkaukningin er mjög mikil og skiptir máli. Jafnframt er niðurstaða nefndarinnar, sem ráðherra gat um, að hafa áfram samspil FM-og langbylgju og að endurnýja sendinn á Eiðum. Þetta er dýr framkvæmd en með því að tryggja þær tekjur sem Ríkisútvarpinu eru ætlaðar væri unnt að gera þetta á skynsamlegan hátt og tryggja þar með hið mikilvæga þjónustuhlutverk.
    Ástæða er til að vekja athygli á að dreifikerfi Ríkisútvarpsins stendur höllum fæti. Þeir sendar sem nú eru á landinu og snerta FM-sendingar, örbylgjur, eru alls um 300 talsins. Þeir hafa verið endurnýjaðir og haldið við í lágmarki um árabil og á því sviði stefnir í raun og veru einnig í hrun sem getur dunið yfir nákvæmlega eins og gerðist með langbylgjusendinn á Vatnsenda. Gott er að heyra að sameiginlegt álit hæstv. ráðherra samgöngu- og menntamála er að taka nú þegar upp viðræður um hugsanlega nýtingu mannvirkja á Gufuskálum sem ætlað er að starfrækja til 1994. Ég held að jafnframt megi segja að mjög mikilvægt sé að setja þar tímamörk vegna þess að afgreiðslufrestur á langbylgjusendibúnaði er 12--18 mánuðir. Samkvæmt þeirri skýrslu sem hæstv. menntmrh. vitnaði í er ljóst að verði ekkert að gert mun miðbylgjustöðin á Höfn í Hornafirði loka á næsta ári. Langbylgjustöðin á Eiðum lokar eftir 1--2 ár og langbylgjustöðin á Vatnsenda lokar eftir 5--7 ár. Það tekur eitt og hálft til tvö ár að fá þau tæki sem þarf og reikna þarf með þeim tíma. Þess vegna er mikil ástæða til þess að ljúka öllum undirbúningi ekki seinna en fyrir haustið. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu vegna þess að tími hans er búinn og rúmlega það.) Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Málið er mjög mikilvægt og það undirstrikast kannski af því að það hefur tekið heldur meiri tíma en ætlast var til.