Viðskiptahættir í tengslum við gjaldþrot einstaklinga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:03:00 (3673)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrri fsp. mín er til hæstv. dómsmrh. Þegar litið er í dagblöðin blasa oft við langir dálkar af auglýsingum um uppboð fasteigna. Um síðustu helgi taldi ég 100 slíkar auglýsingar í Dagblaðinu/Vísi. Bak við hverja auglýsingu býr löng saga rangra áætlana, brostnar vonir, erfiðleikar og þjáningar. Sem betur fer fara ekki allar þær fasteignir á uppboð sem auglýstar eru en þegar komið er fram í þriðju auglýsingu blasir uppboðið eitt við. Allar aðrar leiðir eru lokaðar. Sú saga og þær raunir sem að baki þessum litlu formlegu auglýsingum leynast eru oft hörmulegar. Stundum hafa lánveitendur eða lánseljendur komið við sögu sem virðast aðeins hafa gengið það eitt til með lánafyrirgreiðslum sínum að ná taki á lánþegum og möguleika á að sölsa undir sig eignina þegar í gjaldþrot og uppboð er komið.
    G-samtökin, samtök gjaldþrota fólks, geta frætt okkur um ýmis dæmi þessa. Raunar rekumst við stundum sjálf á þetta í kringum okkur. Oft býður öllu venjulegu fólki við aðferðum hrægammanna sem koma og þykjast í fyrstu vera bjargvættir og lánendur en spyrna síðan lántakandanum, sem í ógöngur er kominn, út yfir gjaldþrotsbrúnina.
    Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig með slíkum málum er fylgst og hvernig á þeim er tekið ef þau komast upp og vænti svara þó um sé að ræða hinn svonefnda gráa fjármagnsmarkað þar sem leikið er innan marka eða á mörkum hins löglega en áreiðanlega langt utan við mörk hins siðlega. Ég spyr einnig hversu mörg slík mál hafi komið til kasta dómstóla að undanförnu.