Staða táknmálstúlkunar

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:19:00 (3679)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Guðrúnar J. Halldórsdóttur fyrir að hafa borið fram þessa fsp. Ég vil aðeins leyfa mér að bera fram þá viðbótarfyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvort unnið sé að þeim rannsóknum á táknmálinu sem hann og ráðuneytið telur að séu óhjákvæmilegar til þess að unnt verði að viðurkenna táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra. Ég tel að það sé í raun og veru óhjákvæmilegt að fram fari rannsóknir á þessu viðfangsefni, ítarlegar rannsóknir og þær verði auðvitað best unnar með því að þróa táknmálið í samvinnu við málvísindastofnun Háskólans. Ég tel að það væri ómaksins vert að það yrði rætt hér á hv. Alþingi með hvaða hætti væri skynsamlegast að standa að því táknmálið væri viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra.