Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:40:00 (3692)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég vil leggja örfá orð inn í þessa umræðu um till. til þál. um eflingu ferðaþjónustu sem þrír félagar mínir í þingflokki Framsfl. flytja undir forustu Jóns Helgasonar. Þessi tillaga er tímabær þótt hún sé vissulega ekki sú fyrsta sem flutt hefur verið hér í hv. Alþingi um ferðamál. Þær hafa nefnilega verið nokkuð margar á undanförnum árum. En því miður er það svo að það er kannski meira talað í þessum málaflokki heldur en framkvæmt er til að létta undir með þeim sem eru með ferðaþjónustu. Það er talað um það á góðum stundum, og ég er þá ekkert að deila frekar á núverandi stjórnvöld í því en fyrrverandi, að ferðaþjónusta sé vaxtarbroddur í atvinnulífinu. Hún er það vissulega. Það þarf ekkert um það að deila. Hún er það mikill vaxtarbroddur og toppurinn í ferðaþjónustunni er einmitt á mjög góðum tíma fyrir okkur. Toppurinn í ferðaþjónustunni kemur á þeim tíma sem mikið vinnuafl kemur inn á vinnumarkaðinn. Það væri ábyggilega öðruvísi um að litast á vinnumarkaðnum yfir sumarið ef ferðaþjóustunnar nyti ekki við því það er drjúgur starfskraftur sem hún tekur. En hana þarf vissulega að skipuleggja. Og það þarf að nýta þau mannvirki sem fyrir hendi eru vegna þess hve þessi tími er stuttur, ég tek alveg undir það með hv. 17. þm. Reykv. að auðvitað þarf að lengja hann en það er ekkert auðvelt viðfangs, en það er verkefni sem við þurfum að vinna að.
    Það er víða pottur brotinn í ferðaþjónustu. Þeim mannvirkjum, sem við erum að bjóða ferðamönnum inn í á sumrin, skólum og öðrum, verður að halda við, gera þau aðlaðandi fyrir ferðafólk og ekki síst að ferðafólk hafi fjölbreytta afþreyingu þegar það kemur hingað. Við höfum treyst mjög á landið í þeim efnum en við þurfum að sjálfsögðu að gera fleira. En það sem rak mig í þessa umræðu er sú staðreynd að fólk hefur mikinn áhuga fyrir þessum atvinnuvegi. Í öllum landshlutum er mikill áhugi fyrir að gera átak í þessum efnum, efla leiðbeiningaþjónustu, efla alls konar leiðbeiningastarfsemi í þessu. Fólk hefur stofnað með sér samtök, Ferðamálasamtök landshlutanna og víða er unnið mjög gott starf en það gengur bara ekki neitt að koma þessum samtökum á fjárhagslegan grundvöll, satt að segja. Ég veit að félagar mínir í fjárln. geta vitnað um það að ég bar fram fyrirspurnir um það trekk í trekk á ótal fundum við fjárlagagerðina hvernig þessum málum yrði fyrir komið á næstunni. Ég fékk engin svör og hef ekki fengið enn þá hvernig eigi að efla þessi samtök eða koma þeim á grundvöll eða hvort þau eiga að njóta einhvers tilstyrks fjárhagslega, annaðhvort frá því opinbera eða frá þeim sjóðum sem sinna þessum málum og hafa gert á undanförnum árum eins og hv. ræðumaður sagði.
    Þetta vildi ég ítreka við umræðuna vegna þess að það er svo sárgrætilegt að þetta ágæta fólk, sem við þetta vinnur og hefur mikinn áhuga að gera góða hluti, efla þessa starfsemi, efla leiðbeiningarstarfsemi í því að taka á móti ferðamönnum og koma upp einhverri afþreyingu fyrir þá, fær ekki jafnmikinn hljómgrunn og skyldi. Vonandi verður þetta tekið til umræðu í hv. samgn. þegar þessi till. kemur þangað. Því það er sannarlega þörf á að ræða þessi mál og efla frumkvæði þeirra úti um allt land sem vilja vinna að þessu. Við getum ekki endalaust treyst á það að beita ferðamönnum á íslenska náttúru þótt þar séu miklir möguleikar í þeim efnum. Ferðafólk kemur líka til þess að, ef nota má svo ljótt orðalag, slappa af, sem er náttúrlega ekkert ljótt, og njóta afþreyingar. ( ÖS: Það mætti setja upp spilavíti). Ég ætla ekki að hafa nein orð um uppástungur hv. formanns þingflokks Alþfl. En sjálfsagt mun hv. samgn. taka þessa ábendingu hans til athugunar. En erindi mitt var fyrst og fremst það að árétta þessi mál og auðvitað að láta í ljós þá von að þessi tillaga fái vandaða meðferð, sem ég efast ekki um, og að hún verði samþykkt. Það er náttúrlega alls ekki nóg að hún verði samþykkt héðan frá hv. Alþingi. Það er aðalatriðið að síðan verði gert eitthvað í framhaldinu. Og framkvæmdin verði raunveruleg. En það vill oft verða með tillögur sem þó hafa hlotið samþykki hér á hv. Alþingi að framkvæmdin verður ekki sem skyldi.