Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 15:26:00 (3698)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær góðu undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið þótt mér sé að sjálfsögðu ljóst eins og hefur komið fram í máli sumra hv. ræðumanna að hún fjallar um mjög afmarkað efni. Það var með vilja gert að reyna að spenna bogann ekki of hátt með tilliti til þeirra aðstæðna sem við búum við. Það var sem sagt til að reyna að ná fram raunhæfum árangri en ekki til að spila einhverja pólitíska keilu eins og mig minnir að hv. 17. þm. Reykv. hafi sagt um þennan tillöguflutning. ( ÖS: Ég nota ekki svona orðbragð.) Ég hygg samt sem áður að það hafi verið eitthvað á þá leið, hv. þm. En svo ég víki kannski fyrst að orðum hans þá er það misskilningur, hv. þm., að ég sé hér að hugsa fyrst og fremst um Ferðaþjónustu bænda. Ferðaþjónusta bænda hefur byggst mjög skipulega og vel upp nú síðustu árin. Uppbyggingin hefur verið markviss og þar þarf að halda áfram að fylgja þeirri stefnu sem þeirra samtök hafa gert að gæta þess að ekki fari of margir af stað til að drepa niður grundvöll fyrir þeim sem byrjaðir eru. Þess hefur verið reynt að gæta og jafnframt að gera þær kröfur að ferðamenn verði ekki fyrir vonbrigðum með þá þjónustu og það hefur tekist mjög vel. Erlendis frá heyrist það t.d. hjá þeim sem sjá þar um ferðakynningu að þeir eru mjög ánægðir með þessa þjónustu m.a. vegna þess að sú starfsemi svarar þeim bréfum sem send eru og veitir upplýsingar. En nóg um það.
    Það sem ég er þarna með í huga er kannski af minni eigin reynslu. Ég veit ekki hvort hv. 17. þm. Reykv. veit að ég er búinn að vera aðili að fyrirtæki í 18 ár við að reyna að byggja upp ferðaþjónustu. Og það á stað sem er sagt af þeim sem skipuleggja ferðir um landið í stórum stíl að ef ekki væri fyrir hendi ferðaþjónusta þar þá mundi það þýða 20--25% samdrátt í ferðaþjónustu í landinu vegna þess hversu mikilvægur hlekkur þetta er. Við búum sem sagt hringinn í kringum landið og hringferðirnar byggjast a.m.k. á því að þarna sé nokkuð skipulagt kerfi uppbyggt. Þetta hefur tekist furðanlega vel nema það sem hér kom fram hjá einum hv. þm., mig minnir 14. þm. Reykv., að við höfum ekki getað tekið á móti öllum þeim gestum sem hafa viljað koma. Þess vegna þurfum við að fá meira rými. Þessi aðstaða hefur fyrst og fremst orðið til þess að hægt er að sinna hópferðunum sem vilja halda áfram hringinn og panta með löngum fyrirvara en hinn venjulegi ferðamaður, sem vill dvelja í héraðinu einhverja daga og njóta þar náttúrunnar, hefur orðið að sitja á hakanum. Þetta finnst mér mjög slæmt. Þetta erum við að reyna að lagfæra núna en róðurinn er því miður þungur.
    Við höfum fengið stuðning bæði frá Framleiðnisjóði og Byggðasjóði af því að þeir höfðu fjármagn og heimildir og vilja til að styðja þessa þjónustu í gegnum það að hluthafar þarna eru að miklum meiri hluta íbúar héraðsins. Þetta er almenningshlutafélag með upp undir 200 hluthafum og út á þá var veittur stuðningur. En Ferðamálasjóður hefur því miður ekki farið inn á þá braut, sem var ákveðin í lögum þegar þau voru endurskoðuð einhvern tíma fyrir 1980, að hann mætti leggja fram áhættufjármagn eða styrki. Hann veitir eingöngu lán sem er aðeins 33% af byggingarkostnaði. Þá þarf einhvers staðar annars staðar að fá það fjármagn sem á vantar, 67%. Og fyrir staði úti á landi er það ekki dregið upp úr vasanum á augnablikinu. Þess vegna höfum við verið að leita eftir fjármagni frá fleirum.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðu í vetur --- mig minnir að það hafi verið fjmrh. frekar en forsrh. --- að nú vonaðist hann til þess að lífeyrissjóðirnir færu að leggja fram fjármagn sem hlutafé í vaxandi mæli. Það hefur því miður ekki tekist enn þá. Þess vegna brennur það á fólki úti um land, því sem vill vinna að þessu og byggja þetta upp, að það fær þarna lítinn stuðning. Segja má að lítil þúfa geti velt þungu hlassi. Það kannski vantar herslumuninn að þessir aðilar ráði við verkefnið sem getur skipt sköpum fyrir ferðaþjónustuna almennt í landinu eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, t.d. þar sem ferjur koma að landi og annað slíkt. Víða eru þessir þröskuldar en það þarf kannski ekki svo mikið til þess að komast yfir þá og það er það sem við flm. höfðum fyrst og fremst í huga með þessari tillögu. Eins og ég sagði verður að reyna að spenna bogann ekki hærra en svo að hann verði viðráðanlegur fyrir hæstv. núv. ríkisstjórn.
    Auðvitað væri hægt að ræða margt fleira í sambandi við ferðamál en það sem hér hefur komið fram en tíminn líður og ég skal ekki fara langt út í það. Þó langar mig að minnast á að fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt fleirum frv. til laga um breytingu á lögum um ferðamál í þáv. hv. efri deild um það að heimamenn gætu verið leiðsögumenn þótt þeir væru ekki mjög skólaðir í því. Þetta fékk heldur slæmar undirtektir hjá sumum og náði ekki fram að ganga. Ég gerðist svo djarfur, ég held sumarið eftir, að ég braut þessi lög og gerðist leiðsögumaður í nokkra daga um mitt heimahérað og það var ánægjulegt starf, ekki síst vegna þess að mér fannst fólkið taka því mjög vel þó að ég væri þingmaður sem ekki væri metinn réttur til þess að vinna að slíku. Ég held að leiðsögumennirnir þurfi að hafa æði nána tilfinningu fyrir náttúrunni sem þeir eru að fara um. Það dugar ekki þó að menn þekki ýmislegt úr bókum og séu vel að sér í málum og annað slíkt, sem vissulega ber ekki að lasta og auðvitað væri gott að sem flestir hefðu á valdi sínu, en það má ekki gleyma þeirri hliðinni að hafa tilfinningu fyrir náttúrunni og þá er hægt að finna marga staði sem ferðamenn eru hrifnir af. Oft hafa sandarnir og sandströndin austur í Skaftafellssýslu verið mér ofarlega í huga en mér finnst það vera heimur út af fyrir sig. Og það er þannig með fleiri sem þangað hafa komið. Þessi hópur sem ég var með og fór með þangað fannst tíminn of stuttur sem þar var dvalið. Það er því hægt að finna víða fagra staði og lagfæra það sem miður hefur farið, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, m.a. hjá hv. 4. þm. Austurl. og ég gat einnig um í minni framsögu. T.d. er örtröð of mikil á einstaka staði en ferðamönnum þarf að dreifa. Þá er mikilvægt að menn þekki þá staði sem hugsanlegt er að nota í þessu sambandi, ef þannig má að orði komast, og þekki líka söguna. Saga er ríkur þáttur í því að vekja áhuga.
    Ég vonast til þess að ég hafi með þessum orðum skýrt nánar hvað fyrir mér vakir. Það er að reyna að ýta við því að gert sé yfirlit yfir þetta. Eins og hér hefur komið fram í umræðunum eru til gögn með mjög miklum upplýsingum. Það þarf ekki að eyða tíma í að safna þeim heldur draga fram þessar staðreyndir og bregðast við þeim og létta undir, eins og ég sagði, þeim fjölmörgu sem eru brennandi af áhuga víðs vegar um landið að láta þarna til sín taka.