Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 14:35:00 (3773)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. gerði það að umtalsefni hér áðan og kvartaði raunar undan því að ég hefði í blaðaskrifum eignað Sjálfstfl. frumkvæði í þessu háskólamáli. Ég vil taka það fram að ég er almennt þess sinnis að mér finnst það skipta miklu máli að þeir sem á annað borð hafa frumkvæði í málum njóti sannmælis. Ég hef t.d. gert mér far um það að hæla fyrrv. hæstv. landbrh. fyrir það að hann

skyldi hrinda því í framkvæmd sem Alþingi hafði ályktað um, en það var að flytja Skógrækt ríkisins austur á land. Ég hef einnig lagt á það áherslu þegar ég hef haft tækifæri til að geta þess í hvívetna hve góðan þátt Framsfl. átti í undirbúningi háskólamálsins og hef þar sérstaklega nefnt þátt Ingvars Gíslasonar sem var verulegur í aðdraganda að stofnun Háskólans á Akureyri. Þess vegna vil ég geta þess hér að mér finnst alveg ástæðulaust að Sjálfstfl. njóti ekki sannmælis fyrir það að hann hafði forustu um afgerandi ákvörðun að stofnun Háskólans á Akureyri. Hann hafði forustu á úrslitastundu. Þegar Sverrir Hermannsson kom að þessu máli á árunum 1985--1987 þá var ekki búið að taka ákvörðun um að hrinda starfi Háskólans á Akureyri af stað og það var heldur ekki byrjað að ræða um að stofnunin yrði sjálfstæð stofnun. Þess vegna hafði flokkurinn forustu á úrslitastund og það er alveg sjálfsagður hlutur að hann njóti sannmælis fyrir það eins og það er sjálfsagt að aðrir njóti sannmælis fyrir það sem þeir gera vel. Eins er sjálfsagt að hv. 9. þm. Reykv. njóti sannmælis fyrir það að hann tók ákvörðun um það að setja af stað sjávarútvegsbraut, sem skiptir sköpum fyrir þennan háskóla, og það hef ég raunar tekið fram í skrifum mínum um þetta mál.