Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 15:05:00 (3844)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. 1. þm. Austurl., fyrir að hefja umræðuna. Við þrír ráðherrarnir sem tökum þátt í umræðunni munum leitast við að svara þeim spurningum sem til okkar er beint að svo miklu leyti sem það er hægt á þessari stundu. Óhjákvæmilegt er að umræðurnar skarist að nokkru leyti við þær umræður sem áttu sér stað fyrir ekki allt of mörgum dögum, einkum og sér í lagi um atvinnumál. Ég var að vísu ekki viðstaddur þær umræður en hef fengið upplýsingar um efni þeirra. Þar komu fram upplýsingar frá hæstv sjútvrh. um mat á stöðu sjávarútvegsins í heild. Þær athuganir og það mat sýnir að sjávarútvegurinn er nú rekinn með um 4% tapi.
    Einnig er athyglisvert að sú greinargerð sem hæstv. sjútvrh. kynnti þá eða gat um á þinginu þann 18. febr. sýnir að árið 1990, síðasta heila ár síðustu ríkisstjórnar, hafi rétt tæpur helmingur fyrirtækja í sjávarútvegi átt í verulegum greiðsluerfiðleikum, hafi ekki með eðlilegum hætti átt fyrir afborgunum og vöxtum og að því leyti verið á beinni gjaldþrotabraut eins og það var orðað. Þessi erfiða staða var ekki mjög gerð að umtalsefni í umræðunni sem átti sér stað fyrir síðustu kosningar. Auðvitað hefði verið nauðsynlegt að draga rétta mynd upp þá þannig að menn hefðu getað gert sér grein fyrir því að aðgerðirnar 1988 höfðu ekki leyst mikinn vanda eins og reyndar hefur verið bent á, heldur aðeins slegið málum á frest.
    Auðvitað er rétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að það má heldur ekki draga of víðtækar eða veigamiklar ályktanir af greinargerð Þjóðhagsstofnunar og einnig er rétt hjá honum að skuldareigendur hljóta að skoða sameiginlega hagsmuni skuldara og kröfuhafa og leitast við að skapa þeim fyrirtækjum, sem lífsvon eiga, skilyrði til þess að greiða sínar skuldir þó að það taki lengri tíma en skilmálar kunna að kveða á um.
    Þegar rekstrarumhverfi sjávarútvegsins er skoðað má segja að þar sjái menn bæði jákvæða og neikvæða þætti um þessar mundir. Við getum ekki neitað því að markaðsaðstæður hafa á flesta lund verið hagstæðar, a.m.k. hjá flestum þýðingarmestu þáttum eða sviðum sjávarútvegsins á undanförnum árum þó að einstakir mikilvægir þættir eins og rækja, mjöl og lýsi hafi stundum staðið veikt markaðslega. Því er ekki hægt að segja með sönnu að markaðsaðstæðum sé um að kenna hvernig staða sjávarútvegsins er við núverandi aðstæður.
    Á hinn bóginn höfum við búið við vaxandi aflaleysi. Að ráðum fiskifræðinga hefur verið dregið úr heimildum til veiða og upp á síðkastið hefur gæfta- og aflaleysi bætt um betur við þær ákvarðanir. Höfuðvandinn er kannski sá að við ætlum okkur, þrátt fyrir að afli á mikilvægustu tegundum hafi dregist saman, að halda afkasta- og vinnslugetunni á miklu hærra stigi heldur en þær aflatölur gefa í raun tilefni til. Ég hygg að ekki síst þetta misvægi skapi þá erfiðleika sem menn eru nú að horfast í augu við. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt atriði ekki síst vegna þess með hvaða hætti umræðan um sjávarútveg í landinu hefur verið um lengri tíma. Okkur hættir til að ræða um sjávarútveginn í einni heild rétt eins og sjávarútvegurinn sé eitt fyrirtæki sem lúti einni stjórn en auðvitað vita menn að svo er ekki. Sjávarútvegurinn greinist í mörg hundruð fyrirtæki og afkoma þeirra og aðstæður eru ákaflega misjafnar. Stjórnun fyrirtækjanna er líka afskaplega misjöfn. En ef menn líta á sjávarútveginn í heild, nánast sem eitt fyrirtæki, sjávarútveginn hf. eða eitthvað þess háttar, sem sé stjórnað af ríkisstjórninni þá leita menn jafnan að einhverri lausn sem dugar þessu eina fyrirtæki. En af því að staðreyndin er önnur og sjávarútvegurinn í raun margskiptur og aðstæðurnar mjög breytilegar þá henta slíkar lausnir fyrirtækinu afskaplega illa. Segja má að staða sjávarútvegsins sé erfið almennt séð og að mjög mörg fyrirtæki eigi í verulegum erfiðleikum en engu að síður er staðan misjöfn. Þar sem ekki er algerlega hægt að líta á sjávarútveginn í heild eins og hann sé eitt fyrirtæki er líka erfitt að segja nákvæmlega fyrir um hver skuli vera rekstrarskilyrði sjávarútvegsins.

    Í þessari umræðu spyr hv. málshefjandi um stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vanda sem við er að glíma. Þessi vandi er ekki afmarkaður og takmarkaður alfarið við sjávarútveginn þótt hann vegi auðvitað mjög þungt. Stefna ríkisstjórnarinnar hlýtur því að mínu viti að miðast að því hvað gagnist þjóðarbúinu í heild þegar til lengri tíma er horft. Ég tel ekki að forsendur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafi breyst. Þær tölur sem menn hafa gert að umræðuefni og sem hæstv. sjútvrh. kynnti og málshefjandi gerði að umtalsefni gefa ekki tilefni til þess að meginforsendum efnahagsstefnunnar sé breytt í veigamiklum atriðum frá því sem ríkisstjórnin mótaði við afgreiðslu fjárlaga. Þvert á móti tel ég að mikilvægast sé að treysta þá stefnu stöðugleika sem ríkisstjórnin hefur unnið að og með þeim hætti að skapa vaxandi trú á framtíðina.
    Það er rétt sem málshefjandi vék að að nauðsynlegt er að skapa skilyrði og undirbúa breytingar á skattkerfinu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar til að stuðla að því að íslenskt atvinnulíf búi við sömu skattakjör og erlendir keppinautar. En ég tek undir með honum að í því sambandi verðum við að hafa í huga að þetta er vandasamt verk og þarf að vinna í nánu samstarfi margra aðila og þá ekki síst í samstarfi við sveitarfélögin. Ég er ekki í vafa um það eftir að hafa hlustað á mjög ítarlegar umræður við afgreiðslu fjárlaga að öllum þingmönnum hlýtur að bera saman um það að slíkar breytingar, a.m.k. að því leyti sem þær snerta sveitarfélögin, megi ekki gera nema í mjög nánu samstarfi við þau og eins mikilli sátt við sveitarfélögin eins og frekast er kostur. Hæstv. félmrh. mun á morgun ræða í ríkisstjórn álit nefndar sem unnið hefur að því að gera grein fyrir þeim kostum sem fyrir hendi væru ef aðstöðugjald yrði fellt niður með hvaða hætti mætti bæta þeim aðilum þær tekjur sem þeir yrðu af með niðurfellingu aðstöðugjaldsins.
    Í umræðunni 18. febr. gerði hæstv. fjmrh. ítarlega grein fyrir stöðu mála og var rætt um atvinnuleysið. Hæstv. fjmrh. vakti athygli á því að þó að hægt sé að segja að atvinnuleysi sé um þessar mundir meira en oftast áður þá skakkar reyndar ekki mjög miklu. Atvinnuleysið er mjög svipað, kannski örlítið meira en það var um líkt leyti árið 1990. Ég hygg að rétt sé að menn hafi það í huga. Það skakkar afskaplega litlu. Við vitum líka að það er hæpið að tala um atvinnuleysi til lengri tíma þegar svo ber við að gæfta- og aflaleysi getur hafa gert það að verkum á tilteknum tíma að hefðbundin atvinna í heilum byggðarlögum dregst saman eða leggst jafnvel niður um stundarsakir. Enginn vafi á því að atvinnuleysi í janúar, ekki síst á landsbyggðinni, kemur fyrst og fremst til vegna þess að mjög mörg frystihús og fiskverkunarhús hafa ekki haft fulla starfsemi allt fram til byrjunar febrúar allt frá því allmörgum dögum og jafnvel vikum fyrir jól. Þegar atvinnuleysi er mælt og miðað við eldri tíma er líka rétt að hafa í huga að töluvert er um útlendinga í vinnu hérlendis um þessar mundir og miklu meira en var á árum áður. Sá vinnukraftur hefur komið til vegna þess að Íslendingar hafa sjálfir ekki getað annað eftirspurn eftir tilteknu sérhæfðu vinnuafli og þá kannski ekki síst í frumvinnslunni.
    Ég tel að lausatök í ríkisfjármálum á undanförnum árum hafi orðið til þess að mjög hefur hallað bæði á ríkissjóð umfram það sem fjárlög hafa gefið til kynna, eða hvað væri hollt í þeim efnum, og eins í viðskiptum Íslands við erlend ríki. Þessir þættir eru undirrót þeirra háu vaxta sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi, þeirra háu vaxta sem hann segir réttilega að hafi verið að sliga fyrirtækin. Ekki skiptir máli hver tekur ákvörðun um skrásetningu vaxta. Það eru vaxtaforsendurnar sem skipta máli og þær höfðu gersamlega farið úr böndum á árum áður. Þess vegna greip ríkisstjórnin til margvíslegra aðgerða, aðgerða sem mjög voru ræddar og þóttu koma mjög hart niður á mörgum hópum en þetta var gert til þess að snúa vörn í sókn í þeim efnum. Ég tel að árangurinn hafi þegar orðið nokkur og mikilvægur. Tekist hefur að slá á útgjaldaaukningu ríkisins. Reyndar hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt afskaplega harðlega margar þessar aðgerðir og ekki var annað skilið í umræðum um fjárlög en svo að verulegur hluti stjórnarandstöðunnar, kannski hún öll, hefi talið skynsamlegast að láta reka á reiðanum í þessum efnum og stórauka útgjöld ríkissjóðs á þessu ári og jafnvel á þeim næstu en ríkisstjórnin hafnaði slíkum hugmyndum. Lánsfjárþörf opinberra aðila á árinu 1991 var rúmir 40 milljarðar kr. Hins vegar er nú gert ráð fyrir því að hrein lánsfjárþörf opinberra aðila verði um 20 milljarðar á þessu ári eða næstum því helmingi minni en var í fyrra. Enginn vafi er á því að ríkisstjórnin hefur með þessum aðgerðum stuðlað að stöðugleika og festu sem til langs tíma mun skapa skilyrði þess að atvinnulífið komist á skrið og hjól þess fari að snúast á nýjan leik.
    Ef við horfum aðeins yfir sviðið og skoðum hvernig rammi atvinnulífsins er þá fer það ekki á milli mála að um þessar mundir er rólegt á íslenskum fjármagnsmarkaði. Tiltölulega lítil hreyfing er á bankainnlánum og lausafjárstaða bankanna er bærilegri en áður var. Það er líka ljóst að ríkisstjórninni hefur tekist að skapa skilyrði til vaxtalækkunar. Ríkisstjórnin hefur þegar haft frumkvæði að því að raunvextir geti lækkað með því að vextir spariskírteina hafi verið lækkaðir og enginn vafi er á því að bankarnir munu lækka raunvexti að sama skapi. Eftirmarkaður fyrir spariskírteini og húsbréf er nú að þokast niður. Það sjá menn á þeim tölum sem birtar hafa verið. Þeir sem gerst þekkja til í viðskiptalífinu núna telja bersýnilegt að trú manna á stöðugleika sé að eflast og við slíkar aðstæður skapist grundvöllur til frekari lækkunar vaxta.
    Verðbólgan er lægri hér á landi en hún hefur verið í áratugi á Íslandi. Þá er ég ekki aðeins að tala um mælingu til eins mánaðar heldur þegar horft er til lengri tíma. Það er ljóst að verðbólgan er í böndum og það er afskaplega áríðandi að menn leysi hana ekki úr þeim böndum.
    Menn ræða gjarnan um það eins og hv. 1. þm. Austurl. gerði að afskaplega mikilvægt sé að forsendur atvinnulífsins séu í lagi svo að forsvarsmenn fyrirtækjanna og stjórnendur fái rétt skilyrði til þess

að stýra sínum fyrirtækjum með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Ég tel að þessar forsendur séu að skapast. Stöðugleiki í verðlagi, afskaplega lág verðbólga er að mínu viti grundvallarforsenda í þessum efnum. Ég minntist áðan á vextina sem menn hafa nefnt réttilega að séu íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Meginaflgjafinn í þeirri vaxtasprengingu var ríkisvaldið og svo auðvitað þeir sem fóru með forsvar þess á þeim tíma. Sú harða og ég vil segja ódrengilega samkeppni um spariféð sem ríkissjóður stóð fyrir þeytti vöxtunum upp í þær hæðir sem þeir hafa verið í. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar hafa verið að skapa skilyrði til þess að vextir geti lækkað, raunverulega lækkað og þeir fara lækkandi um þessar mundir. Nafnvextir í bankakerfinu eru reyndar lægri en þeir voru þegar þessi ríkisstjórn settist að völdum og þeir hafa ekki verið lægri í 20 ár. Enginn vafi er á því að þessir vextir munu enn fara lækkandi og það er rétt að menn átti sig á því sem er mikilvægt út af umræðunni að ávöxtunarkrafa spariskírteina, ekki skrásetning þeirra heldur ávöxtunarkrafa spariskírteina á lánsfjármarkaði er núna lægri en hún var þegar ríkisstjórnin tók við. Það eru ekki síst þau skilyrði sem ríkisstjórnin hefur skapað fyrir betra jafnvægi á lánamarkaðinum sem hefur náð fram þessu svigrúmi til að lækka raunvexti og til að lækka afföllin á húsbréfum. Mjög lág verðbólga og lækkandi vextir munu auðvitað vera meginþátturinn í því að skapa skilyrði til þess að styrkja stöðu atvinnulífsins í landinu almennt.
    Auðvitað hafa menn haft áhyggjur af því hvar í flokki sem þeir hafa staðið hversu einhæfni atvinnulífsins hefur verið að aukast á nýjan leik því að allir höfðu haft áhuga á því að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið en þeim sem sjávarútvegurinn einn gat skaffað. Við sjáum núna, eins og nefnt var í ræðu málshefjanda, að hlutur sjávarútvegsins hefur verið að færast í sitt gamla form vegna þess að nýjungar í atvinnulífinu hafa ekki staðist. Það er nefnilega þannig að miðstýrðar áætlunargerðir og atbeini stjórnvalda til að mynda í fiskirækt og loðdýrarækt, jafnvel í afskiptum ríkisins af ullariðnaði, hefur leitt til ófarnaðar og til þess að stórkostlegir fjármunir hafa tapast. Hér á landi sem annars staðar hefur sannast að ríkið á ekki sjálft að reyna að leiða atvinnulífið á nýjar brautir. Það á að leitast við að skapa grundvallarskilyrðin, leggja til landið, plægja akurinn en síðan eiga aðrir að koma til og sá og uppskera. Það er einmitt þetta sem ríkisstjórnin hefur verið að gera og vinna að á þeim tiltölulega fáu mánuðum sem hún hefur verið við völd.
    Ég hef áður rakið hvernig verðbólgan stendur og hvernig vaxtaskilyrðin eru að breytast til batnaðar þótt hægt fari en ég tel að vaxtaskilyrðin séu að breytast með þeim hætti að líklegt sé að vaxtastigið verði lægra og varanlegra með þeim hætti en áður hefur verið.
    Hv. 1. þm. Austurl. ræddi um raungengi krónunnar og taldi að það væri í það hæsta miðað við árið 1990 þar sem það væri örlítið hærra núna en árið 1990. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að raungengið er svipað núna og það hefur verið að meðaltali í þennan áratug nánast á hvaða mælikvarða sem það er mælt og það er 15--20% lægra en það var þegar það fór mest böndum fyrir þremur árum. Engu að síður er ég sammála hv. 1. þm. Austurl. að raungengi þyrfti að lækka en það þarf að lækka með þeim aðferðum sem menn hafa rætt um, þeim aðferðum að séð sé til þess að kostnaðarhækkanir innan lands séu lægri um hríð en annars staðar gerist og með þeim hætti mun þegar fram í sækir slakna á genginu. Ég tel að við getum ekki miðað raungengi krónunnar við stöðu þeirra fyrirtækja sem lakast standa í sjávarútvegi, enda mælti málshefjandi ekki með því.
    Við höfum séð mjög víða að undanförnu að menn hafa gripið til þess ráðs að sameina fyrirtæki og hagræða og það hefur þegar skilað verulegum árangri. Ég tel að sá ferill hafi hafist þegar Bæjarútgerð Reykjavíkur og Ísbjörninn voru á sínum tíma sameinuð. Bæði þessi fyrirtæki, Bæjarútgerðin og Ísbjörninn, stóðu illa á þeim tíma og Bæjarútgerðin hafði sótt hundruð milljóna, jafnvel árlega, í borgarsjóð til að haldast á floti. Þessi fyrirtæki voru sameinuð, hagræðingin er orðin mikil og upp hefur risið fyrirtæki sem stendur á eigin fótum og sækir ekki styrk til bæjarfélagsins en þvert á móti greiðir þangað skatta og gjöld. Þess háttar sameining er mjög víða að eiga sér stað en það tekur tíma rétt eins og hjá Granda að slík sameining skili árangri en hún mun gera það.
    Við höfum séð hvernig þær aðgerðir sem gripið var til á Suðureyri hafa þegar skilað verulegum árangri og bætt stöðuna í atvinnulífinu í því byggðarlagi sem hafði verið byggðarlag samfelldra erfiðleika um háa herrans tíð. Aðgerðir af framangreindu tagi eru nauðsynlegar og menn mega ekki af pólitískum ástæðum fordæma þær né heldur loka augunum fyrir nauðsyn þeirra. Það vita allir sem vilja að afkastageta íslensks sjávarútvegs er mun meiri en afraksturinn sem við megum hafa úr hafinu samkvæmt ráðum þeirra sem best til þekkja um þessar mundir. Þessar staðreyndir geta menn ekki falið með aðgerðum þess opinbera. Þetta eru blákaldar staðreyndir sem menn verða að laga sig að.
    Stjórnarandstaðan segir stundum að ríkisstjórnin hafi ekki vilja til að gera eitt eða neitt og í hinu orðinu segir hún að þessi ríkisstjórn hafi lagt til atlögu við þjóðfélagið allt, hvorki meira né minna. Enginn vafi er á því að þessi ríkisstjórn hefur ekki veigrað sér við að ganga til verka þótt hægt væri ófrægja þau verk um stund, þótt hægt væri að skapa óvild og andúð vegna þeirra aðgerða um stund. Ríkisstjórnin hefur gert þær aðgerðir ekki vegna þess að hún vilji vera í andstöðu við þjóðina, hvaða ríkisstjórn vill það, eða við einstaka stéttir til lengri tíma. Engin ríkisstjórn þráir að verða óvinsæl um aldur og ævi enda þótt þær verði það margar.
    Ríkisstjórnin hefur gengið til þessara verka vegna þess að þau hafa verið nauðsynleg og vegna þess að það er ekki vafi í okkar huga sem að stjórninni stöndum að þau verk munu í framtíðinni gerbreyta skilyrðum til uppbyggingar atvinnulífs og til þess að snúa vörn í sókn í landinu.
    Við höfum búið við kreppu í fimm ár. Ekkert ríki á Vesturlöndum hefur búið við jafnlangvarandi samdráttarskeið og við höfum gert. Við heyrum í umræðunni erlendis að Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og nú síðast Bretar eru að kveinka sér undan því að afturkippur hafi orðið hjá þeim um eins árs skeið. Við höfum búið við slíkar aðstæður í fimm ár. Það var sú staða sem hafði verið um fjögurra ára skeið þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum. Það er við slíkar aðstæður sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að brjóta í blað, skapa traust skilyrði til þess að koma megi í veg fyrir samfellt kaupmáttarhrap eins og átti sér stað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég viðurkenni þó að ytri aðstæður nú munu leiða til þess að kaupmáttur mun eitthvað dragast saman en ef vinnuveitendur, launþegahreyfingin og ríkisvaldið ná að skapa samstöðu um að takast á við þessi ytri áföll er algerlega ljóst í mínum huga að sú kaupmáttarminnkun sem ytri samdráttur skapar verður miklu minni en ella og við fáum fyrr tækifæri til þess að spyrna okkur á nýja braut framfara, aukinna tekna, aukins kaupmáttar og vaxandi velferðar á ný. Ég tel að grundvöllurinn sé að skapast, verðbólgan er í núlli, vextir fara lækkandi, trúin á stöðugleikann eflist, jarðvegur hefur verið plægður og nú er að sá og síðan munu menn uppskera.