Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 12:44:00 (4006)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem ég tel ástæðu að taka heldur jákvætt í. Hér er í raun og veru verið að hreyfa máli sem mjög margir hafa vakið athygli á á síðustu missirum því það væri örugglega einhver áhrifamesta byggðastefna sem hægt væri að efna til að standa þannig að málum að hið opinbera, sem í öðru orðinu þykist sífellt vera að fylgja eftir einhverri byggðastefnu í því skyni að efla hinar dreifðu byggðir, standi við þau orð með þeim hætti að þegar verið er að efna til nýrrar starfsemi eða að setja á stofn aukna starfsemi, verði það gert úti í hinum dreifðu byggðum. Sannleikurinn er sá að þótt hið opinbera hafi þóst vera að fylgja eftir einhverri byggðastefnu hefur á sama tíma bæði verið fylgt efnahagsstefnu sem hefur verið óhagstæð landsbyggðinni og einnig hafa umsvif hins opinbera verið stóraukin fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Þannig má segja að hið opinbera, ríkið, hafi í gegnum tíðina verið að vinna gegn þeim markmiðum sínum að efla byggð um landið með því að auka stöðugt á umsvif sín á höfuðborgarsvæðinu.
    Að sumu leyti held ég að þetta endurspegli einhvers konar vana, jafnvel hugsunarleysi, vegna þess að oft og tíðum þegar verið er að ákveða einhverja nýja starfsemi hugi menn ekki einu sinni að því hvort til greina komi að slík starfsemi fari fram utan höfuðborgarsvæðisins.
    Ég vakti einmitt athygli á því í ítarlegum og athyglisverðum umræðum sem fram fóru um Háskólann á Akureyri að fyrir utan það að vera hin ágætasta fræða- og menntastofnun er hann mjög vel heppnað dæmi um byggðastefnu. Þó ég viðurkenni það vissulega að stofnun háskólans sé í sjálfu sér ekki byggðamarkmið, styrkir hann mjög starfsemi sem þarf að fara fram og fram fer á Akureyri. Ég held þess vegna að Háskólinn á Akureyri, mér er sagt að þar vinni núna um 50 manns, sé dæmi um afar vel heppnaða ákvörðun sem hefur styrkt Akureyrarkaupstað sem fræða- og menntasetur og um leið veitt atvinnulífinu á þessu svæði ómetanlega stoð.
    Ég nefndi áðan að í raun og veru hafi hið opinbera verið að vinna gegn eigin markmiðum þegar ákvörðun um að setja niður tiltekna atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tekin. Til þess að forðast allan misskilning tek ég það fram að auðvitað vil ég veg höfuðborgarinnar sem mestan. Ég tel mikilvægt fyrir þjóðina að höfuðborgin sjálf sé mjög sterk og öflug. Hins vegar efa ég að sú mikla þéttbýlismyndun, sem átt hefur sér stað suður við Faxaflóa, og er í raun einsdæmi miðað við Evrópulöndin,

sé efnahagslega hagstæð eða skynsamleg frá sjónarhóli höfuðborgarinnar.
    Þessi þéttbýlismyndun í gegnum umsvif hins opinbera gerist með ýmsum hætti. Ég hef stundum leyft mér að taka dæmi af því þegar sú ákvörðun var tekin á sínum tíma að setja niður Tækniskóla Íslands. Sá skóli hefði getað verið hvar sem er, t.d. á Akureyri, svo að ég taki dæmi af mjög vaxandi og merkilegum skólabæ. Ég nefni þetta skóladæmi vegna þess að skólastarfsemi víðs vegar í heiminum fer einmitt fram utan höfuðborganna, stórborganna, oft og tíðum. Þó háskólar séu vissulega líka staðsettir í stórborgum þá er það svo að háskólastarfsemi fer líka fram í skólasetrum utan borganna og það er markmið í sjálfu sér.
    Ég tek dæmi af því þegar Tækniskóla Íslands var valinn staður í Reykjavík. Engin sérstök rök voru fyrir því. Þetta þýðir að ungt fólk sem hefur áhuga á tækninámi af því tagi sem boðið er upp á í Tækniskóla Íslands verður að leita suður, setja sig niður um margra ára skeið. Í ljósi þess hve leigumarkaðurinn er ótryggður þá er tilhneigingin oft sú að freista þess að festa kaup á húsnæði. Fyrsta skrefið í þá átt að festa sig í nýju sveitarfélagi. En þetta er ekki nóg. Hitt er líka að þeir tæknimenntuðu kennarar íslenskir, sem hafa menntað sig til að kenna tækninemum, eiga engra kosta völ en þeirra að leita hingað suður til þess að vinna við þennan skóla, þennan Tækniskóla Íslands, sem býður upp á þessa möguleika. Síðan vindur þetta enn upp á sig og sá tækniiðnaður og sú umboðsstarfsemi sem fer fram í sambandi við tækni alls konar haslar sér auðvitað völl í námunda við þessa þekkingu sem þegar er orðin á höfuðborgarsvæðinu. Og það er ekki tilviljun af þeim sökum að þessi starfsemi hefur einkum og sér í lagi orðið til í Reykjavík. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Það er ekkert sem segir að þetta eigi að vera svona, það sé skynsamlegt að þetta sé svona. En með handaflinu verður þetta með þessum hætti. Og þess vegna er það auðvitað mjög hlálegt þegar sagt er sem svo: Það má ekki gera neinar aðgerðir í byggðamálum vegna þess að þá er verið að rísa gegn einhverju náttúrulögmáli, einhverju efnahagslögmáli, einhverju þjóðfélagslegu lögmáli sem er á ferðinni og það sé óeðlilegt að trufla það. Ég hef einmitt verið að benda á og færa að því rök að í raun og veru sé verið að grípa með beinum hætti, með beinum stjórnvaldsaðgerðum, inn í þjóðfélagsþróunina og beina henni í ákveðinn farveg með þeim hætti sem ég hef hér verið að lýsa.
    Það er alltaf gott að styðja mál sitt tölum ef þær eru handbærar og ég lét Byggðastofnun á Ísafirði taka saman fyrir mig tölur um þróun ársverka í opinberri þjónustu á árunum 1981--1990 og þær tölur finnst mér vera mjög fróðlegar. Árið 1981 voru ársverk í opinberri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu 10.902. Árið 1990 voru þau orðin 16.141. Þeim fjölgaði sem sagt um tæp 50%. Á landsbyggðinni voru ársverk á sviði opinberrar þjónustu árið 1981 5.623 en voru orðin árið 1990 7.828 og hafði sem sagt fjölgað um 39%. En þessar tölur, svo lýsandi sem þær eru, segja þó ekki allan sannleikann vegna þess að ársverk í opinberri þjónustu voru svo miklu fleiri í upphafi viðmiðunartímabilsins á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Og sú staðreynd að fjölgunin hefur jafnvel orðið hlutfallslega meiri á höfuðborgarsvæðinu á síðasta áratug segir okkur að enn hefur dregið í sundur á milli þessara svæða landsins. Það sést kannski best ef við förum að reikna út þessar tölur að ársverkum í opinberri þjónustu fjölgar á þessum tíma um 7.444 alls og þar af á landsbyggðinni einungis um 2.205 sem segir að sjö af hverjum tíu ársverkum í opinberri þjónustu sem urðu til á síðasta áratug voru hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað ákveðin tegund af byggðastefnu, meðvitaðri, fastmótaðri, ákaflega vel skipulagðri og vel fjármagnaðri byggðastefnu sem hefur haft tiltekið markmið. Vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu hefur m.a. verið á þessu sviði og þess vegna held ég að það væri afar nauðsynlegt að þessu yrði snúið við.
    Ég tel --- nú er tími minn því miður að hlaupa frá mér --- að þær aðgerðir sem miða að því að draga úr opinberum umsvifum og munu án efa sérstaklega finna sér stað hér á höfuðborgarsvæðinu séu í eðli sínu byggðastefna að því leytinu að þarna er með vissum hætti verið að stöðva þennan óeðlilega vaxtarbrodd og ég hef upplýsingar um að þess sé þegar farið að sjást merki úti á landsbyggðinni að fólk er farið að sækja þar í störf sem það forðaðist áður og það eru vissulega ánægjulegar afleiðingar af þeirri stefnubreytingu sem vonandi verður lag til þess að fylgja rækilega eftir.