Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:52:00 (4015)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég skil áhyggjur hv. þm. af atvinnuástandi á Suðurnesjum. Vissulega horfir þunglega og hlýtur það að valda okkur áhyggjum, en það er nú ekki eins og það böl sé bundið við Suðurnesin ein, heldur er það bundið við landið allt og þjóðin öll býr við þá áþján að hafa fengið slíka ríkisstjórn yfir sig sem virðist ætla að leggja það sem eftir var af atvinnulífinu í landinu í rúst.
    Þegar ég lít yfir salinn þegar verið er að ræða um till. um atvinnumál á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis þá velti ég vöngum yfir því hvar þingmenn Reykjaness eru. Hvar eru þeir sem stóðu fyrir öllum veisluhöldunum eftir síðustu kosningar og fögnuðu sigri í Reykjaneskjördæmi? Hvað sögðu þeir þá fyrir kosningar? Að ég tali ekki um hverju þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar. Hefði ekki verið svolítill bragur að því að þessir heiðursmenn og höfðingjar væru í salnum og tækju þátt í umræðunni? Hér og nú gefst þeim tækifæri til þess að segja þeim sem kusu þá síðast hvernig þeim hefur gengið að standa við stóru orðin. Það var ekki aldeilis svo að þeir fengju ekki ríkisstjórnina sem þeir lofuðu. Ekki aldeilis. Hún kom heldur betur. Einhver sú albölvaðasta ríkisstjórn sem við höfum fengið í langan tíma. Það var ekki aldeilis svo að hún ætti að verða það.
    Mér er illa við að tala til fjarstaddra manna, en ég er hræddur um að formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Suðurnesja hafi lofað umbjóðendum sínum einhverju öðru en því atvinnuleysi sem nú ríður yfir kjördæmi hans. Ég er hræddur um það. Líka hefði verið áhugavert að hlusta á hæstv. núv. iðnrh. fara yfir tossalistann fyrir síðustu kosningar eða að ógleymdum öllum hinum þingmönnum Sjálfstfl. Það var eitthvað sem þeir lofuðu og ætluðu að gera.
    Í máli frummælanda kom fram að það sem mestu hefði valdið um atvinnumálið og atvinnuleysið á Reykjanesi væri sá mikli samdráttur sem orðið hefði í sjávarútvegi. Ég geri ekki lítið úr því að það hefur komið illa við Reyknesinga og sérstaklega ákveðna hluta kjördæmisins. Menn þurfa að reyna að átta sig á því að alhæfa ekki um of í því og reyna að glöggva sig á því hvernig staðan er. ( AÓB: Þetta eru Suðurnesin.) Ég er líka að tala um Suðurnesin. Margt hefur breyst í sambandi við stjórnun fiskveiða og við höfum orðið að ganga þar í gegnum þrengingar og þær hafa auðvitað ekkert farið fram hjá Reyknesingum frekar en öðrum þar sem sjávarútvegurinn hafði vegið þungt og víða annars staðar. En margt annað hefur líka breyst. Fiskmarkaðirnir hafa komið til og opnað ýmsa möguleika, bætt tekjur sjómanna og breytt ýmsu öðru. Það var nefnilega svo að árið 1984, sem er orðið einhvers konar viðmiðunarár vegna þess að þá var stjórnun fiskveiða tekin upp, var hlutdeild Reykjaness í lönduðum afla um 19,2%, en um 1990 var hlutdeild Reykjaness í lönduðum afla komin upp í 23,1%. ( AÓB: Að meðtöldum Hafnarfirði.) Að meðtöldum Hafnarfirði, já, vissulega að meðtöldum Hafnarfirði. Ég er bara að skýra frá þeim breytingum sem orðið hafa. Þetta er það sem hefur gerst. Ég geri mér grein fyrir því að fiskmarkaðirnir vega býsna þungt, en engu að síður hefur hlutdeild Reykjaness aukist í lönduðum afla.
    En ég stóð fyrst og fremst upp til þess að taka undir það með hv. þm. að ég hef áhyggjur af atvinnumálunum almennt, ekkert síður á Suðurnesjum en annars staðar og ég veit ekki satt að segja hvernig skuli verjast en við vorum í umræðunni ekki fyrir löngu og þá var ég hér með ákveðnar tölur --- forsrh. dró úr því. Ég fullyrti að það atvinnuleysi sem við værum að tala um væri enn meira en þær tölur gáfu til kynna og það er akkúrat það sem hefur komið á daginn að atvinnuleysið er miklu meira en þær tölur sögðu þá.