Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:14:00 (4064)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er létt yfir þessari umræðu sem er til mikilla bóta og menn láta ýmislegt fljúga og er ég síst að gera athugasemdir við það. En svona sögunnar vegna held ég að nauðsynlegt sé að ég komi hv. 3. þm. Austurl. til hjálpar og eyði öllum misskilningi varðandi afstöðu mína til einkarekstrar eða einkavæðingar í samgöngukerfinu. Ég er almennt séð ekki mjög hlynnur slíku. Þó er ég að mínu mati mjög fordómalaus í þeim efnum og hef verið tilbúinn til að skoða það þar sem það getur átt við eins og dæmin sanna, samanber þá vinnu sem fór fram í samgrn. í minni tíð og tengist hugsanlegum jarðgöngum undir Hvalfjörð.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og er eiginlega alveg viss um að hv. 3 þm. Austurl. er mér alveg sammála um það, að við þurfum að gæta okkar mjög á því áður en við hleypum einkarekstri í ágóðaskyni inn í samgöngukerfið í of ríkum mæli af þeirri ósköp einföldu ástæðu að ég held að þá verði mjög erfitt um vik að tryggja jafnrétti allra landsmanna með þeim hætti sem núv. sameiginleg tekjuöflun í einn sjóð og síðan framkvæmdir á grundvelli þess um allt land gerir. Og ég sagði það í umræðunum um vegáætlun fyrir nokkrum dögum að þetta ætti að vera nákvæmlega eins og það er í dag að öll umferðin í landinu væri skattlögð í einn sameiginlegan sjóð sem stæði undir framkvæmdunum og síðan ættu landsmenn allir, án tillits til þess hvar þeir búa, samgöngukerfið í landinu. Þannig á það að vera að mínu mati. Það

geta verið aðstæður fyrir hendi eins og t.d. ef menn stytta sér leið með jarðgöngum undir Hvalfjörð þar sem ég tel sjálfsagt mál að skoða hvort hægt er að búa til fyrirtæki úr slíku.
     Að lokum er það svo rétt sem dregið var inn í umræðuna að suður á Miðnesheiði liggja 3 milljarðar í skuldum vegna óráðsíu og sukks sem þar fór fram á sínum tíma þegar byggð var þessi montflugstöð sem aldrei skyldi verið hafa. M.a. varð samstarf við herinn okkur dýrt í þeim efnum og við hefðum að sjálfsögðu getað komið þeim milljörðum fyrir með þægilegum hætti t.d. í vegakerfinu og værum þá betur stödd sem því nemur ef sú óráðsía hefði ekki átt sér stað.