Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Tillagan sem hér er liggur fyrir gengur í þá átt að efla Akureyrarsvæðið og sérstaklega sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri. Þar sem ég er meðflutningsmaður tillögunnar þá tel ég mér skylt að segja nokkur orð um mína skoðun á málinu. Ég tel að það sé stefnumarkandi, bæði fyrir þá ágætu stofnun, Háskólann á Akureyri, og einnig sé þarna um að ræða stuðning við hagnýtar rannsóknir í sjávarútveginum. Á Akureyri hefur vöxtur sjávarútvegsfyrirtækjanna, eins og segir í greinargerð, verið með mesta móti og ætti háskólinn þar því að vera betur í stakk búinn til að leggja sitt af mörkum til að auka fjölbreytni í þeim störfum.
    Haldast þarf í hendur uppbygging sjávarútvegsbrautar við Háskólann á Akureyri og hagnýtar rannsóknir sem nýtast þá til atvinnuuppbyggingar. Ég tel að þessi tillaga sé í þá átt, að hún sé stefnumótandi til framtíðar og er þess vegna mjög hlynnt því að hún nái fram að ganga. Nýhafin er kennsla við Háskólann á Akureyri í sjávarútvegsfræðum og er eina sjávarútvegsháskólabrautin hér á landi, tvö ár síðan hún var stofnuð held ég að komi fram hér. Hingað til hafa þeir sem hafa viljað mennta sig í sjávarútvegsfræðum yfirleitt orðið að leita til nágrannalandanna og mjög margir sjávarútvegsfræðingar, sem hér starfa í dag, hafa menntað sig til þeirra starfa í Tromsö í Noregi. Það þarf vissulega að huga að því að standa vel að uppbyggingu sjávarútvegsbrautarinnar sem hér er komin af stað og ég held að þessi tillaga sé spor í þá átt.
    Mér er sagt að komin sé fram önnur tillaga. Ég hef ekki séð hana en vel getur verið að manni sjáist yfir einhverjar af þeim tillögum sem hér liggja frammi.
    Mig langar einnig til að segja frá því að á Vestfjörðum er í bígerð stofnun þróunarseturs í sjávarútvegsfræðum. Ég tel að það væri mjög heppilegt að byggja upp sjávarútvegsbrautina við Háskólann á Akureyri en stofna jafnframt slík þróunarsetur, t.d. eitt í hverjum landshluta. Það mætti hugsa sér eitt á Vestfjörðum og annað á Austfjörðum og e.t.v. á Suðausturlandinu líka. Þróunarsetrið sem nú er í bígerð að stofna á Vestfjörðum hefur verið lengi í undirbúningi. Að því var stefnt í byrjun febrúar að halda um það stofnfund fljótlega. Það byrjaði með því að settur var á stofn samstarfshópur sem hafði það hlutverk að samræma sjónarmið atvinnufyrirtækja og Menntaskólans á Ísafirði. Þær stofnanir sem stóðu að þessum vinnuhópi voru Byggðastofnun, atvinnufulltrúi, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og fleiri aðilar lýstu áhuga sínum á því að auka samstarf við þessar stofnanir. Þar á meðal voru bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri auk Tækniskóla Íslands og Búnaðarfélags Íslands.
    Þessi starfshópur hefur starfað síðan í fyrrasumar og hefur lagt fram drög að stofnsamningi og ætlar að bjóða til stofnfundar núna á næstunni. Tilgangur þessa þróunarseturs í sjávarútvegsfræðum er fjórþættur. Í fyrsta lagi að vinna að því að þekking og reynsla á sviði sjávarútvegs á Vestfjörðum nýtist til þróunar og nýsköpunar. Í öðru lagi að skapa vettvang þar sem hugmyndir og frumkvæði heimamanna fái umfjöllun og stuðning. Í þriðja lagi að tryggja að fullt tillit sé tekið til óska fyrirtækja á svæðinu varðandi verkefnaval stofnananna og að verkefnin séu að öllu leyti unnin í samráði og samvinnu við fyrirtækin. Og í fjórða lagi að styrkja stöðu rannsóknaraðila á Vestfjörðum og stuðla þannig að því að verkefni og fjármagn til rannsókna flytjist í meira mæli til landsbyggðarinnar en hingað til. Ég vil ítreka að þetta tel ég mjög jákvætt og væri æskilegt að slík þróunarsetur gætu verið staðsett í öllum landshlutum og á það alls ekki að koma í veg fyrir uppbyggingu sjávarútvegsbrautar við Háskólann á Akureyri. Þau væru þá tengd sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri og þar færi fram stefnumótun og samvinna við önnur þróunarsetur í sjávarútvegi.
    Ég ætla þá í lokin að lýsa yfir stuðningi við það að tillagan nái fram að ganga og þakka flutningsmanni sem hér er að endurtaka tillögu sem flutt var á 113. löggjafarþingi. Ég vænti þess að hún fáist útrædd núna.