Laun forseta Íslands

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 14:57:00 (4083)


     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið hér og ætla ekki að ræða það eina ágreiningsefni sem hugsanlegt væri varðandi stjórnarskrána. Mér er ljóst að full rök eru fyrir því sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði í þeim efnum þar sem þetta ákvæði í íslensku stjórnarskránni er fengið frá Dönum og spurning hvort sambærilegt hugtak sé til á Íslandi eins og þar er um að ræða.
    Varðandi hitt atriðið, til hvaða nefndar málið eigi að fara, þá hef ég lýst því að ég tel að það eigi að fara til allshn. en ég legg það í dóm forseta hvað hann gerir í þeim efnum. Ég hef áður sagt að þingmenn eigi ekki að kjósa sér nefndir heldur er það forsetans að leiðbeina í þessum efnum. Ég treysti hæstv.

forseta fullkomlega til að gera það í þessu máli.