Landanir erlendra skipa í íslenskum höfnum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:47:00 (4111)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi vék hér að þá hafa verið heimilaðar landanir af hálfu Grænlendinga á grundvelli þeirra lagaákvæða sem í gildi eru. Það hefur verið mitt sjónarmið að þau lög sem í gildi eru nú séu of þröng og því var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrr á þessu þingi frv. sem gerir ráð fyrir því að landanir erlendra fiskiskipa verði almennt heimilaðar en sjútvrn. geti, þegar þannig stendur á að um er að ræða veiði úr stofnum sem eru sameiginlegir og ekki hefur verið samið um skiptingu á, bannað löndun. Ég tel það vera mjög mikilvægt atriði, ekki síst í ljósi síðustu atburða, að hafa slíka heimild til þess að hamla löndunum þegar þannig stendur á.
    Á hinn bóginn er alveg ljóst að þeim framkvæmdamáta, sem hefur gilt um undanþáguákvæðið, verður ekki breytt og lögunum að sjálfsögðu ekki breytt fyrr en Alþingi hefur samþykkt ný lög. Það liggur fyrir þinginu frv. um þessi efni og hvorki gildandi lögum né framkvæmdamátanum verður vikið til hliðar nema Alþingi samþykki þar um nýja löggjöf.