Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 16:37:00 (4148)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er auðvitað ákaflega mikilsvert og þýðingarmikið. Það hefur átt sér alllangan aðdraganda eins og fram hefur komið m.a. í fjölmiðlaumfjöllun, svo einkennilegt sem það er. Í sjálfu sér þarf ekki að undrast þótt þetta mál hafi tekið nokkuð langan tíma í undirbúningi. Hér er verið að taka á máli sem snertir hagsmuni mjög margra, getur komið við pyngju mjög margra og hefur áhrif á afkomu fólks. Kannski má segja sem svo að með frv. hafi verið gerð tilraun til að samræma tvö sjónarmið, annars vegar sjónarmið þeirra sem trúðu því að hægt væri að tryggja lágt vöruverð, lágt og jafnt olíuverð, með frjálsri samkeppni og hins vegar hinna sem vildu slá þarna varnagla og treystu því ekki að hin frjálsa samkeppni mundi leiða til þess markmiðs, sem ég hygg að flestir hafi verið sammála um, að olíuverðið ætti að vera sem jafnast í landinu.
    Þetta mál hefur verið, eins og ég sagði, lengi í deiglunni. Það vakti auðvitað furðu margra þegar farið var að ræða efnisatriði frv. sem ekki var til en þannig háttaði til í janúarmánuði þegar umræða fór fram um frv. og þar hröpuðu margir að fljótfærnislegum ályktunum um hluti sem ekki voru orðnir til í raunveruleikanum.
    Ég tel að vel hafi tekist til með frv. sem hér liggur fyrir að samræma þessi sjónarmið. Annars vegar að leiða í lög, ef samþykkt verður, að treysta betur undirstöður samkeppninnar sem er nauðsynleg forsenda fyrir því að tiltekin hagræðing eigi sér stað í þessari atvinnugrein. Hins vegar að slá nokkurn varnagla varðandi jöfnunina sem við, margir þingmenn stjórnarliðsins, töldum að þyrfti að vera fyrir hendi í þessu frv. til þess að það gæti verið ásættanlegt. Sú trygging kemur fram í 10. gr. frv. og er með þeim hætti að ég tel fyrir mitt leyti að komið sé þar með til móts við þau sjónarmið sem ég var að lýsa.
    Ég held að það sé afar þýðingarmikið vegna þeirrar miklu umræðu sem hefur farið fram um olíuinnflutninginn að þessi mál hafi verið tekin til endurskoðunar. Það er ljóst að mjög mikil tortryggni var ríkjandi vegna þess skipulags sem var við lýði. Menn töluðu um að milli olíufélaganna ríkti í raun og veru engin verðsamkeppni, þar væri um að ræða þjónustusamkeppni vegna ákvæða verðlagslöggjafar. Þjónustusamkeppnin birtist í því að olíufélögin voru sífellt að reisa stærri og stærri olíumusteri og samkeppnin fór fram á því sviðinu en síður með því að þau reyndu að lækka verðið.
    Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart í ljósi þeirrar löggjafar sem hefur verið við lýði þar sem hagkvæm innkaup, ef þau hefðu verið til staðar, hefðu ekki endurspeglast í verðinu. Með þessu frv. er hins vegar brotið í blað að þessu leytinu. Með því frelsi í olíuviðskiptum, sem gert er ráð fyrir, munu hagkvæm olíuinnkaup endurspeglast í verðinu. Þess vegna má segja sem svo að sá sem gerir góð innkaup á olíu nýtur þess í verðlagningunni og væntanlega í betri samkeppnisstöðu. Eðlilega höfðu sumir áhyggjur af því, og sá sem hér stendur var meðal þeirra, að samkeppnin tryggði ekki þá jöfnun sem við teljum nauðsynlega á olíuverðlagningunni milli dreifbýlis og þéttbýlis, ekki endilega milli olíufélaganna því það er í sjálfu sér ekki keppikefli að mínu mati að olíufélögin séu öll með sama verð. Það er ekki markmiðið. Markmiðið er hins vegar, eins og kemur fram í 10. gr., að hið auglýsta verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum. Það er það sem við hljótum að keppa að en ekki að Skeljungur, Olíufélagið og Olís séu öll með eitt og sama verð þar sem ekki kemur fram hvort eitt félaganna geri betri innkaup en annað, hvort eitt félaganna dreifi olíunni með ódýrari hætti en annað.
    Ég tel að með tvennum hætti sé trygging fyrir því að jöfnun á olíuverðinu muni nást fram ef þetta frv. verður samþykkt. Það er annars vegar með þessum varnagla sem sleginn er í 10. gr. og ég hef gert ítarlega að umfjöllunarefni og hins vegar með því að olíuviðskiptin í landinu eru auðvitað með nokkuð sérstæðum hætti. Þau eru með þeim hætti að þessi þrjú olíufélög dreifa olíunni um landið og hafa komið upp mjög miklu þjónustuneti í því skyni. Þau hafa þess vegna bæði siðferðilega skyldu varðandi dreifinguna og einnig er það hluti af þeirri ímynd sem olíufélögin þurfa að skapa sér að þau útvegi viðskiptavinum sínum olíuna á sem sambærilegustu verði.
    Ég vil í því sambandi minna á að forstjóri Skeljungs ræðir þessi mál í Morgunblaðinu 4. jan. sl. og kemur inn á þessi atriði. Hann segist ekki hafa áhyggjur af bensíninu og telur að það verði á sama eða svipuðu verði alls staðar á landinu. Ég vek athygli á því að þetta eru hans orð áður en frv. sem hér liggur fyrir var orðið til í sinni endanlegu mynd. Hann segir jafnframt, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,,,Ef skrefið væri hins vegar stigið til fulls og verð yrði gefið algjörlega frjálst yrði hvert félag fyrir sig að reikna út hvaða hagsmunir væru í húfi á hverjum stað og mín skoðun er sú að félögin mundu kappkosta að geta boðið sem hagstæðast verð hvar sem væri á landinu,`` sagði Kristinn að lokum.``
    Ég held einmitt að þetta sé mjög þýðingarmikið. Ég er alveg sammála því sem menn hafa sagt hér að það er ekki að treysta á innræti olíuforstjóranna ef málið snerist bara um það. Alveg eins og við getum ekki sagt sem svo að það sé af einhverri sérstakri elskusemi eða ást á neytendum sem kaupmenn reyna að lækka vöruverð í samkeppninni núna. Það er ekki af sérstakri af ást á neytendum, það er einungis vegna þess að þeir hafa sjálfir hag af því. Fulltrúar þeirra fyrirtækja, sem eru að reyna að standa sig í samkeppninni, reyna að útvega neytendum sínum vöruna á sem líkustu verði. Ég gæti vel ímyndað mér að í dag sé málið þannig að víða úti um landið gætu olíufélög sagt sem svo að þau spöruðu við að leggja niður einhverja afgreiðslustaði á smæstu stöðunum. Engu að síður kjósa félögin að halda úti þessum afgreiðslustöðum vegna þess að það er nauðsynlegur þáttur í þeirri viðskiptalegu ímynd sem þau þurfa að halda á lofti til þess að vera eftir sem áður stórt og öflugt olíufélag sem nýtist öllum landsmönnum. Olíufélagið hf., svo ég taki dæmi af stóru myndarlegu fyrirtæki sem þjónar aðilum vítt og breitt um landið, yrði auðvitað ekki svipur hjá sjón ef það tæki þá afstöðu núna að loka einhverjum sjoppum og afgreiðslustöðum úti um landið af því að þeir hefðu ekki af þessu neina stundarhagsmuni að reka þar fyrirtæki. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að langtímahagsmunir þess olíufélags yrðu rækilega fyrir borð bornir með því að taka ákvörðun af því taginu. A.m.k. væri það ekki tákn um stórmannlega afstöðu ef olíufélag af þessu taginu tæki þá ákvörðun, þrátt fyrir allt sitt afl, að loka afgreiðslustað í fámennu byggðarlagi.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé ekki rétt sem hv. 2. þm. Suðurl. hélt fram áðan að frv. gangi í þá átt að auka ójöfnuð í þjóðfélaginu. Ég held að miklu nær og miklu réttara sé, sem var niðurstaða leiðarahöfundar Dags þegar hann hafði lesið rétta frv., að þetta frv. sé til allra bóta og tryggi að í olíuviðskiptum verði ekki gengið frekar á rétt þeirra sem í dreifbýlinu búa frá því sem nú er. En leiðarahöfundur og ritstjóri Dags, málgagns Framsfl., komst þannig að orði í blaði sínu á föstudaginn var, 6. mars. Það var niðurstaða ritstjóra Dags eftir að hafa borið saman frumdrög þau sem höfðu einhverra hluta vegna lekið út, og hafa náttúrlega ekki nokkra minnstu pólitísku þýðingu, við hina endanlegu gerð frv.
    Ég held að í raun og veru hafi tekist mjög vel að samræma hér sjónarmið sem ég hef rakið nokkuð ítarlega. Annars vegar það sjónarmið að nægjanlegri tryggingu fyrir hvoru tveggja, hagræðingu og jöfnun sé hægt að ná með því að gefa olíuverðlagninguna frjálsa. Hins vegar það sjónarmið að nokkurn varnagla þurfi að slá.
    Ég tel að þegar á allt er litið og frv. er skoðað af sanngirni í heild sinni sé ljóst að býsna vel hefur tekist til með það að ná þessum markmiðum báðum. Það sést kannski best á því að margir þeirra sem hafa talað hvað ákafast fyrir því að ganga enn þá lengra í þeim efnum að gefa olíuverðlagninguna frjálsa telja að varnaglaákvæðið í 10. gr. sé til trafala. Að mínu mati er það hins vegar til áréttingar og tryggingar á því markmiði sem menn settu sér þegar verið var að vinna þetta mál, m.a. innan þingflokka stjórnarflokkanna, að tryggja að sú jöfnun sem menn vilja viðhalda í þessum efnum sé við lýði og um leið að hvetja til nauðsynlegrar hagræðingar og þess að það komi fram í verðinu þegar eitt olíufélag gerir betur en annað, annaðhvort við kostnað á dreifingunni ellegar við innkaup á olíunni og að viðskiptavinir þess félags fái að njóta þess eins og eðlilegt er þegar vel tekst til við viðskipti af þessu taginu.