Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:32:00 (4170)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem gerði það að verkum að ég sá mig knúinn til að veita andsvar við ræðu hæstv. viðskrh. er þessi síendurtekni samanburður annars vegar á þeim kerfum austan tjalds, sem hafa leitt til ófarnaðar og skal ég vera síðasti maður til að mótmæla því, og okkar þjóðfélagi og því sem menn hafa verið að byggja hér upp á síðustu áratugum og hefur sett okkur í röð örfárra efnuðustu þjóða á einstakling í heiminum á sama tíma og austantjaldskerfin færðu þær þjóðir, sem áttu þær auðlindir sem fáar aðrar geta státað af, til algerrar örbirgðar.
    Virðulegi forseti. Eftir að ég átti þess kost á vegum Alþingis að dvelja í austantjaldsríkjunum nokkra síðustu dagana sem Sovétríkin gömlu lifðu, eftir að hafa kynnst kjörum og aðstæðum fólks þar, þá hef ég skömm á slíkum málflutningi sem hér var hafður uppi af hæstv. viðskrh. áðan. Ég hef skömm á því að þetta sé sífellt borið á borð þegar menn dirfast að verja að einhverju leyti þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í íslensku þjóðfélagi á síðustu áratugum, aðgerðum til jöfnuðar og réttlætis til að skapa þann sveigjanleika sem hefur þurft til til að færa okkur í hóp efnuðustu þjóða heimsins.